Ég hefi ekki gert mikið af því að stela hugmyndum frá öðrum, hvað þá heilu færslunum. Nú ætla ég að gera þá undantekningu að rifja upp færslu frá æskuvini mínum Herði Þór Karlssyni sem var alveg miður sín eftir einhverja hundasýningu hundaræktarfélagsins, enda kom ekkert hundsnafn þar fyrir sem minnti á eðlileg heimkynni hunda, íslenskar sveitir.
Tjah...... Hvað varð um Snata, Lubba, Klóa og Týra og þá félaga? Eigandinn getur varla kallað á blessaðar skepnurnar. Að halda hunda er gaman, en þegar ræktunin er komin út í þessi vísindi fer þetta að verða svolítið flókið. Þessi ónefni í fréttinni sem ég hér vitna til minna um lítið á hunda. Kannske ég sé orðinn svona gamaldags.
Ég held að ég verði að taka undir orð vinar míns. Ég vil þó gera þá undantekningu að ég ber virðingu fyrir eiganda einnar tíkur sem gaf tíkinni sinni nafnið Brynhildur borubratta. Slíkt segir meira um persónuleika dýrsins en einhver ónefni á borð við Bernegården´s Prince Of Thieves eða þá Homerbrent Kokuo. Ég get heldur ekki ímyndað mér annað en að síðastnefndi hundurinn sé ávallt kallaður Heimabrenndur Kúkur.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/28/prins_thjofanna_fremstur_medal_jafningja/
sunnudagur, september 28, 2008
29. september 2008 - Hvar voru Snati og Kátur?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:29
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli