Í dag er blásið til fagnaðar. Það tók einungis 30 ár og nokkra daga að vinna fullnaðarsigur gagnvart lagasetningavaldinu og öðlast full réttindi samkynhneigðu fólki á Íslandi til handa. Og blaðamenn spyrja hvort baráttunni sé þá ekki lokið?
Það er enn löng og erfið leið framundan. Þótt Alþingi og ríkisstjórn hafi viðurkennt tilverurétt samkynhneigðra og þjóðkirkjan opnað dyr sínar fyrir samkynhneigðum er slíkt enginn lokasigur. Það er enn til fólk þarna úti sem neitar að horfast í augu við þá staðreynd að til er fólk sem er samkynhneigt. Því fólki fer að vísu fækkandi, en á meðan fordómar eru til verður að halda baráttunni áfram. Þá má ekki gleyma því að Samtökin 78 eru virk í alþjóðlegri baráttu Amnesty International og IGLHRC fyrir mannréttindabaráttu LGBT hópa (samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks) um allan heim.
Í viðtali við Morgunblaðið í gær benti Frosti Jónsson formaður Samtakanna 78 á það tómarúm sem aðrir hópar búa við í samfélaginu og benti sérstaklega á transgender einstaklinga, en ríkisvaldið hefur hingað til lokað augunum fyrir tilverurétti og forðast að takast á við málefni okkar, í besta falli bent á úrelt og hlægileg nafnalög sem ástæðu til að þegja mál okkar í hel. Þar er enn reynt að hjúpa málin með þögninni.
Þegar ég horfi aftur í tímann, á síðustu tólf árin sem liðin eru frá því ég kom heim frá Svíþjóð, hefur í reynd ekkert þokast í réttindamálum transgender fólks á Íslandi. Einasta breytingin hefur átt sér stað hjá almenningi sem smám saman hefur aukið traust sitt í okkar garð, en hið opinbera vald heldur áfram að hunsa okkur.
Það hefur vissulega margt gerst á bakvið tjöldin. Íslenska þjóðin veit nú að við erum til og íslenska þjóðin er farin að taka tillit til málefna okkar. Þá hefur nefnd sem á sínum tíma var sett á laggirnar að frumkvæði Ólafs Ólafssonar þáverandi landlæknis, bætt verulega störf sín með auknu frjálsræði og vönduðum vinnubrögðum gagnvart þeim einstaklingum sem sækjast eftir leiðréttingu á kyni. Eftir sitja nafnalögin, hin heilaga kýr sem undirstrikar mannréttindabrotin gagnvart okkur.
Um leið og ég óska öllu samkynhneigðu fólki til hamingju með glæsilegan árangur baráttu sinnar á Íslandi, ítreka ég enn og aftur að baráttunni er hvergi nærri lokið.
LGBT = Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender
IGLHRC = International Gay and Lesbian Human Rights Commisson.
föstudagur, júní 27, 2008
27. júní 2008 - Er baráttunni þá lokið?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:34
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli