fimmtudagur, september 04, 2008

4. september 2008 - Ég játa syndir mínar.

Ólafur F. Magnússon fyrrum borgarstjóri hafði uppi stór orð um andstæðinga sína í hádegisútvarpinu á miðvikudag. Ekki aðeins gaf hann fyrrum samstarfsmönnum sínum í Sjálfstæðisflokknum langt nef, heldur bar hann þá sök upp á „minnihlutaflokkana“ í borgarstjórn að hafa lagt sig í einelti.

Ég skil þetta mjög vel. Miðað við framkomu Ólafs F. Magnússonar í garð „minnihlutaflokkanna“ í borgarstjórn Reykjavíkur, finnst mér mjög eðlilegt að þeir hafi lagt hann í einelti, enda brást hann trausti þeirra á illilegan hátt og skapaði sér það álit að ekki væri hægt að treysta Ólafi F. Magnússyni í samstarfi fleiri flokka.

Auk „minnihlutaflokkanna“ viðurkenni ég fúslega að hafa lagt Ólaf F. Magnússon í einelti á bloggi mínu. Ekki var það vegna þess að mér væri svo illa við manninn, heldur af því að mér þykir vænt um íbúa Reykjavíkur sem og budduna mína sem útsvarsgreiðanda í Reykjavík. Nú reigi ég mig í allar áttir og monta mig af því að hafa fengið að heyra frá sjálfum Ólafi F. Magnússyni að ég hafi átt þátt í að leggja hann í einelti.

Um leið ítreka ég þá frómu ósk mína að Ólafur F. Magnússon finni sér einhvern annan starfsvettvang í framtíðinni en pólitík. Þar er hann vonandi búinn að ljúka störfum sínum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli