mánudagur, maí 12, 2008

12. maí 2008 - Af bókabrennum fyrir 75 árum

Þegar ég vaknaði á hvítasunnudagsmorguninn og hlustaði á morgunfréttirnar í útvarpinu var sagt frá því að á laugardag hefði verið minnst 75 ára frá bókabrennunum í Berlín, en þær fóru fram 10. maí 1933. Þar var brennt bókum eftir hina ýmsu höfunda sem ekki voru Þriðja ríkinu hliðhollir, gyðinga, sósíalista, og fleiri. Þá var þess sérstaklega getið að verstur hefði Karl Marx verið, en hann var bæði frumkvöðull kommúnismans og gyðingur.

Þegar Transgenderþinginu lauk í Berlín um síðustu helgi, ætluðu sumir þátttakenda að dvelja áfram í Berlín, en einhverjir ætluðu sér að vera viðstaddir vígslu minnismerkis um Magnus Hirschfeld og Institut für sexualwissenschaft sem starfaði í Berlín á árunum 1919 til 1933. Safninu var lokað af nasistum 6. maí 1933 og bókasafnið brennt með bókabrennunum miklu 10. maí, en það af starfsfólkinu sem ekki komst undan var sent í útrýmingarbúðir, þeirra á meðal Dorchen sem hafði farið í aðgerð til leiðréttingar á kyni tveimur árum áður og önnur manneskjan í heiminum sem hafði farið í gegnum leiðréttingarferli.

Sjálfur hafði stofnandi Institut für Sexualwissenschaft, Magnus Hirschfeld læknir og kynfræðingur (sexolog) verið í fyrirlestraferð um heiminn og gat einungis fylgst með ógnarfréttunum frá Berlín úr fjarlægð þar sem hann var staddur í París. Hann átti aldrei afturkvæmt til Þýskalands og lést í Nice í Frakklandi tveimur árum síðar. Í augum nasista þótti hann ugglaust enn verri en Karl Marx þar sem hann var gyðingur, sósíalisti og hommi og hafði skrifað bækur um rannsóknir sínar í kynfræðum.

Fyrir nokkrum árum síðan gerði Rosa von Praunheim leikna heimildarkvikmynd um Hirschfeld og stofnun hans í Berlín undir heitinu Der Einstein des Sexes og var myndin sýnd hér á landi við litla aðsókn á hinsegin kvikmyndahátíð snemma árs 2004. Það var synd því kvikmyndin var nokkuð góð sem heimildarkvikmynd og að mestu leyti laus við yfirdramatíseríngu bandarískra kvikmynda.

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item206016/


0 ummæli:







Skrifa ummæli