Eins og allir vita sem fylgjast með blogginu mínu, þá er ég einlægur aðdáandi enskrar knattspyrnu þótt ég hafi lítið fjallað um þau mál að undanförnu. Það er eðlilegt. Það hefur nefnilega allt gengið á afturfótunum hjá liðunum mínum að undanförnu. En suma daga lyftist brúin örlítið.
Um daginn lifnuðu vonir um að liðin mín myndu eigast við í bikarkeppninni (FA cup) þann 27. september. Þetta var skelfilegur tími þar sem ég sá fyrir mér að ég yrði að mæta á völlinn með tvo trefla og tvo fána í höndunum, einn fyrir Halifaxhrepp og annan fyrir United of Manchester. Aldrei fór þó svo að liðin mættust því sterkara liðið, United of Manchester skítlá í leik gegn Nantwich Town og datt þar með úr bikarnum og það verður því Nantwich sem mætir Halifaxhreppi. Ekki nenni ég að borga heilan flugmiða fyrir þann auma leik, enda geng ég út frá því að Halifaxhreppur mali barnfóstrurnar eftir viku.
Eitthvað er farin að lyftast brúnin á mínum mönnum í Halifaxhreppi því þeir unnu Salford með sjö mörkum gegn einu á laugardag og virðast ætla að komast upp i baráttuna um sæti í sjöundu deild. Í sjöundu deildinni situr svo United of Manchester sem fastast í sautjánda sæti eftir steindautt jafntefli gegn Verkstæðisbæ, en allt virðist ganga enn á afturfótunum, einungis komnir með átta stig eftir átta leiki. Ef þeir ætla að halda svona áfram, endar leiktíðin með falli, en við skulum vona að þeim takist að hrista af sér slenið þótt sífellt verði erfiðara að halda áfram reglunni, að vinna sig upp um eina deild á ári.
Á Laugardalsvelli unnu stelpurnar okkar bikarinn. Loksins eitthvað jákvætt í íslenska boltanum
sunnudagur, september 21, 2008
21. september 2008 - Fótboltafár
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:55
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli