fimmtudagur, júní 26, 2008

26. júní 2008 - Þjóðsöngvar allra landa sameinist!

Sú var tíðin að ég þjáðist af þjóðrembu. Þegar ég var sem verst mátti ég ekki sjá útlending án þess að fyllast viðbjóði og þótt ég hafi læknast að mestu á mörgum árum sem ég sigldi á milli landa, eimdi enn af þessari þjóðrembu minni þegar ég flutti til Svíþjóðar árið 1989. Þar hurfu síðustu leifarnar af þjóðrembunni þótt enn sé ég ósátt við einstöku menningarþætti þjóða sem eru okkur fjarlægar í háttum auk þess sem mér rennur enn vatn á milli skinns og hörunds er ég heyri Íslending syngja á útlensku á Íslandi.

Meðal þeirra þátta sem taldir eru tilheyra þjóðerni eru fáni og þjóðsöngur og um hvorutveggja hafa verið sett lög á Íslandi. Ef þarf að hvetja til samstöðu þjóðarinnar nægir að veifa fánanum og þá berja sér allir á brjóst og vaða út í opinn dauðann með þjóðsönginn á vörunum. Íslenski þjóðsöngurinn er ekki þesslegur að við syngjum hann á banabeði á vígvellinum, enda gamall lofgjörðarsálmur, en fáninn stendur fyllilega fyrir sínu. Bara verst að við eigum enga óvini til að berjast við þrátt fyrir vonda tilraun Davíðs og Halldórs til að eigna okkur slíkan fyrir fáeinum árum.

Í stað raunverulegra óvina hefur íslenska þjóðin eignast „óvini“ á íþróttavellinum. Þar skilur á milli mín og þjóðarinnar þar sem ég get ekki sagt sumum þjóðum stríð á hendur á íþróttasviðinu. Ég er oft hrifin af Þýskalandi, stundum Svíþjóð en sjaldnast Íslandi á því sviði. Helst er ég þó hrifin af einstaklingum sem standa uppúr og eru öðrum fremri. Í Evrópukeppninni sem senn fer að ljúka var ég hrifnust af Hollandi vegna frábærrar frammistöðu þeirra fyrstu leikina. En svo fór sem fór.

Ég hafði lúmskt gaman af þjóðsöngvunum. Þótt þýski þjóðsöngurinn sé sá sem blæs mér baráttu í brjóst, fóru Ítalirnir með yfirburðasigur þegar þeir sungu þjóðsönginn sinn í upphafi hvers leiks. Í síðasta leiknum sem þeir spiluðu, gegn Spáni, sungu allir Ítalirnir hástöfum þjóðsönginn sinn misjafnlega fölskum rómi á meðan Spánverjarnir steinþögðu þegar þeirra þjóðsöngur var leikinn. Allir vita hvernig fór en Ítalirnir fóru heim í sumarfrí sáttir við sína frammistöðu, enda urðu þeir Evrópumeistarar í þjóðsöngnum.

Kannski þarf að finna hvetjandi þjóðsöng með alþýðlegu lagi til að ég fari að þjást af þjóðrembu á ný.


0 ummæli:







Skrifa ummæli