Síðasta vetur tók ég mig til og um leið og ég sneri öllu við í íbúðinni minni, festi ég allar háu bókahillurnar mínar að ofanverðunni. Ég veit ekki hvort slíkt hefði bjargað neinu fyrir austan, en slíkt hefði örugglega ekki aukið á skaðann á Selfossi í gær.
Þegar jarðskjálftinn 17. júní 2000 reið yfir var ég stödd þar sem ég bjó uppi á sjöttu hæð í blokk í Hólunum og það hristist rækilega, bækur duttu úr hillum og mér tókst með naumindum að bjarga tölvuskjánum mínum frá að fara í gólfið. Ég kveikti á sjónvarpinu og þar sáust fullorðnir karlmenn hlaupandi í ráðaleysi á grænu grasi, gjörsamlega viti sínu fjær og fólk alltum kring veinandi af skelfingu. Engar fréttir bárust í útvarpi til að byrja með og Ríkisútvarpið fékk falleinkunn, ekki bara hjá mér, heldur líka hjá fjölda fólks, nema þá helst forföllnum fótboltabullum.
Þegar jarðskjálftinn 29. maí 2008 reið yfir var ég í vinnunni þar sem ekkert alvarlegt skeði og allir unnu sína vinnu af festu og öryggi. Þegar kveikt var á sjónvarpi voru alþingismenn sýndir tala niður til þjóðarinnar. Síðan kom langt og mikið viðtal við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Björn Bjarnason er ekki í hópi uppáhaldsræðumanna minna og því leið ekki á löngu uns hækkað var aftur í útvarpinu og lækkað í Birni Bjarnasyni. Ég held bara að hann hafi verið leiðinlegri en fótboltaleikurinn 17. júní 2000. Allavega man ég ekkert hvað hann sagði svo vart hefur það verið merkilegt.
Heilmiklar upplýsingar fengust fljótlega í útvarpi og í vefmiðlum auk veðurstofu svo ekki var mikið að sækja í sjónvarpið, né heldur í gegnum Boldið á Stöð 2.
föstudagur, maí 30, 2008
30. maí 2008 - Af jarðskjálftum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:56
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli