fimmtudagur, september 18, 2008

18. september 2008 - Eitt hænufet í baráttu transgenderfólks


Ég fékk fréttatilkynningu á arabísku á miðvikudag og sem barst mér í gegnum Transgender Europe. Hún fjallar um stórkostleg þáttaskil í afstöðu trúarlegra yfirvalda í Kuwait gagnvart transgender fólki, en múslímskur klerkur og fræðimaður í Kuwait hefur haldið því fram að það sé ásættanlegt trúarinnar vegna að leiðrétta kyn fólks.

Í stuttri útgáfu á ensku af tilkynningunni er það undirstrikað að engra breytinga sé að vænta í afstöðu yfirvalda gegn samkynhneigð. Transgender sé læknanlegur sjúkdómur með aðgerð til leiðréttingar á kyni, en samkynhneigð haldi áfram að vera dauðasynd að mati klerkanna.

Sjálf þekki ég ekki nóg til múslímskra kennisetninga til að geta áttað mig á sharia lögunum og valdi þeirra yfir öðrum lögum, en skilst þó að með þessari breytingu sé opnað fyrir möguleika transgender fólks til að gangast undir í aðgerð í ríkjum sunní-múslíma. Um leið verðum við að óska þess sem heitast að möguleikinn verði ekki notaður til að pynta fólk og refsa fyrir samkynhneigð.

Aðgerðir til leiðréttinga á kyni hafa verið þekktar meðal shíta-múslíma, t.d. í Íran, en vitað var að Ayatollah Khomeini var samþykkur slíkum aðgerðum eftir byltinguna 1979. Um leið var þetta samþykki notað af stjórnvöldum til að kúga samkynhneigt fólk í Íran í kynskipti fremur en að taka homma af lífi með hengingu, en fyrir homma, rétt eins og aðra karlmenn er slík aðgerð hið næstversta sem fyrir þá getur komið, einungis dauðinn er verri.

Þessi frétt austan úr Persaflóa er því nokkurt fagnaðarefni fyrir okkur sem flokkumst sem transgender, en um leið er fréttin tregablandin vegna samkynhneigðra vina okkar.

Um ástand þessara mála í Íran bendi ég fólki á bókina „Women with Mustaches and Men without Beards“ eftir írönsku fræðikonuna í sagnfræði og kvennasögu, Afsaneh Najmabadi. Bókin var gefin út af Kaliforníuháskóla árið 2005.

Um leið minni ég á fyrri færslu um sama efni: http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/320638/


0 ummæli:







Skrifa ummæli