Í gær var tilkynnt opinberlega að Vilhjálmur Þórmundur væri hættur sem oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og að Hann Birna væri tekin við. Ekki veit ég hvort þessi ákvörðun hafi verið tekin á æðri stöðum eða innan borgarstjórnarflokksins sjálfs, en það skiptir ekki mestu máli, heldur hitt að vesalings Villi var orðinn blóraböggull fyrir mistökin í einhverju stórkostlegasta útrásartækifæri sem hefur gefist lengi, REI málinu.
Hanna Birna hefur vissulega verið býsna skelegg í opinberri umræðu að undanförnu, en hvort það nægi til að lyfta fylgi flokksins eitthvað hér í Reykjavík skal ósagt látið. Stór hluti af fylgishruninu er ekki kominn til vegna REI-málsins, heldur hins að Sjálfstæðisflokkurinn, að meðtalinni Hönnu Birnu, studdi óhæfan mann til setu í stól borgarstjóra, mann sem hefur miskunnarlaust troðið inn einkavinum sínum í æðstu embætti síðustu mánuði, sem og reynt að kollvarpa þeim skipulagshugmyndum sem jafnvel Sjálfstæðismenn hafa stutt að undanförnu. Þá snerist Sjálfstæðisflokkurinn öndverður við sjálfan sig í skoðunum er hann greiddi tillögum þess blörraða atkvæði að láta mig kaupa fúasprekið á Laugavegi 4-6 á 580 milljónir.
Sömuleiðis verður að hafa í huga að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins stóð allur, að undanskildum Villa sjálfum, að því að klaga hann fyrir formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins á síðasta hausti, verknaður sem varð þáverandi meirihluta að falli.
Vilhjálmur Þórmundur er örugglega hvíldinni feginn eftir orrahríð vetrarins og megi hann njóta hvíldarinnar framundan um leið og sjálfsagt er að óska honum og unnustu hans til hamingju með giftinguna í dag.
sunnudagur, júní 08, 2008
8. júní 2008 - Um vesalings Villa og "vini" hans
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 10:05
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli