föstudagur, júní 13, 2008

Föstudagur 13. júní 2008 - Sumarið er komið!

Það eru víða byrjuð sumarleyfi á Íslandi. Búið er að loka skólunum og Alþingi er lokað og þingmenn farnir heim í hérað að sinna ærburði (sauðburður er álíka mikið öfugmæli og undantekningin sem sannar regluna) og að undirbúa sláttinn. Þá er sjónvarpið komið í sumarfrí og fatt annað að að hafa þar en fótboltaleikir.

Við slíkar aðstæður er fátt að gera annað en að fara líka í sumarleyfi. Ég verð frá vinnu næsta mánuðinn og vonast til að geta sett tærnar upp í loft á meðan og jafnvel farið eina og eina gönguferð. Um leið sé ég enga ástæðu til að blogga daglega, en óttist eigi. Gömlu pistlarnir mínir verða öllum aðgengilegir þótt ég verði víðs fjarri og aldrei að vita nema ein og ein færsla læðist inn, t.d. í þeim tilfellum sem blörraður borgarstjóri gerir eitthvað skammarstrik af sér.

Að undanförnu hefi ég fengið nokkrar skammir fyrir að vera hægrisinnuð af því að mér líkar ekki málflutningur Bjarkar Guiðmundsdóttur í umhverfismálum, sömuleiðis fyrir að vera umhverfissóði af því að ég styð uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi svo ekki sé talað um baráttuna gegn því að gera nótt að degi á Seyðisfirði og leggja niður sólarleysismánuðina á Ísafirði. Til að lofa lesöndum mínum að skamma mig eilítið betur ætla ég því að setja inn gamla færslu um ál sem birtist áður 3. febrúar 2007 og sýnir ágætlega hug minn til þessa eðalmálms á sama tíma og ég mótmæli atvinnuuppbyggingu á Bíldudal með því að sá atvinnulausi fái vinnu í olíuhreinsunarstöðinni sem ég vona að muni aldrei rísa.

Mig langar til að fjalla aðeins um hinn hataða málm ál sem virðist bannfærður í stjórnmálaumræðunni á Íslandi.

Þessi málmur er til margra hluta nytsamlegur, hann leiðir vel, hann er léttur eða aðeins þriðjungur af eðlisþyngd stáls. Hann er sterkur og þolinn og er notaður allt í kringum okkur. Sagt er að í Boeing 747 risaþotu séu um 75 tonn af áli. Ef stál væri notað þar í stað áls, kæmist fullhlaðin flugvélin trúlega aldrei á loft og jafnvel þótt finna mætti flugvöll sem væri nógu langur til að hún kæmist í loftið, þyrfti hún að lenda aftur á næsta flugvelli til að taka eldsneyti. Með öðrum orðum. Notkun áls í farartæki hefur gert það að verkum að þau brenna miklu minna eldsneyti en annars væri. Smábíll þeirrar gerðar sem Ómar Ragnarsson dreymir um, yrði á annað tonn að þyngd ef ekki væri vegna álsins í honum. Sömu sögu má segja um flugvélina hans. Hún myndi eyða óhemju eldsneyti í flugtaki ef ekki væri vegna álsins í Frúnni.

Þægindin við meðhöndlun efnisins hefur gert að verkum að útbreiðslan eykst stöðugt. Jafnvel þótt komnir séu nýir og léttari málmar á markaðinn eins og magnesíum eru þeir enn ekki samkeppnishæfir við ál í verði. Því mun ál verða ráðandi á markaðnum í mörg ár í viðbót auk þess sem einnig þarf dýrar og orkufrekar framleiðsluaðferðir við magnesíumvinnslu.

Það er álinu að miklu leyti að þakka að enn er ekki orðin olíuþurrð í heiminum.

Á Íslandi hefur tekist að skapa mjög neikvætt andrúmsloft gagnvart áliðnaði og menn sem kalla sig umhverfisverndarsinna ganga á torg og mótmæla þessum ágæta léttmálmi á sama tíma og heimurinn krefst meira áls. Það er ljóst að ef álið verður ekki framleitt á Íslandi, verður það framleitt annars staðar, hugsanlega með rafmagni sem framleitt er með olíu eða kolum með verulega auknum gróðurhúsaáhrifum.

Ég held að það sé kominn tími til að snúa umræðunni við og fagna framleiðslu léttmálma á Íslandi. Það er svo önnur saga að mikið af notuðu áli endar á haugunum í stað þess að fara í endurvinnslu og mætti gjarnan bæta við einu álveri til að endurvinna gamalt ál.


Ég læt heyra í mér í næsta mánuði eða fyrr ef ástæða þykir til.


0 ummæli:







Skrifa ummæli