Ofangreind orð voru yfirskrift annars þings Evrópsku transgendersamtakanna sem haldið var í Berlín 2 - 4. maí 2008. Þau eru um leið áminning til allra um að mannréttindi eru víða fótum troðin, ekki einungis í þróunarlöndunum, heldur eru þau einnig þverbrotin víðast hvar í heinum vestræna heimi gagnvart transgender einstaklingum, ekkert einvörðungu af hálfu stjórnvalda, heldur almennt í samfélaginu.
Fólk er rekið úr vinnu, það fær ekki eðlilega læknisþjónustu, er sagt upp húsnæði, fyrirlitið og lagt í einelti fyrir þá sök eina að vilja vera það sjálft í samræmi við tilfinningar sínar. Það er rætt um það í hæðnistón, gert grín að því og mjög oft talað niður til þess í fjölmiðlum. Löggjafarvaldið tekur ekki tillit til þess í fjölmörgum ríkjum og setur því jafnvel slík takmörk að ómögulegt er að lifa upp til óska laganna og einasti kosturinn verður sá að leggjast í felur og læsa sig inni í skáp og gleypa lykilinn.
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að bindast samtökum á alþjóðlega vísu með misjöfnum árangri og var enn ein slík tilraunin gerð í Vínarborg í nóvember 2005 er nærri 130 transgender einstaklingar hittust í ráðhúsinu í Vín á fyrsta transgenderþinginu og bundust samtökum, Evrópsku transgendersamtökunum. Síðan þetta var hefur stjórn samtakanna unnið að uppbyggingu samtakanna. Það er ekki létt verk sem við tókumst á hendur á fjölmörgum fundum okkar, ýmist beint eða á símafundum því taka þarf tillit til margra sjónarmiða. Þannig eru viðhorfin í Austur-Evrópu gjörólík því sem er í Vestur-Evrópu og sömu sögu má segja um muninn á Norður-Evrópu og Suður-Evrópu, svo ekki sé talað um muninn á Evrópusambandinu og landanna sem eru utan þess. Þrátt fyrir þetta eigum við sameiginlegt markmið, að fá að lifa óáreitt og í sátt við sál og líkama og samfélagið allt.
Til að efla samhuginn hittumst við, rúmlega 180 einstaklingar frá 36 ríkjum, allt frá Íslandi til Kirgístan auk gesta frá Rómönsku-Ameríku og ræddum hugðarefni okkar í þrjá daga í Schöneberger rathaus í Berlín nú um helgina og reyndum að efla samkennd og samhug, hitta gamla og nýja vini og leggja línurnar fyrir baráttu næstu ára.
Ein af niðurstöðum þingsins var sú að við höfðum ekki unnið neina sigra frá fyrsta þinginu, en heildarþróunin er jákvæð og stefnan er í átt að auknu umburðarlyndi fyrir fólki hvers kyns eða kynhlutverks sem það er.
Á þinginu var minnst tveggja transgenderpersóna, þeirra Gisbertu og Lunu sem báðar voru frá Brasilíu en höfðu reynt að öðlast betra líf í Evrópu. Báðar voru þær myrtar í Portúgal á hrottafenginn hátt af hatursfólki í okkar garð, Gisberta í Porto í febrúar 2006 en Luna fannst myrt í ruslagám í Lissabon tveimur árum síðar.
Baráttunni fyrir mannréttindum er ekki lokið. Við erum rétt að byrja.
þriðjudagur, maí 06, 2008
6. maí 2008 - Make human rights work
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 12:39
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli