Það sem helst heyrði til tíðinda um helgina var að tveir skallapopparar hefðu gengið í hjónaband. Að vísu bundust þeir ekki hvor öðrum í heilögu hjónabandi, heldur fóru þeir sitt í hvora áttina, Bubbi kvæntist henni Hrafnhildi sinni (sem er ekkert skyld Hrafnhildi ofurkisu) og gaf út plötu, en gamli góði Villi kvæntist henni Gunnu sinni og hætti sem sem oddviti í borgarstjórnarmeirihlutanum ef meirihluta skal kalla.
Mér finnast annars einkennileg skilaboðin sem berast okkur í Morgunblaði dagsins. Á forsíðunni er sagt frá því að formaður og samstarfsmenn hafi þrýst á um ákvörðun, en að Vilhjálmur tók af skarið. Ég spyr bara, hvernig var þrýst á vesalings Villa? Var notuð þumalskrúfa eða kannski bara gamaldags aðferðir spænska rannsóknarréttarins sem nú hafa verið rifjaðar upp fyrir okkur vesæla farsímaeigendur? Ekki hefur hann verið beittur þrýstingi af samstarfsfólki sínu í borgarstjórn sem hafði hvað eftir annað lýst yfir stuðningi við hann og að þau flykktu sér að baki honum (eins og sjá má af sex andlegum rýtingum í baki vesalings Villa).
Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að nú sé að hefjast valdabarátta fyrir alvöru í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.
-----oOo-----
Svo fær Guðni Már hamingjuóskir með daginn
mánudagur, júní 09, 2008
9. júní 2008 - Tveir skallapopparar í hjónaband
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 17:25
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli