Í mörg ár hefi ég fylgst með Spaugstofunni með athygli og aðdáun. Þótt stundum hafi einstöku Spaugstofuþættir verið nánast þreytandi tilraun til að brjótast út úr hefðbundnu spaugstofumunstri með stuttum atriðum um menn og málefni líðandi stundar, hefi ég ávallt hlakkað til þess er Spaugstofan fer í gang að hausti með nýjum ferskleika og endurnýjuðum krafti.
Eitt er þó verulega athugavert við Spaugstofustrákana. Þeir reyna alltaf að vera góðu gæjarnir. Ef einhver reynir að slá á puttana á þeim, hlýða þeir og hegða sér betur næst. Þar má nefna atriði eins og þegar móðguðu biskupinn fyrir páska og eins þegar þeir gerðu góðlátlegt grín að blörruðum borgarstjóra og létu móðgunargirnd hans svínbeygja sig í kjölfarið.
Nú byrjaði haustið dauflega eftir að fjöldi skemmtilegra atburða fór framhjá Spaugstofunni meðan hún var í sumarleyfi. Af einhverjum ástæðum óttast ég að ef hún verður ekki beittari en nú á laugardagskvöldið, muni áhorfið hrynja í haust og fleiri áhorfendur snúa sér að Stöð 2. Það þýðir ekkert að hlusta á einhverja siðavanda bloggara og misheppnaða stjórnmálamenn segja sér fyrir verkum.
Ef Spaugstofan vill endurheimta fyrri stöðu í samfélaginu, verður hún að ganga út á ystu mörk þess sem almenningur sættir sig við og helst að fá kirkjuna, hirðfífl bloggsins og misheppnaða pólitíkusa alla upp á móti sér. Ef Spaugstofan treystir sér ekki til þess, er best að leggja hana niður og yngja hressilega upp í stétt grínleikara.
sunnudagur, september 28, 2008
28. september 2008 - Daufleg spaugstofa
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:41
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli