fimmtudagur, maí 29, 2008

29. maí 2008 - Ég er í fýlu út í flokkinn minn!

Við borgarstjórnarkosningarnar 2006 tók ég í fyrsta sinn afstöðu gegn flokknum sem ég hafði stutt frá því Alþýðubandalagið var í reynd lagt niður. Þegar Vinstri hreyfingin, grænt framboð ákvað að yfirgefa R-listann í Reykjavík, var ég ekki með lengur og gekk á hönd Samfylkingunni og hefi verið flokksbundin þar síðan.

Samvinna mín við flokkssystkini mín hefur gengið framar vonum og þótt ég hafi ekki reynt að troða mér fram í flokksstarfi, hefi ég fundið fyrir trausti mér til handa innan Samfylkingarinnar. Um leið hefi ég reynt að beita gagnrýnni hugsun á flokksstarfið en þó í sátt við allt og alla. Fólk veit sem er, að ég er hrifin af iðnaðaruppbyggingu og auknu samstarfi við Evrópuþjóðir, helst innan Evrópusambandsins, atriði sem skildu mig og Vinstrigræna að.

En nú er ég í fýlu. Ekki er það einungis vegna framboðsins í Öryggisráðið sem ég tel hið versta mál, heldur fyrst og fremst lífeyrismál alþingismanna og ráðherra.. Ég get ekki með nokkru móti sætt mig við að lífeyrismálinu verði frestað í lengri tíma. Forystumenn Samfylkingarinnar hétu okkur því að þessi mál skyldu tekin til endurskoðunar á nýju þingi, en draga nú eyrun í málinu.

Lífeyrisfrumvarpið var keyrt í gegnum Alþingi á nokkrum dögum á sínum tíma. Það hlýtur að vera hægt að henda því jafnhratt og það komst á. Með þessu er ég ekki að halda því fram að niðurfelling þessara sérkjara alþingismanna eigi að vera afturvirk, sem er brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, en hver sú vika sem líður án þess að lögin verða felld úr gildi, þýða framhald spillingar stjórnmálanna.

Ég set niðurfellingu þessara ólaga ekki sem skilyrði fyrir áframhaldandi stuðningi við Samfylkinguna, en ég verð að krefjast þess að þetta mál verði annað þingmál á hausti komanda (á eftir fjárlagafrumvarpinu) og að það verði ekki svæft í nefnd!


0 ummæli:







Skrifa ummæli