mánudagur, september 29, 2008

30. september 2008 - Hefndaraðgerð ónefnds seðlabankastjóra gegn Jóni Ásgeir?

Rétt eins og þorri almennings á Íslandi, var ég agndofa yfir yfirtöku Seðlabankans, alias ríkisins, á Glitni á mánudag. Ég kvíði framhaldinu og þeirri hugsanlegu skriðu gjaldþrota sem verður í kjölfarið.

Það var ekki til að bæta úr áhyggjunum að Þorsteinn Már Baldvinsson virtist eins og hræddur við að tjá sig, en sagði samt eitt og annað sem velta má fyrir sér, atriði sem eru ekki alveg í samræmi við orð Davíðs um að annars yrði Glitnir gjaldþrota. Glitnir verður ekkert gjaldþrota fyrr en mál hans er komið til gjaldþrotameðferðar og tilviljanakenndur lausafjárskortur virðist ekkert óyfirstíganlegur þröskuldur, ja nema auðvitað ef ónefndum seðlabankastjórum er illa við ónefnda kjölfestufjárfesta í Glitni. Í slíku tilfelli er hægt að segja stopp, þið fáið enga peninga hér, en við skulum hirða bankann af ykkur. Það skiptir svo engu máli hvort hluthafarnir fái að halda 25% af bankanum eður ei, það er erfitt að láta heilt viðskiptaveldi lifa áfram ef peningarnir eru teknir af því.

Hin eindregna andstaða frjálshyggjupostulanna við ríkisvæðingu spilar einnig rullu í ferlinu. Það er hægt að éta ýmis grundvallaratriði ofan í sig ef þarf að koma andstæðing á kné, ekki hvað síst ef andstæðingurinn heitir Jón Ásgeir Jóhannesson. Ég veit ekki hvort við fáum allan sannleikann upp á yfirborðið á næstunni, en mig grunar samt að þess verði ekki langt að bíða uns eitt og annað leki út af því sem raunverulega gerðist nóttina sem kreppan skall á Íslandi.

Það má svo velta fyrir sér af hverju ónefndur seðlabankastjóri keypti íslenskan banka á 600 milljón evrur þegar haft er í huga að hann er á móti öllu evrutali.


0 ummæli:







Skrifa ummæli