Það hefur marga kosti að búa nálægt vinnunni sinni, en þó ekki alltaf.
Hér á jarðhæð hússins býr stór fressköttur sem kallaður er Tómas. Fannhvítur á lit, en eins og sæmir mörgum hvítum karlinum, þykir hann nokkuð árásargjarn. Það er allavega sú tilfinning sem hún Hrafnhildur mín ofurkisa hefur honum því ef Tómas er að þvælast nærri útidyrunum út í garð, velur Hrafnhildur að fara fremur út framdyramegin þegar hún er að fara út á lífið því annars er hætta á slagsmálum.
Ég hefi aðeins reynt að siða Tómas til, beita hann jákvæðum aga, gefa honum harðfiskbita þegar hann lætur kisurnar mínar í friði, en ekkert ef hann byrjar með dólgslætin. Þetta hefur gefist svo vel að nú á hann það til að flýja undan Tárhildi vælukisu þegar hún hvessir sig við hann og er að mestu hættur tilraunum sínum til að komast að Hrafnhildi ofurkisu. Um leið hefur harðfiskurinn þann óhjákvæmilega ókost með sér að Tómas eltir mig ef hann sér mig úti í garði á kvöldin að sækja mínar kisur, enda eru þær mjög siðprúðar og sofa í sinni sæng á nóttunni.
Ég var á næturvakt aðfararnótt mánudags. Þar sem ég hafði nýlega lokið einhverju símtali snemma um morguninn og var að skrá eitthvað í dagbókina, heyrði ég eitthvert ámáttlegt væl neðan við opinn gluggann á vinnustaðnum. Ég fór út að glugganum til að athuga hvers hljóðið væri og viti menn. Beið þá Tómas í grasinu fyrir neðan og hóf hinn háværasta söng, dinglaði skottinu í ákafa og beið þess að sjá harðfiskbita koma út um gluggann.
mánudagur, september 08, 2008
8. september 2008 - Kötturinn Tómas
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 15:01
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli