laugardagur, febrúar 28, 2009

28. febrúar 2009 - Um söfnunarlíftryggingar

Haustið 2000 bankaði sölumaður einn upp á hjá mér og bauð mér svokallaða söfnunarlíftryggingu sem hann fullyrti að væri miklu betri og öruggari en svokallaður séreignarsparnaður. Þótt ég véfengdi sum orða hans, virti ég orð hans og samþykkti að skrifa mig fyrir svokallaðri Certus söfnunarlíftryggingu, en þó einungis að upphæð 5000 krónur á mánuði og ég hóf greiðslur inn á þennan reikning í ársbyrjun 2001.

Svo liðu árin. Það sem tekið var af VISA reikningnum mínum hækkaði eitthvað í tímanna rás og var komið í tæpar 7000 krónur á mánuði á síðasta ári, en af einhverjum ástæðum fékk ég ekki fyrsta yfirlit fyrr en þremur árum síðar, þ.e. í ársbyrjun 2004. Er ég leit yfir fyrsta yfirlitið varð mér ljóst að „gleymst“ hafði að segja mér frá því að fyrstu greiðslurnar rynnu beint í vasa sölumannsins án þess að neitt kæmi inn til uppbyggingar eigin sjóðs. Þá hafði Alþjóðafjárfestingarmiðlunin sem ég hafði keypt af umrædda líftryggingu runnið inn í Alþjóðalíftryggingafélagið og enn síðar rann það inn í eitthvað sem heitir Kaupþing Líf. Með því að umrætt ákvæði hafði „gleymst“ sem og að senda mér yfirlit fyrstu tvö árin, kom villan ekki í ljós fyrr en sjóðurinn var farinn að dafna að nýju, þótt enn vantaði mikið upp á að ná inngreiddum peningum í formi fjármagnstekna árið 2004.

Ég var orðin sæmilega sátt við umrædda söfnunarlíftryggingu árin 2006 og 2007, en þá hækkaði inneign mín talsvert meira en nam innborgunum, en þó ekki meira en svo að í ársbyrjun 2008 hafði ég greitt samtals um 470 þúsundir í sjóðinn sem en sjóðurinn hafði þá vaxið á sjö árum í 612 þúsundir.

Á síðasta ári greiddi ég um 70 þúsund í sjóðinn, en ekki var innheimt síðustu mánuði ársins vegna bankahrunsins. Í gær fékk ég loksins yfirlit yfir stöðu mína og reyndist hún komin niður í 359 þúsund. Samkvæmt því hefði ég betur geymt aurana mína undir koddanum öll þessi ár því að um 540 þúsunda króna heildarinngreiðslur voru orðnar að 359 þúsundum, semsagt að hreint tap af þessari söfnunarlíftryggingu er orðið um 180 þúsund krónur.

Ég held að ég biðji lögfræðing fjölskyldunnar um að krefjast skýringa á þessari miklu rýrnun og jafnframt að innheimta þessa peninga á þann hátt að það verði sem sársaukaminnst fyrir mig og mína. Það er að minnsta kosti ljóst að ég mun ekki eiga frekari viðskipti við Kaupþing líf í framtíðinni eða frá þeim degi sem þessir aurar verða komnir úr bankanum.

föstudagur, febrúar 27, 2009

27. febrúar 2009 - Tryggingastofnun ríkisins

Ein þeirra stofnanna sem eru illa þokkaðar af mörgum er Tryggingastofnun ríkisins. Ekki kann ég að útskýra af hverju það er, en grunar að eldra fólk og öryrkjar sem hafa fundið vanmátt sinn gagnvart ofurvaldi stofnunarinnar sé duglegast við að halda uppi þessari gagnrýni.

Á fimmtudagsmorguninn fékk ég símtal frá Tryggingastofnun ríkisins eða frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem ég var í vinnunni. Erindið var það stofnunin hafði reiknað út að ég hefði ofgreitt gjöld fyrir viðamikla hjartarannsókn sem ég hafði farið í fyrsta mánuð ársins og konan í símanum vildi vita reikningsnúmerið mitt svo hægt væri að leiðrétta þennan mismun. Ég gaf upp reikningsnúmerið mitt og skömmu síðar voru aurarnir komnir inn á reikninginn minn. Ég þakka kærlega fyrir frábæra þjónustu.

Ég fór að velta hlutunum fyrir mér. Var ég að gera rétt? Þessar fáeinu krónur skipta kannski engu máli í rekstri ríkissjóðs, en um leið skipta þær litlu máli fyrir mig. Ég hafði ekki falast eftir umræddri endurgreiðslu og hafði reyndar ekki hugsað út í möguleikann á henni, en um leið skilst mér að endurgreiðslan sé réttur minn samkvæmt landslögum. Um leið er ég í fullri vinnu. Ég er ekki í vanskilum við bankann þótt vissulega sé yfirdrátturinn erfiður og ég er nokkuð örugg um að fara ekki á hausinn á næstu mánuðum, takist mér að halda sömu hógværð í fjármálum og undanfarin ár þrátt fyrir kreppuna. Ég er vonandi ekki á leiðinni á eftirlaun næsta áratuginn og er frekar í vandræðum við að finna fleiri klukkutíma í sólarhringnum en að finna mér eitthvað til dundurs á daginn. Ég er í betri málum en fjöldi fólks sem hefur misst vinnuna og jafnvel heimili sín, en ég fæ greitt til baka, ekki fólkið sem er í vandræðum.

Ég veit ekki hvort ég muni þora að nota fríkortið sem barst mér í pósti á fimmtudag, en ég fékk á tilfinninguna við móttöku þess, að þetta væri fyrsti vottur þess að ég væri að eldast. Um leið verð ég að viðurkenna að fordómar mínir í garð Tryggingastofnunar eða Sjúkratrygginga Íslands hurfu eins og dögg fyrir sólu.

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

25. febrúar 2009 – Vonbrigði

Ég verð að játa að ég varð fyrir vonbrigðum með drottningarviðtal Sigmars við Davíð Oddsson í Kastljósi sjónvarpsins á þriðjudagskvöldið. Ég hafði vonast til að Davíð myndi lýsa því yfir að hann ætlaði að snúa sér alfarið að ritstörfum, en til vara að hann ætlaði að segja af sér starfi sínu sem Seðlabankastjóri, en til þrautavara að hann myndi tilkynna þátttöku sína í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, en ekkert af þessu rættist.

Þess í stað eyddi hann tímanum í að skamma vesalings Sigmar fyrir að hlusta á fólk sem og að sverta Geir Haarde eftirmann sinn og Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa ekki hlustað á sig er hann varaði þá við því að allt væri að fara til andskotans. Þá benti hann á að ef Seðlabankinn hefði safnað gjaldeyrisvarastjóð, væri íslenska þjóðin stórskuldug í dag, en einnig gaf hann í skyn að Bretar hefði sett hryðjuverkalög á Landsbankann af því að Kaupþing hefði flutt peninga á milli landa og hengdi þannig bakara fyrir smið.

Hann hefði betur kastað sprengjum eins og búist var við, en staðið í þeim fúkyrðaflaumi og skítkasti sem hann gerði sig sekan um á þriðjudagskvöldið, t.d. með því að tilkynna framboð eða hætta í pólitík.

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

24. febrúar 2009 - Popp og kók fyrir Kastljós kvöldsins

Í dag hafa stöðugar auglýsingar dunið á okkur í útvarpinu þar sem við fáum að vita að Davíð Oddsson verði í Kastlósi í kvöld. Eins og gefur að skilja er þjóðin búin að birgja sig upp af popkorn og kók fyrir Kastljós kvöldsins.

Á sama tíma og Davíð var auglýstur í útvarpinu, mátti heyra aðra auglýsingu þar sem okkur jarðbundnum var tilkynnt að kraftaverk yrðu í Krossinum í kvöld. Ég efa ekki að margir munu flýta sér suður í Kópavog í kvöld og hlýða á Gunnar gera kraftaverk í kjölfar yfirlýsinga Davíðs Oddssonar, nema auðvitað að Davíð geri sjálfur kraftaverk með því að segja af sér öllum trúnaðarstörfum og tilkynna okkur að hann sé sestur í helgan stein og hættur afskiptum af pólitík.

laugardagur, febrúar 21, 2009

21. febrúar 2009 - Norðfirðingar

Austfirðingar hafa löngum þótt frekar til vinstri í pólitík , einarðir verkalýðssinnar og stundum verið taldir hallir undir stjórnvöld í Kreml sem sést best á gömlu gælunafni á Neskaupstað, sem lengi var kallaður Litla-Moskva. Það kemur einnig ágætlega í ljós þegar spjallað er við innfædda sem og nágranna þeirra á fjörðunum í kring, að þeir eru gjarnan umburðarlyndari en aðrir landsmenn, en um leið trúir gömlum skoðunum.

Fréttamaður Stöðvar 2 skrapp um borð í Börk NK 122 frá Neskaupstað og smakkaði þar á þurrkaðri gulldeplu eða kreppukóði eins og sumir vilja kalla þennan smáfisk. Er myndir voru sýndar úr borðsal og setustofu Barkar í fréttum Stöðvar 2 sáust ágætlega merki um víðsýnar skoðanir skipverja, en í borðsalnum blasti við mynd af Vladimir Putin á tilkynningatöflunni. Ekki var útsýnið verra í setustofunni, en þar er stórt innrammað plakat af tveimur fáklæddum stúlkum sem láta vel að hvorri annarri, en umrædd mynd er í miklu uppáhaldi meðal samkynhneigðra kvenna sem sumar hverjar eiga plakatið á áberandi stað í svefnherbergi sínu.

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

19. febrúar 2009 - Um forval Vinstri grænna

Ekki er ætlun mín að setja út á prófkjörs- eða forvalsreglur einstakra stjórnmálaafla. Þó gat ég annað en misst andlitið er ég sá á síðu Stefáns Pálssonar, að meðal allmargra sem vilja bjóða fram starfskrafta sína innan vébanda Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, er sjálfur húsgagnasmíðameistarinn Árni Björn Guðjónsson.

Á árum áður þótti Árni Björn í hópi hörðustu hægrimanna og taldist gjarnan meðal þeirra sem aðhlynntust hina kristnu hægristefnu af því tagi sem nú er kennd við George W. Bush. Þannig var hann meðal helstu forvígismanna Kristilega lýðræðisflokksins sem tók þátt í kosningunum 1995 og 1999 og þar sem finna mátti stefnuskrá sem krafðist banns við leiðréttingum á kyni, banns við fóstureyðingum og niðurfellingu áunninna réttinda samkynhneigðra auk þess sem mælst var til sérstaks stjórnmálasambands við Ísrael.

Þegar maður eins og Árni Björn Guðjónsson kýs að vinna með því stjórnmálaafli sem stendur lengst til vinstri á Alþingi, hlýtur að merkja að honum hafi snúist hugur í stjórnmálaskoðunum, fremur en að hann sé að ná sér niðri á Guðlaugi Laufdal, en þeir áttu í persónulegum og fjárhagslegum deilum um skeið eftir að slitnaði upp úr stjórnmálasamstarfi þeirra .

Þótt margir vinstrimenn geri góðlátlegt gys að Árna Birni Guðjónssyni kýs ég að líta svo á að með þessu framboði sínu sé týndi sonurinn kominn heim eftir margra ára villuráf, rétt eins og Jón Magnússon rataði heim á sinn bás eftir dvöl sína hjá Frjálslynda flokknum.

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

18. febrúar 2009 - Unglingavinnan í Stykkishólmi

Sturla Böðvarsson sagði frá því í útvarpi í dag að konan sín hefði líkt launum hans sem alþingismanns við laun í unglingavinnunni nokkru eftir að hann settist á Alþingi. Þetta finnst mér ánægjulegt og fagna því að unglingar í Stykkishólmi skuli vera svo vel launaðir sem Sturla gefur í skyn þótt ég óttist að hann ýki aðeins.

Orð Sturlu um unglingavinnuna komu til af andstöðu hans við frumvarpið um að fella niður sérstök lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra og í framhaldi af því kvartaði hann og kveinaði yfir lélegum launum þessa hóps í útvarpinu. Meðal annars benti hann á að sennilega væru allir starfsmenn ríkisstofnanna sem kallaðir væru á fund þingnefnda með betri laun en alþingismenn.

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um laun forstöðumanna ríkisstofnana, en ef Sturla hefur rétt fyrir sér, er vissulega full ástæða til að lækka laun forstöðumannana til samræmis við aðrar launalækkanir í þjóðfélaginu. Þess má geta að grunnlaun almenns alþingismanns eru í dag 520.000 á mánuði. Því til viðbótar fær þingmaðurinn allskyns fríðindi, frían síma, greiddan ferða- og dvalarkostnað, greiddar ferðir og uppihald í ferðum erlendis, laun fyrir setu í nefndum utan Alþingis, mánaðar jólaleyfi og oftast fjögurra mánaða leyfi til að sinna sauðburði, slætti og og öðrum sumarverkum á býli sínu.

Það er því ljóst að unglingar í Stykkishólmi eru ekki með nein slorlaun og mættu önnur sveitarfélög taka Stykkishólm sér til fyrirmyndar í þeim efnum.

sunnudagur, febrúar 15, 2009

15. febrúar 2009 - Jón Baldvin Hannibalsson

Ég sit hér heima og klóra mér í höfðinu yfir þessari hótun Jóns Baldvins að ætla sér í framboð til formanns Samfylkingarinnar ef Ingibjörg Sólrún segir ekki af sér. Er nema von að ég sé áhyggjufull? Fyrst kom vinur hans að nafni Davíð Oddsson og hótaði því að snúa aftur í pólitík ef hann þyrfti að hætta í Seðlabankanum og nú Jón Baldvin sem er reyndar kominn á rífleg eftirlaun og leiðist heima í ellinni.

Það er að vísu alveg rétt að það þurfti að ýta við Ingibjörgu Sólrúnu áður en hún sleit stjórnarsamstarfinu við ákvarðanafælinn Geir Haarde, en ég get ekki séð að einn af helstu höfundum nýfrjálshyggjunnar í samstarfi við Davíð Oddsson sé rétti maðurinn til að leiða Samfylkinguna. Þann daginn sem Ingibjörg Sólrún hættir, finnst mér miklu eðlilegra að yngt verði upp í stjórn Samfylkingarinnar en ekki farið að leita á elliheimilin eftir nýjum formanni. Þá ber þess að geta að Jóhanna er einungis rúmum þremur árum yngri en Jón Baldvin og á í mesta lagi eftir að sitja á Alþingi eitt kjörtímabil í viðbót taki hún ákvörðun um að bjóða sig fram aftur í vor. Þá sé ég ekki hvaða tilgangur á að vera með því að kljúfa Samfylkinguna eins og Jón Baldvin virðist vera að gera með þessu frumhlaupi sínu.

Þar sem Jón Baldvin Hannibalsson er ekki daglega undir fingrunum á lyklaborðinu mínu er í lagi að óska honum strax til hamingju með sjötugsafmælið næstkomandi laugardag og vona ég að hann njóti elliáranna vel og lengi í friðsældinni í næsta nágrenni við Reykjastöðina í Mosfellsbæ.

laugardagur, febrúar 14, 2009

14. febrúar 2009 - Um pilt sem situr á Litla-Hrauni

Á fimmtudaginn birtist viðtal við ungan pilt í Kastljósi Sjónvarpsins þar sem hann kvartar hástöfum yfir dómhörku dansks saksóknara í sinn garð á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi í Færeyjum og síðan óréttlátum dómi yfir sér þar sem hann var dæmdur til sjö ára fangelsisvistar fyrir smygl á fíkniefnum.

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um piltinn. Hann kom vissulega vel fyrir og virtist sannfærandi í framkomu og ég sé enga ástæðu til að rengja orð hans á meðan ég hefi ekki andstæðan framburð við hans. Hinsvegar fylltust bæði Snjáldurskinna (Facebook) og bloggheimar af mótmælendum sem kröfðust þess að mál hans yrði tekið upp að nýju í ljósi óréttláts dóms yfir honum eða jafnvel að honum yrði sleppt.

Þetta fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvers það er að krefjast.

Til þess eru tvö og fleiri dómsstig að hægt sé að tryggja réttláta dómsmeðferð. Pilturinn var dæmdur fyrir færeyskum undirrétti, en málið fór ekki lengra. Hann áfrýjaði aldrei til æðra dómsstigs og samþykkti þannig felldan dóm yfir sér. Með því eyðilagði hann frekari möguleika á áfrýjun eða endurupptöku máls. Hann getur ekki krafist endurupptöku fyrir íslenskum dómstól því hann er dæmdur fyrir færeyskum dómstól fyrir brot á færeyskum lögum. Íslensk fangelsi eru hinum íslenska brotamanni einungis mildun á dæmdu broti með því að geyma piltinn í sínu heimalandi í umboði danskra/færeyskra fangelsisyfirvalda í samræmi við dóminn yfir piltinum. Ef íslensk yfirvöld myndu sleppa honum út án fullnustu dóms, yrði slíkt veruleg ávirðing á íslensk yfirvöld og gæti orðið til þess að sagt yrði upp gagnkvæmum samningum um fullnustu dóma í sínu heimalandi.

Ef pilturinn vill sækja um endurupptöku máls, verður hann að gera slíkt hjá færeyskum/dönskum dómsyfirvöldum því íslensk dómsyfirvöld hafa ekkert með þetta mál að gera. Það er svo undir náð og miskunn þar til bærra yfirvalda hvort þau sjái aumur á pilti og taki málið upp aftur og það gera þau tæpast nema sýnt sé fram á verulega brotalöm á vörn piltsins í undirrétti. Það þýðir þó ekkert að benda á sókn saksóknarans í málinu því þannig eiga saksóknarar að hegða sér!

Vilji pilturinn sækja um náðun verður hann sömuleiðis að sækja um hana til rétts þjóðhöfðingja sem er væntanlega Magga smókur í þessu tilfelli, nema auðvitað að einhver millistjórnandi stjórni náðunum í umræddu skattlandi Danadrottningar.

Þessi orð mín hafa svo ekkert að gera með þá skoðun mína að mér finnst dómurinn yfir honum vera fremur harður.

föstudagur, febrúar 13, 2009

13. febrúar 2009 - Ákvarðanafælni eða framtaksleysi Geirs Hilmars Haarde

Ef mig misminnir ekki, fóru einhverjir þeirra drengja sem dvöldu í Breiðavík fram á afsökunarbeiðni Geirs Hilmars Haarde fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vegna illrar meðferðar sem þeir urðu fyrir í Breiðavík í æsku. Geir treysti sér ekki til verða við óskum þeirra, var hinsvegar reiðubúinn til að ræða við þá um bætur, en um leið og þeir sögðu opinberlega frá tilboði og hugsanlegu lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þeim til handa, hljóp einhver þrái í Geir og enn hefur ekkert frumvarp séð dagsljósið og engar bætur og engin afsökunarbeiðni. Var þetta framtaksleysi eða ákvörðunarfælni af hálfu Geirs? Mig grunar það.

Í síðastliðnu hausti talaði Geir Hilmar Haarde um samráð sitt við Gordon Brown um lausn deilunnar sem komin var upp á milli þjóðanna. Í gær viðurkenndi hann fyrir enskri sjónvarpsstöð að engar viðræður hefðu átt sér stað á milli hans og Gordons Brown. Af hverju ekki? Enn neitaði hann að biðjast afsökunar á mistökum sínum í forystu ríkisstjórnar Íslands þegar allt fór á hausinn.

Ég held að það sé alveg ljóst að ákvarðanafælni Geirs Hilmars Haarde sé búin að kosta íslensku þjóðina gífurlega hagsmuni, fjárhagslega, viðskiptalega og menningarlega.

Takk Geir fyrir að vera orðinn óbreyttur þingmaður. Er ekki kominn tími til að biðja íslensku þjóðina afsökunar á því að óhæfur maður sat í stól forsætisráðherra í fleiri ár? Maðurinn hvorki þorði að hreinsa til í Seðlabankanum né að taka upp tólið og hringja í kollega sinn til að spyrja hann af hverju hann gengi svona hart fram gegn hinni íslenskri vinaþjóð ensku þjóðarinnar.

Kannski gengu Bretar svona hart fram, vitandi af bleyðuskap íslenskra ráðamanna og þá sérstaklega þáverandi forsætisráðherra.

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

12. febrúar 2009 - Um fordómaskrif!

Til eru þeir menn sem hafa gaman af að skoða sjálfa sig á netinu með því að gúggla sig. Ég fékk óvart að kynnast einum slíkum fyrir nokkru og ekki af góðu.

Í apríl í fyrra birtist lítil frétt í Morgunblaðinu sem í fólust ákveðin tímamót í tvennum skilningi. Þarna birtust ákveðin þáttaskil í afstöðu til kynleiðréttinga meðal múslíma, en jafnframt fannst mér aðdáunarvert hvernig Morgunblaðið tók á fréttinni, þ.e. fordómalaust og með skilningi á stöðu okkar. Því skrifaði ég pistil um þetta, bæði á Moggabloggi og blogspot og uppskar ríkuleg viðbrögð:

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/512112/#comments

Meðal athugasemda sem ég fékk voru voru mjög svo fordómafullar athugasemdir frá manni sem kallaði sig Jeremía og voru þau á þessa leið:

„Mér finnst þetta vera sorglegt að menn vilji reyna að þykjast vera konur. Einnig að þessir menn skuli vilja að það sé kallað einhverju orðskrípi sem á að fegra þetta.“

Ég ákvað að eyða ekki þessum fordómafullu orðum heldur láta þau standa Jeremía til áminningar. Nokkrar athugasemdir komu í kjölfarið þar sem umræddur Jeremía var nafngreindur sem Magnús, meðal annars frá Heiðu bloggvinkonu minni sem hóf orð sín á þessa leið:

„Af því að ég kann mig svo vel þá ætla ég alveg að sleppa því að halda ræðu um það hérna hvað mér finnst hann Magnús Ingi Sigmundsson viðurstyggilega útgáfa af "kristnum" einstakling EN...“
Fólk getur svo lesið pistilinn allan ásamt athugasemdurm hér að ofan.
Þann 18. janúar síðastliðinn fékk ég bréf frá magnusingi@hive.is og var upphaf þess á þessa leið:

„Á bloggsíðu þinni: http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/512112/
er að finna meiðandi ummæli um mig sem ég óska eftir að séu fjarlægð í athugasemd við grein þína, þar sem ég er nefndur fullu nafni.
Athugasemdin er svona:

Af því að ég kann mig svo vel þá ætla ég alveg að sleppa því að halda ræðu um það hérna hvað mér finnst hann Magnús Ingi Sigmundsson viðurstyggilega útgáfa af "kristnum" einstakling EN...“

Ég verð að viðurkenna að mér blöskraði er ég sá þetta bréf frá Magnúsi Inga Sigmundssyni. Fyrst kastar hann á mig svívirðingum og síðan dirfist hann að mælast til þess að athugasemdum þar sem hann er nafngreindur, verði eytt. Í stað þess að fara að tilmælum hans, áframsendi ég bréfið til Árna Matthíassonar blaðamanns á Morgunblaðinu sem sendi bréfið umsvifalaust áfram til lögfræðilegrar meðferðar. Um leið og ég segi frá þessu máli hér á blogspot, ákvað ég um leið að hlífa Moggablogginu mínu við þeim hafsjó af hinum svokölluðu kristnu bókstafstrúarmönnum sem halda sig hafa höndlað hinn eina sanna sannleika en að við hin séum fifl sbr bréf Magnúsar Inga Sigmundssonar til mín.

Ég skal gjarnan eyða athugasemd Heiðu, en ekki fyrr en Magnús hefur beðið mig opinberlega afsökunar á orðum sínum í minn garð og minna.

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

11. febrúar 2009 - Fall er fararheill

Ég hefi ekki gert mikið af því að stunda uppboð um dagana. Þó hefi ég átt það til að rekast inn á uppboðsstaði fyrir forvitni sakir og jafnvel lagt inn eitt og eitt boð á þessum uppboðum.

Á mánudagskvöldið var listaverkauppboð hjá Gallerí Fold og ég var þar. Þar var boðið upp gullfallegt grafíkverk eftir Þórð Hall og ég bauð í verkið og fékk það á góðu verði. En þar sem ég þurfti að taka á móti gestum um kvöldið, varð ég að flýta mér heim eftir uppboðið án þess að borga listaverkið.

Ég mætti á uppboðsstað eftir hádegi á þriðudag til að sækja hina nýju eign mína, reiddi fram tilskylda upphæð og mér var fært verkið. Ég tók í efri ramma þess og ætlaði að fara, en þá vildi svo til að ramminn gaf sig og smella í rammanum fór í gólfið.
„Það er langbest að halda í sjálft bandið,“ sagði mér einn ágætur starfsmaður sem hjálpaði mér að laga rammann. Ég þakkaði fyrir, greip um upphengjubandið á bakhliðinni og strunsaði út.

Um leið og dyrnar lokuðust fyrir aftan mig, slitnaði bandið, myndin fór í götuna og glerið mölbrotnaði. Það var ekkert annað fyrir mig að gera en að fara með myndina inn aftur og láta laga hana. Sem betur fer hafði myndin sjálf ekkert skemmst og Gallerí Fold bauðst til að skipta um glerið á sinn kostnað sem ég þáði með þökkum.

En ég á örugglega eftir að versla meira við þetta ágæta uppboðsfirma og þægilegt starfsfólk þess í framtíðinni.

mánudagur, febrúar 09, 2009

9. febrúar 2009 - Húsið brann til kaldra kola

Það er hitabylgja og miklir skógaeldar í Ástralíu þessa dagana og hitastigið fer yfir 40 gráður á Celsíus. Hið einasta sem er kalt ef marka má fréttir Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2, eru kolurnar í rústum þeirra húsa sem hafa brunnið.

Ég skil vel vandamálið sem tengist þessari færslu. Þegar hús brennur til grunna, hefur löngum verið talað um að það brenni til kaldra kola þótt orðskrýpið sé álíka vitlaust og undantekningin sem sannar regluna eða að eitthvað sé ógeðslega gott.

Er ekki kominn tími til breytinga?

laugardagur, febrúar 07, 2009

8. febrúar 2009 – Slysadagar


Í sumum ríkjum er þrettándi dagur mánaðarins talinn sérstakur óhappadagur beri hann upp á föstudag. Ekki veit ég hvað er hæft í því, enda sjálf aldrei lent í neinu misjöfnu föstudaginn þrettánda. Íslensk þjóð ætti frekar að hugleiða sunnudaginn áttunda febrúar sem sérstakan ólánsdag í sögu þjóðarinnar.

Sunnudagurinn 8. febrúar 1925 hefur löngum verið kenndur við Halaveðrið mikla. Þá fórust 68 manns á Halamiðum með tveimur togurum. Auk togaranna sem fórust, urðu margir togarar einnig fyrir miklu tjóni af völdum veðurs og ísingar á miðunum norður af Vestfjörðum. Þá fórust fimm manns í veðurofsanum í landi þar af tvö börn í Kolbeinsstaðahreppi sem höfðu farið að líta eftir hestum.

Sunnudagurinn 8. febrúar 1959 hefur einnig fengið sitt kenninafn, Nýfundnalandsveðrið mikla. Í því veðri fórst togarinn Júlí frá Hafnarfirði og með honum 30 manna áhöfn, aðallega ungir menn og 40 börn urðu föðurlaus. Í þessu sama veðri lentu nokkur önnur íslensk skip miklum hrakningum og ber þá helst að nefna togarann Þorkel mána frá Reykjavík þar sem yfirvélstjórinn brenndi í burtu yfirísaðar bátadavíðurnar til að létta yfirbyggingu skipsins þar sem skipið var við að velta yfirum vegna veðursins og ísingar. Í sama veðri fórust einnig skip frá Kanada og Spáni við Nýfundnaland.

Síðustu skipstaparnir sem áttu sér stað um þetta leyti voru að vísu ekki á sunnudegi, heldur mánudagskvöldið 7. febrúar 2005 þegar flutningaskipinu Jökulfelli hvolfdi eigi allfjarri Færeyjum og sex af ellefu manna rússneskri áhöfn skipsins fórust með skipinu, en þyrla kom að skipinu á hvolfi klukkan 22.48 um kvöldið og menn þá syndandi í sjónum. Um klukkan 01.30 aðfararnótt þess áttunda febrúar var staðfest að skipið væri sokkið.

Í dag er liðin hálf öld frá Nýfundnalandsveðrinu mikla, þessum versta hildarleik íslenskra sjóferða og slysasögu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Við skulum biðja til almættisins að svona harmafregnir heyri sögunni til.

P.s. Þess má geta að myndin að ofan var tekin af Júlí GK-21 sama dag og skipið hélt frá Reykjavík í örlagaferð sína áleiðis á Nýfundnalandsmið 31. janúar 1959.

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

5. febrúar 2009 - Minning um mann



Einn örfárra skipverja á Þorkeli mána sem treystu sér til að halda áfram til sjós eftir hamfarirnar í Nýfundnalandsveðrinu mikla 1959 var Jóhann Ásgrímur Guðjónsson háseti (1923-1990) sem hélt áfram störfum á sjó í mörg ár eftir þetta og var hann enn á skipinu þegar ég var þar um borð seinnihluta ársins 1967. Er hann lést árið 1990 ritaði Þorsteinn Gíslason loftskeytamaður minningargrein um Ásgrím þar sem hann komst svo að orði um fyrstu sjómennskureynslu sína sem háseti á Þorkeli mána:

Það hefur ekki alltaf verið auðvelt líf fyrir unga menn að byrja sín fyrstu störf á sjó og þannig var það líka með mig. Þegar búið var að senda mig niður til að gefa kjölsvíninu og sækja lykilinn að togklukkunni, var ég ófáanlegur til að gera nokkurn hlut. Þá kom til mín einn af dekkinu og sagði: "Þú skalt ekki vera að trúa þessum lygurum. Trúðu mér." Síðan var farið í kaffi og þegar inn í borðsal var komið kúrði ég mig upp að mínu tryggðatrölli, Jóhanni Ásgrími Guðjónssyni. Þegar kaffitímanum lauk var farið aftur út á dekk og þá sagði Ási við mig: "Komdu hérna, góði minn," og teymdi mig framundir hvalbak og þar lét hann mig blóðga stórufsa, láta blóðið renna í fötu og taka frá lifrina, þar sem kokkurinn, Tóti Mey, ætlaði að búa til blóðmör og lifrarpylsu!

P.s. Myndina af Þorkeli mána tók Valdimar Ó. Jónsson loftskeytamaður nokkrum árum fyrir atburðina á Nýfundnalandsmiðum.

mánudagur, febrúar 02, 2009

3. febrúar 2009 - Hvað er svona hættulegt við Evrópusambandið?

Enn á ný hefur umræðunni um aðild að Evrópusambandinu verið ýtt út af borðinu. Enn á að viðhalda mítunni um að íslenska þjóðin sé að glata einhverju geysilega mikilvægu við hugsanlega umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Þegar þjóð sækir um aðild að Evrópusambandinu er byrjað á að ræða saman, reynt að kanna hvort samningsaðilar geta náð saman, á hverju strandar og hvað er auðvelt. Síðan er reynt að ná samkomulagi út frá því sem rætt er í viðræðum og samkomulagið borið undir þjóðaratkvæði. Ef samkomulag næst ekki í samningaviðræðum er málinu lokið. Ef samkomulag næst er það borið undir þjóðaratkvæði. Ef meirihluti þjóðarinnar greiðir atkvæði með Evrópusambandinu mun þjóðin ganga með, ef ekki, hefur þjóðin glatað dýrmætu tækifæri til að taka þátt í náinni samvinnu Evrópuþjóða.

Af einhverjum ástæðum hafa íhaldsflokkarnir, gamla íhaldið, gamli Þjóðvarnarflokkurinn sem nú gengur aftur undir merkjum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og hluti framsóknarflokksins ákveðið að þagga niður alla möguleika á umræðum í þessa veru fram að kosningunum í vor.

Og ég sem hélt að veruleg stefnubreyting á efnahagsmálum gjaldþrota þjóðar þyldi ekki frekari bið.

2. febrúar 2009 - Til hamingju Jóhanna Sig.

Ég viðurkenni alveg að ég horfði með ákveðinni tortryggni á nýja ríkisstjórn taka við völdum. Ekki vegna samstarfs Samfylkingar og Vinstri grænna, fremur vegna þess eftirlitshlutverks sem Framsóknarflokkurinn er búinn að setja sig í án ábyrgðar á verkum hinnar nýju ríkisstjórnar. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra.

Annað er viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins. Í viðtölum við forystumenn Sjálfstæðisflokksins höfum við nú fengið að heyra að ástæður ákvarðanakvíða gömlu ríkisstjórnarinnar hafi verið veikindi Ingibjargar Sólrúnar. Þannig hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið tilbúinn með fjölda mála sem aldrei hafi fengist afgreidd úr ríkisstjórn til Alþingis vegna veikinda hennar eða þá þess að Samfylkingin hafi ekki skilað málum til baka til Björns og félaga. Þvílík gunga sem hann Geir hefur verið að hafa ekki sagt Sollu upp fyrir löngu síðan úr því hún vaskaði aldrei upp á stjórnarheimilinu, heldur fór þess í stað á fjörurnar við Steingrím.

En þetta er liðin tíð.

Ég fagna nýrri ríkisstjórn þótt ekki verði hún langlíf, enda ekki reiknað með öðru. Jóhanna verður ekki skemmtilegasti forsætisráðherra sem setið hefur á Íslandi, en hún verður örugglega einhver sá duglegasti og sjálf trúi ég því að hún muni láta hendur standa framúr ermum þessa tæpu þrjá mánuði sem hún verður við völd að sinni.

Þá hefi ég ögn meiri áhyggjur af fagráðuneytunum, meðal annars utanríkisráðuneytinu, en mikilvægt er að hvatvís utanríkisráðherrann gæti orða sinna í lengstu lög, enda virka orð hans eins og lög í diplómatiskum samskiptum við erlend ríki. Norðmenn fengu rækilega að kenna á slíku í deilunum um Austur-Grænland, en alþjóðadómstóllinn hafnaði kröfu þeirra um yfirráðarétt á landsvæði á Grænlandi á þriðja eða fjórða áratug síðustu aldar, meðal annars vegna orða fyrrum utanríksráðherra Noregs sem hafði fullvissað Dani um að Norðmenn ætluðu sér ekki að krefjast umræddra landsvæða.

En verkin munu tala og ég vil óska Jóhönnu og Jónínu til hamingju með ný og spennandi verkefni næstu mánuðina sem og ríkisstjórninni allri. Þá má ekki gleyma nýjum forseta Alþingis, en þar er svo sannarlega kominn tími til að fá yngri þingmann í foretastól í stað uppgjafa ráðherra sem eru oft ekki annað en málpípur ríkisstjórnarinnar.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

1. febrúar 2009 - Ingemar Johansson

Það mun hafa verið vorið 1994 sem ný lágverðsverslun í íþróttavörum opnaði í nýjum verslunarkjarna sem kenndur var Barkarby þótt hann væri Jakobsbergsmegin við hverfamörk Jakobsberg og Barkarby, skammt frá þar sem ég bjó á þeim tíma. Í tilefni af opnuninni voru allskyns opnunartilboð en auk þess var auglýst að Ingemar Johansson myndi heilsa þeim sem kæmu inn í búðina fyrsta daginn.

Á þessum tíma hafði ég verið að æfa mig fyrir Vättern rundan og dekkin á reiðhjólinu mínu orðin nokkuð slitin og ýmislegt fleira sem þurfti að tjasla upp á áður en kæmi að lokaæfingunum fyrir hringferðina umhverfis Vättern. Ég ákvað því að mæta í búðina og reyna að ná mér í ódýr dekk og nýja keðju á hjólið.

Er ég kom í búðina var löng biðröð fyrir utan því illa gekk að fá alla til að taka í hendina á Ingemar Johansson. Þar sem ég hefi ávallt verið mótfallin ofbeldisíþróttum á borð við hnefaleika, ákvað ég að sleppa því að taka í hendina á kappanum og snúa mér beint að búðinni. Ónei, það kom ekki til mála, allir sem komu inn í búðina þennan dag þurftu að fara í biðröð og taka í hendina á kappanum, annars fengju þeir ekki að fara inn í búðina. Mér ofbauð biðröðin fyrir lítið tilefni og snéri frá búðinni og hjólaði heim aftur. Daginn eftir voru verðin í lágverðsversluninni orðin sambærileg við aðra íþróttaverslun í Vällingby svo ég hélt mig við þá verslun eftir það og gerði ekki fleiri tilraunir til að versla í lágverðsversluninni í verslunarkjarnanum sem kenndur var við Barkarby.

Aldrei tók ég í hendina á Ingemar Johansson, þótt ég hafi ávallt haft fulla samúð með kappanum að hafa gaman af að láta berja sig svona.

Á svipuðum tíma og atvikið átti sér stað í hjólabúðinni, átti ég hinsvegar lítil samskipti við innkirtlasérfræðinginn Rolf Luft (1914-2007), en hann var þá enn virkur og vottaði um innkirtlaheilbrigði mitt fyrir aðgerðina sem ég fór í ári síðar. Á árunum í kringum 1960 stjórnaði hann steratilraunum til að bæta árangur fjögurra íþróttamanna, þar á meðal Ingemar Johansson, en hætti þeim fljótlega vegna aukningar á árásargirnd þessara manna og austur-Evrópumenn tóku við steratilraunum á íþróttamönnum.