miðvikudagur, maí 21, 2008

21. maí 2008 - Öldungadeild MH

Í hillunum fyrir aftan mig er lítið kver, viðurkenning sem er árituð af Örnólfi Thorlacius fyrrum rektor Manntaskólans við Hamrahlíð ásamt dagsetningunni 21. maí 1988.

Það var 1985 sem mér fannst gamla Vélskólanámið ekki gefa mér þá lífsfyllingu sem ég sóttist eftir og því ákvað ég að setjast á skólabekk að nýju og þótt vélstjórnarnámið væri talið vera talsvert fleiri eininga virði en menntaskólanám fékk ég það einungis metið til 36 eininga í menntaskóla og þá aðallega í raungreinum. Því var ekki um annað að ræða en að byrja í öldungadeild MH með áherslu á bókleg fög.

Námið gekk þolanlega og ég lauk því á þremur árum. Ég var að vísu úti á sjó einn vetur af þessum þremur og því var verkefnum bjargað með hjálp póstsins og svo með því að hagræða fríium með tilliti til prófa. Ég bætti það svo upp síðasta veturinn enda frá vinnu stóran hluta vetrarins vegna slyss sem ég hafði orðið fyrir um sumarið. Ofan á allt var ég svo virk í félagslífi öldungadeildar jafnframt því sem ég vann í eigin málum með hjálp sálfræðings sem starfaði við skólann. Ég lauk svo náminu vorið 1988 eins og lög gera ráð fyrir með 13 einingar umfram tilskilinn fjölda til stúdentsprófs.

Við útskriftina 21. maí 1988 þurfti ég að mæta þrisvar í pontu í hátíðarsal MH, fyrst til að taka við einkunnablaðinu, síðan til að taka við bókinni góðu úr hendi Örnólfs og loks til að halda þakkarávarpið fyrir hönd nemenda.

Síðan þetta var hefi ég tvisvar haldið kynningar í MH, um áratug síðar í Norðurkjallara á lagningadögum og loks nú í vor í sálfræðitíma þar sem margir voru að útskrifast rétt eins og ég fyrir tuttugu árum.

Í dag er vélstjórnarnámið metið um 70 einungum hærra en stúdentsprófið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli