fimmtudagur, september 25, 2008

25. september 2008 - Af einkavæðingu orkuvera

Það er ekki oft sem skoðanir mínar standa vinstra megin við skoðanir Helga vinar míns Hjörvars, en það skeði samt í gær. Þær hugmyndir sem Helgi hefur lagt fram um að rekstur orkuvera verði einkavæddur eru mér alveg á móti skapi.

Orkuverið sem ég vann við í Stokkhólmi lenti í höndum markaðsaflanna nokkru eftir að ég hætti þar. Um leið var hafist handa um að „spara“ í mannahaldi og hópi vélfræðinga var sagt upp störfum. Fyrirtækið var þó fljótt að reka sig á vegg og þurfti að fjölga á ný. Þá reyndust vélfræðingarnir búnir að ráða sig í önnur störf. Fyrir bragðið þurfti að ráða nýja og gjörsamlega reynslulausa vélstjóra/vélfræðinga til starfa og þjálfa upp frá grunni með ærnum kostnaði.

Annars staðar hefur sparnaðurinn komið fram í sparnaði á viðhaldi því ekki er það ódýrasta alltaf það besta. Ef ekki er hægt að skera nóg niður í einkarekstri til að nægur arður verði af starfseminni bitnar sparnaðurinn oft á viðhaldinu. Þetta þekkja Bandaríkjamenn manna best og er Enron gott dæmi um slíkt. Annað dæmi var þar sem reynt var að kenna Kanadamönnum um raðútslátt sem átti sér stað á austurströnd Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum. Við rannsókn kom í ljós veikur hlekkur hjá einu orkuveitufyrirtæki innan Bandaríkjanna þar sem sparnaði hafði verið beitt á miskunnarlausan hátt í viðhaldi.

Nei, höldum stóru orkufyrirtækjunum áfram í almenningseigu og reynum þannig að tryggja lágmarkstjón við alvarlegar bilanir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli