Góður vinur minn í Svíþjóð eignaðist eitt sinn nýjan bíl, einn með allskyns skemmtilegum útbúnaði þar á meðal hraðastilli. Þegar hann var á leið heim úr vinnu stillti hann hraðann á 107 km/h þegar hann þaut heim eftir 90 km kaflanum á leiðinni, vitandi að lögreglan í umdæminu var ekki að gera sér rellur út af ökuhraða sem var undir 110 km á 90 km kaflanum. Vandamálið var bara að á leiðinni var smákafli þar sem hraðinn var minnkaður niður í 70 km.
Eitt sinn er vinur minn var á leið heim úr vinnu gleymdi hann sér eitt augnablik þegar hann kom inn á 70 km kaflann . Auðvitað var lögreglan að mæla á þeim slóðum á sama tíma og vinurinn þurfti að ferðast með strætisvagni mánuðina á eftir.
Í fyrradag hófst vinna við endurnýjun á umferðarskiltum við helstu hraðbrautir Svíþjóðar, en að aflokinni gagngerðri endurskoðun á ökuhraða í Svíþjóð hafa nýjar reglur um ökuhraða tekið gildi. Þótt ökuhraðinn hafi verið minnkaður víða með þessum nýju reglum, þá hefur hann verið aukinn á öðrum stöðum og er nú 120 km/h á bestu hraðbrautum landsins en var mestur 110 km/h.
Ekki veit ég þó hvort vinur minn fagni þessu neitt því mér sýnist á kortum sem að hraðinn verði hinn sami og áður á mestallri leiðinni sem hann ekur venjulega heim úr vinnu.
http://www.vv.se/templates/page2_2____23932.aspx
-----oOo-----
Svo fær eldri sonurinn hamingjuóskir með þann merka áfanga að vera loksins kominn á fertugsaldurinn.
miðvikudagur, september 17, 2008
17. september 2008 - Umferðarhraði
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 02:11
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli