fimmtudagur, nóvember 30, 2006

30. nóvember 2006 – 2. kafli – Vetrardekkin

Ég var að lesa einkar athyglisverða frétt í Dagens nyheter. Þar er bent á að frá og með morgundeginum og út marsmánuð er bannað að aka um á sumardekkjum þar sem er snjór, ís eða bara hálka á vegum. Þess má geta að lágmarksdýpt raufa skal vera 3 millimetrar, en almennt er ráðlagt að hafa raufarnar ekki grynnri en 5 millimetra þegar dekkin eru sett undir bílinn. Sektin við að aka á sumardekkjum þar sem er snjór eða hálka er allt að 1200 sænskar krónur eða 12000 íslenskar krónur. Ekki er gerður greinarmunur á tegundum vetrardekkja, negldra eða ónegldra.

Ég minnist þess að fyrir rúmum áratug voru uppi deilur á milli Vägverket og tryggingarfélaga um notkun nagladekkja í Svíþjóð, en tryggingafélögin hvöttu fólk til að nota nagladekkin.

30. nóvember 2006 – Heimsókn

Ég fékk heimsókn á miðvikudag. Þetta var engin venjuleg heimsókn, heldur var um að ræða stúlku sem hafði einhverntímann verið í sömu aðstöðu ég var fyrr á árum, en hafði síðar lokið við aðgerðarferli í sínu heimalandi. Nú var hún sest að á Íslandi ásamt nánustu ættingjum sínum og fann fyrir einmanaleika í ókunnu landi.

Ég viðurkenni að ég var dálítið taugaóstyrk fyrir komu hennar. Ég vissi ekkert hverri ég átti von á, né hvort hún væri sú sem hún sagðist vera, eða hvort hún væri líkleg til að standast íslenskt samfélag, en komst fljótlega að því að hún stendur fyllilega undir því að fólk beri virðingu fyrir henni.

Stúlkan er í fullri vinnu á Íslandi og stendur sig vel. Hún er því enginn kostnaður fyrir samfélagið, heldur ein þeirra sem koma hingað til lands með sína uppfræðslu og menntun í farteskinu. Með komu sinni til Íslands eykur hún enn á fjölbreytileika samfélagsins og sjálf fyllist ég stolti yfir fallegri konu sem er að hasla sér völl í nýju landi og nýrri menningu.

-----oOo-----

Svo fær Oddur skrásetjari ættfræðiupplýsinga hamingjuóskir frá mér með 65 ára afmælið í gær, þótt ég efist um að hann vilji taka við óskunum frá mér.

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

29. nóvember 2006 – Af rusli


Eins og flestum lesendum mínum ætti að vera kunnugt, þá er ég ákaflega vanaföst manneskja. Á hverjum morgni rölti ég niður stigana, fer fram í anddyri og sæki dagblöð dagsins, Morgunblaðið, Fréttablaðið og hitt Blaðið. Þegar lestrinum er lokið, set ég blöðin í kassa þar sem ég hefi áður lagt spotta undir. Þegar mér finnst kominn góður slatti blaða kominn í kassann, sæki ég enda spottanna og set hnút á dæmið og fer með í næsta blaðagám.

Í kvöld fannst mér kominn tími til. Vandamálið var bara að ég hafði ekki tæmt kassann í þrjá mánuði. ég batt og batt og batt og loksins fór ég með mikinn bunka blaða í blaðagáminn. Þetta voru Morgunblaðið sem sífellt virðist þynnra og þynnra, Fréttablaðið sem bólgnar út eins og púkinn á fjósbitanum og loks hitt Blaðið. Þetta var burður á blöðum samanber mynd sem fylgir. Meðfylgjandi mynd er af blaðabunkanum.

Fer þessu ekki bráðum að linna?

-----oOo-----

Ég hefi lent í nokkrum vandræðum vegna litaskipta á blogginu mínu. Ég skipti yfir í beibíkúkabrúnan lit og mótmælunum rigndi yfir mig. ég skipti því yfir í Framsóknargrænan og þá tók ekki betra við. Vissulega varð breytingunni fagnað af góðum Framsóknarmönnum, en hinir mótmæltu sem aldrei fyrr. Sit ég nú uppi með lit sem flestir virðast hata. Einhverjar tillögur?

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

28. nóvember 2006 – Hógværð er dyggð

Fyrir nokkrum árum síðan náði Ólafsfirðingurinn Kristinn Björnsson þeim ágæta árangri að verða í öðru sæti í svigkeppni í skíðabrekkunum í Lake Placid í Bandaríkjunum. Þetta þótti þess meira afrek að Íslendingar hafa löngum þótt standa sig langtum aftar öðrum þjóðum í vetraríþróttum og er þetta afrek vissulega þess virði að minnast þess og vafalaust mesta afrek Íslendinga í vetraríþróttum. Á Ólafsfirði var öllu meira gert úr afreki Kristins og einhverjir Ólafsfirðingar héldu því óhikað fram
að afrek Kristins væri mesta íþróttaafrek Íslendings fyrr og síðar.

Eitthvað uppveðruðust Ólafsfirðingar við þessi ummæli og fóru að gera óhóflegar kröfur til Kristins sem þoldi illa álagið sem á hann var lagt og því fór sem fór og Kristinn datt.

Mánudaginn 27. nóvember berast þær fréttir út til þjóðarinnar að nótaskipið Guðmundur Ólafur ÓF-91 frá Ólafsfirði hafi náð mesta síldarafla sem um getur í einu kasti eða 1350 tonn. Af einhverjum ástæðum datt mér í hug vesalings Kristinn þegar ég heyrði þessa frétt. Ég minnist þess í þessu sambandi, er ég var um borð í Hólmaborginni á síldveiðum fyrir nokkrum árum, að við fylltum skipið í þremur köstum, um 2300 tonn og var þriðja kastið langstærst. Nægði restin til að fylla Jón Kjartansson sem var langt kominn að fylla sig auk þess að fylla Hólmaborgina.

Mér þótti kastið merkilegt, þótt ekki þori ég að fullyrða að umrætt kast hafi verið mikið stærra en “stærsta kast sögunnar”, en Eskfirðingar yppta bara öxlum við slík stórköst og þykja þau engin fréttaefni. Sat þó fréttaritari DV á Eskifirði á skrifstofu útgerðarfélagsins og hefði verið í lófa lagið að blása út fréttina. Kannski gildir bara gamla reglan, að það sem aflaklónni finnst lítið finnst fiskifælunni vera stórt.

Hógværð er dyggð.

Sama dag og aflafréttin mikla berst alþjóð, er þess getið að 50 ár eru liðin frá því Vilhjálmur Einarsson náði silfurverðlaunum á ólympíleikunum í Melbourne. Ekki ætla ég að níða niður það ágæta afrek, ekki fremur en afrek Kristins Björnssonar á skíðum. Hinsvegar er það gott dæmi um hve íslenskir íþróttamenn hafa staðið sig illa á alþjóðavettvangi, þó að þessum köppum og örfáum fleirum undanskildum, að í dag er þess minnst að hálf öld er liðin frá mesta íþróttaafreki Íslendings.

Íslendingar hafa fengið þrenn verðlaun á ólympíuleikum, eitt silfur og tvö brons. Með þessum þremur verðlaunapeningum standa þeir sig verst Norðurlandanna í verðlaunum á ólympíuleikum, einnig miðað við fólksfjölda. Ég skal þó ekki fullyrða hvort Færeyjar og Grænland hafi staðið sig ver, enda ókunnugt um hvort íþróttamenn þaðan hafi unnið til verðlauna í liði Danmerkur.

Hógværð er dyggð.

-----oOo-----

Eins og mínir dyggu og tryggu lesendur hafa veitt athygli, hefi ég tvisvar skipt um lit á síðunni minn á tveimur dögum. Það byrjaði með því að ég var orðin leið á skærbleika litnum sem minnti helst á 8 ára stelpu blogg, en ekki virðulegrar 54 ára konu sem er farin að nálgast eftirlaunaaldurinn. Því fór ég yfir á ljósbrúna litinn sem mér þótti hæfilega mildur, en þá tók ekki betra við. Mótmælunum rigndi inn og fólk virtist ekki vilja sjá þennan fallega beibýkúkabrúna lit og krafðist einhvers annars. Því ákvað ég að setja inn þennan vinstrigræna lit, reyndar örlítið upplitaðan, en það er bara í stíl við upplitaðar skoðanir lesenda minna.

mánudagur, nóvember 27, 2006

27. nóvember 2006 - 2. kafli - Mokkablogg


Parísardaman boðaði fólk á fund á mánudagseftirmiðdeginum á Mokkakaffi. Að sjálfsögðu mætti ég . Þar mættu einnig http://bfrb.blogspot.com/ (Björn Friðgeir), http://farfuglinn.blogspot.com/ (Svala J.), http://thordis.blogspot.com/ (Þórdís G.), http://vestan.blogspot.com/ (Hanna J.) Afsakið, að sjálfsögðu vorum við að tala um Hörpu J. , en ekki Hönnu J.
http://parisardaman.blogspot.com/ (Kristín J.)
http://eyjamargret.blogspot.com (Eyja Margrét) og loks mætti http://ernae.blogspot.com/ (Erna E). Auk bloggaranna mættu Jóhanna Bogadóttir og Soffía Ákadóttir, en þær tvær síðastnefndu eru ekki á mála hjá Blogspot.com.

Að sjálfsögðu voru rædd helstu málefni þjóðarinnar, grátið yfir örlögum Mikka vefs og teknar myndir sem ein birtist hér og á http://public.fotki.com/annakk kafli 2.6. Þess má geta að Soffía mætti svo seint að hún náðist ekki á mynd né heldur náðist Erna E. á hópmyndina.

27. nóvember 2006 – Ef sama lýgin er sögð nógu oft, fer fólk að trúa henni.

Ég horfði á drottningarviðtal Evu Maríu við Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Í sjálfu sér var fátt nýtt né merkilegt í þessu viðtali. Styrmir vildi sem minnst gera úr þeim deilum sem átt hafa sér stað á milli flokksins og blaðsins og því ekkert fréttnæmt af viðtalinu. Þá klifaði Styrmir enn einu sinni á gömlu Moggalyginni sem honum, Birni Bjarnasyni og Þór Whitehead er svo töm, að kenna vinstrimönnum um þegar Heimdellingar með hjálma og kylfur réðust ásamt lögreglumönnum með táragasbyssur á vopnlausa vinstrimenn sem mótmæltu aðförinni að hlutleysi þjóðarinnar á Austurvelli 30. mars 1949.

Jú eitt fannst mér dálítið merkilegt af því sem fram kom, en ekki af því sem þagað var yfir. Ég hefi löngum talið Styrmi Gunnarsson vera hófsaman hægrimann og í samræmi við þá skoðun mína, taldi ég að Björn Bjarnason hefði fremur ritað Staksteinapistilinn frá 2. október s.l., svo öfgafullur var hann. Nú er ég farin að efast og veit vart hvað ég á að halda í þeim efnum.

Um leið verður Styrmir Gunnarsson að axla ábyrgð Morgunblaðsins á velgengni Fréttablaðsins með hægrisinnuðum skrifum í fyrrnefnda blaðið og undirbúa þannig jarðveginn fyrir dagblað sem ekki er pólitísk málpípa neins ákveðins hægrisinnaðs stjórnmálaafls.

sunnudagur, nóvember 26, 2006

26. nóvember 2006 - 2. kafli - Tæknileg mistök mín og Djúsa

Þegar ég var að horfa á fréttirnar í gærkvöldi, veitti ég því athygli þegar formaður Framsóknar talaði um mistökin, að maður einn sem sat fremur aftarlega klappaði ekki fyrir orðum hans.

Ég er orðin hundleið á skærbleika útlitinu á síðunni minni. Með þessu útliti var ég farin að gefa í skyn, með útliti síðunnar, að ég væri sjö ára smástelpa, en ekki virðulegra 54 ára og farin að nálgast eftirlaunaaldurinn. Ég ákvað því að breyta litnum og réðist í það verk þegar ég var vöknuð eftir morgunsvefninn. Þegar verkinu var lokið, veitti ég þeim tæknilegu mistökum mínum þá athygli, að ég hafði gleymt að flytja kommentakerfið mitt með öðrum gögnum yfir á nýju síðuna og varð því að endurvinna færsluna að hluta.

Meðan á þessu stóð kom Anonymus sjálfur með komment inn á síðuna þar sem hann mæltist til að Saddam Hussein yrði settur aftur inn í embætti. Þar sem athugasemdir hans, sökum tæknilegra mistaka, lentu á milli athugasemdakerfa, eyddust þau sjálfkrafa þegar ég var búin að leiðrétta athugasemdakerfið.

Eitthvað fannst mér kvörtun Anonymusar minna dálítið á Djúsa vin minn, en hann mun ósammála formanni sínum í Íraksmálinu. Ekki vil ég fullyrða að hann hafi verið sá sem ekki klappaði á fundinum í gær, en hvort þetta var Djúsi eða Anonymus sjálfur, bið ég þá félaga afsökunar á að hafa eytt athugasemdum þeirra. Það voru tæknileg mistök.

26. nóvember 2006 - Tæknileg mistök Framsóknar

Ég var að velta því fyrir mér á meðan ég skrifaði pistilinn um Oliver Twist að ég hefði ekki lagt Framsóknarflokkinn í einelti í lengri tíma. Það er þó svo sannarlega kominn tími til þess.

Hinn aldni en nýi formaður Framsóknarflokksins hélt ræðu í dag á miðstjórnarfundi flokksins þar sem hann hann dró aðeins í land stuðning Framsóknarflokksins við innrásina í Írak. Eftir á heyrðist viðtal við Valgerði og vildi hún gera sem minnst úr orðum formannsins og hefði sennilega stutt innrásina miðað við þær forsendur sem þá voru fyrir hendi.

Það er stutt í kosningar. Það er ljóst að stuðningur Framsóknarflokksins við innrásina ætlar að verða honum fjötur um fót og ekki hafa formannsskiptin aukið fylgi flokksins. Það er því ljóst að grípa þarf til neyðarúrræða og losa sig við hernaðarhyggjuna og milda aðeins yfirbragð flokksins. Tal formannsins hljómaði því meira eins og tæknileg mistök stjórnar Ísraels sem ætlaði ekki að drepa þessa fjölskyldu heldur einhverja aðra, eða tæknileg mistök Árna Johnsen sem fólust í því að láta koma upp um sig.

Nei, ef Framsóknarflokkurinn vill halda andlitinu er aðeins eitt að gera, biðja írösku þjóðina afsökunar á stuðningi við fjöldamorðin í Írak og íslensku þjóðina afsökunar á að hafa stutt við innrásina. Jafnframt ber formanninum að draga opinberlega til baka stuðning Framsóknarflokksins við innrásina. Þá fyrst getum við velt því fyrir okkur hvort við fyrirgefum Framsóknarflokknum “mistökin”.

-----oOo-----

Af því að laugardagurinn er liðinn, er sjálfsagt að segja frá síðustu úrslitum í enska fótboltanum, allavega þeim úrslitum sem skipta máli og eru öllum gleðiefni.

Þar ber fyrst að nefna hetjurnar hugprúðu í Halifaxhreppi sem enn einu sinni sýndi sína olympísku hlið og töpuðu fyrir Kröflubæ í kvenfélagsdeildinni. Þá vann Sameining mannshestanna Dómínókubbana með sjö mörkum gegn engu í efstu Vestfjarðadeild og loks vann hinn illræmdi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Bolton að nafni, þið vitið, þessi með hárkolluna og að því er virðist, álímda yfirvaraskeggið, Rassenal með þremur mörkum gegn einu í litlu deildakeppninni.

laugardagur, nóvember 25, 2006

25. nóvember 2006 – Oliver Twist og kisurnar mínar

Einhver sterkasta kvikmyndaminning sem ég man frá æskunni, er sviðsmyndin af Oliver Twist á munaðarleysingjahælinu þar sem glorhungraðir krakkarnir horfa á starfsfólkið gæða sér á veisluréttum, en fá sjálf ekkert annað en leifarnar og illa það (útgáfan frá 1948?). Þarna var starfsfólkið sýnt sem hið illa í heiminum og andstæðan voru saklaus og munaðarlaus og óhrein börnin sem gátu lítið gert sjálfum sér til bjargar og í örvæntingu sinni drógu um það hvert ætti að biðja um meiri mat og Oliver Twist skjálfandi af hræðslu gekk til förstöðumannsins og sagði þessi fleygu orð sín: “Please, sir, I want some more”

Ég á það til að elda mér góðan mat sem gefur góða lykt og þá bregst ekki að kisurnar mínar koma hlaupandi og slefandi bíða þær færis að fá sér bita. Einhverju sinni hafði ég soðið mér sviðakjamma og sett á disk til að lofa honum að kólna aðeins áður hans yrði neytt. Ég þurfti að bregða mér frá í eina eða tvær mínútur og þegar ég kom aftur, var kjamminn horfinn. Hrafnhildur ofurkisa hafði þá dröslað honum niður á gólf og undir borð og nagaði hann af miklum móð. Eftir smástund gafst hún upp á kjammanum og snéri sér að venjulegum kattamat að venju. Eftir sat ég glorhungruð og hafði ekki lyst á matnum sem kötturinn hafði rænt frá mér.

Þrátt fyrir þessa hegðun kattanna, fæ ég alltaf hálfgert samviskubit þegar ég elda og kisurnar horfa slefandi á matinn sem ég er að búa mig undir að borða. Líður mér þá eins og starfsfólkinu á munaðarleysingjahælinu hlýtur að hafa liðið þegar það hámar í sig góðgætið og munaðarleysingjarnir, þau Hrafnhildur, Oliver Twist og Tárhildur horfa glorsoltin á.

föstudagur, nóvember 24, 2006

24. nóvember 2006 - Um veiðar með botnvörpu

Það var mikið sagt frá mótmælum Greenpeace vegna þess að Ísland greiddi atkvæði gegn veiðibanni með botnvörpu hjá Sameinuðu þjóðunum í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudagskvöldið. Eitthvað bar fréttin með sér að nú er enginn fréttamaður lengur á NFS/Stöð 2 sem hefur þekkingu á botnvörpuveiðum því öll myndskotin sem fylgdu fréttinni voru af skipum sem ekki stunda botnvörpuveiðar. Þarna voru línu og handfærabátar og svo stór nótaskip sem einnig geta stundað veiðar með flotvörpu, en ekkert botnvörpuskip sást í mynd, hinsvegar loðna sem er veidd í nót og flotvörpu og línufiskur.

Annars hefi ég lítið fylgst með þessu máli. Ég var þó búin að heyra að Kanada ætlaði að greiða atkvæði gegn þessu banni, en að hryðjuverkamaðurinn George Dobbljú Bush styddi bannið. Það er þá vel komið á með honum og genginu í Greenpeace og Sea Shephard. Fyrrum starfsmðaur Greenpeace, sjálfur Árni Finnsson má alveg öskra sig hásan í mótmælum við orð mín. Ég tek ekkert mark á orðum hans í þessum efnum.

Það væri annars fróðlegt að sjá listann yfir þau ríki sem greiddu atkvæða með banninu og hver á móti. Veit einhver hvar listann er að finna?

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

23. nóvember 2006 - 2. kafli - Af þróun lýðræðis

Ég rakst á ansi áhugaverða grein um lýðræði í heiminum í blaði í morgun og get ekki stillt mig um að birta slóðirnar.

Það kemur ekkert á óvart að Norðurlöndin ásamt Hollandi raða sér í sex efstu sætin, en það landið þar sem mest er gortað yfir lýðræði og er stöðugt að reyna að koma sínu lýðræði á önnur ríki, lendir aðeins í 17. sæti.

23. nóvember 2006 – Íslensk nákvæmni

Við lok miðstjórnarfundarins góða í Tórínó kom upp spurningin um tímasetningu næsta fundar sem verður haldinn í Amsterdam í vor og Justus formaður lagði til að fundurinn yrði haldinn helgina 28. og 29. apríl 2007. Ég mótmælti og benti á að ég yrði á vakt þessa helgi og kæmist hvergi.

“Hvað ertu að rugla manneskja, það er hálft ár þangað til og ertu virkilega búin að skipuleggja vaktina þína þessa daga?”, spurði Stephen Whittle.
Ég benti á að ég ynni vaktir og núverandi vaktafyrirkomulag og vaktir hefðu verið ákveðnar árið 2003, en var reyndar ekkert að taka fram að við værum að breyta vöktum um áramót, en vissum vaktirnar fyrir næsta ár.

(Í hugann sló gamalli minningu er Tollgæslan í Reykjavík fékk vaktatöfluna sína (sem var leyndarmál) hjá mér sem var vélstjóri á Álafossi á þeim tíma).

Vaktafyrirkomulag mitt og nákvæmnin í þeim efnum hafði áður komið til umræðu á fundinum í Manchester síðastliðið sumar. Með því að vaktirnar mínar komu aftur til umræðu á þessum fundi, er ég orðin illræmd fyrir íslenska nákvæmni, jafnvel af Þjóðverjunum sem kalla þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Það var ekki Bretinn sem gerði góðlátlegt grín að íslenskri nákvæmni, heldur Þjóðverjarnir.

Þessir Íslendingar eru víst alveg hræðilega nákvæmir, skipulagðir og leiðinlegir. Spyrjið bara fólkið í miðstjórn TGEU!

-----oOo-----

Enn fleiri nýjar myndir frá Torino á myndasíðunni, 4.3. Torino 11.2006

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

22. nóvember 2006 – Hvað hefur komið fyrir?

Þegar ég kom heim frá útlöndum á þriðjudag var eitthvað skrýtið í gangi. Blessuð börnin í hverfinu voru útum allt að leika sér á sleðum og búa til listaverk úr snjó. Svona lagað gengur ekki og því voru kallaðar til gröfur til að fjarlægja þetta hvíta hvelvíti eins og kostur var svo að börnin færu sér ekki að voða. Ég fór að velta því fyrir mér hvort börnin í Árbæjarhverfi séu eitthvað öðruvísi en önnur börn og séu úti að leika sér í stað þess að iðka hugarleikfimi og tölvuspil?

-----oOo-----

Ég hefi verið að dunda mér við að setja inn nokkrar myndir á myndasíðuna mína. Verkinu er ekki lokið, en ég stefni að því að ljúka verkinu á miðvikudagskvöldið. Textarnir koma síðar.

-----oOo-----

Svo er gullið tækifæri til að óska Svenna mági mínum til hamingju með að hafa náð Paul McCartney í aldri. Nú geta þeir víst ekki lengur sungið: “When I´m sixtyfour.”

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

21. nóvember 2006 – Áttavilltur afgreiðslumaður

Ég kom við á Stansted flugvelli í morgun. Ég byrjaði á því að koma við á innritunarborði hjá Æsland Express og skilaði töskunni minni til afgreiðslumannsins (hvaða orð má nota um karlkyns hlaðfreyjur?) og hann spurði hvort ég vildi sæti við gang eða við glugga.
“Ég vil sæti við glugga, eins framarlega og hægt er og stjórnborðsmegin”, svaraði ég.
“Hvað áttu við?” spurði drengurinn.
Ég ítrekaði ósk mína en lét þess getið að ég vildi sitja hægra megin í vélinni í stað þess að nota orðin starboard side.
“Hvort viltu þá vera hægra megin miðað við að þú snúir aftur eða þú snúir fram?” spurði drengurinn.
“Ég vil vera hægra megin miðað við að ég horfi fram í vélinni, þ.e. stjórnborðsmegin”
“Já, stjórnborða, þú hefðir getað sagt það fyrr” sagði þá drengurinn, keyrði út brottfararspjald fyrir mig og ég hélt inn í fríhöfnina.Eftir þetta gekk allt vel. Vélin var nánast á áætlun og flugfreyjurnar voru óskaplega þægilegar sem og þeir farþegar sem ég hafði samskipti við. Einasta vandamálið var að ég sá ekkert nema Atlantshafið þar til flugvélin lenti í Keflavík þar sem ég sat aftarlega bakborðsmegin í vélinni!

mánudagur, nóvember 20, 2006

20. nóvember 2006 - Austurríkismenn er lélegir drykkjumenn

Þá er síðustu nóttinni í Tórínó lokið að sinni, en um leið er ástæða til að kynna sér borgina betur því ætlunin er að halda hér ráðstefnu að ári svo það er eins gott að kanna vandlega hvar helstu flatbökustaðina er að finna eins og Pitsu 67 og Tommapitsur.

Ég skrapp aðeins út á lífið ásamt vinum mínum frá Austurríki. Þau drukku nánast ekki neitt, algjörir hænuhausar. Við komum við á einum flatbökuveitingastað og fengum okkur í gogginn á leiðinni í bæinn og svei mér ef Ragnhildur Steinunn (vinnufélagi hans Simma) var ekki sjálf að afgreiða á borð þar inni. (Mynd síðar) Nú er kominn mánudagsmorgunn, ég löngu búin að borða minn morgunmat og pakka í töskuna og sit hér niðri í hjá móttökunni og reyni að ljúga einhverju í mína kæru lesendur. Á sama tíma sýnist mér sem Eva og Jo séu enn hálfsofandi uppi á herbergi og nást varla út fyrr en um hádegi (nýta greiddan tíma á hóteli til hins ýtrasta). Ætlunin er að kíkja aðeins í kaupfélagið og athuga hvort nýjasta tískan af vaðmálspilsum og sauðskinnsskóm séu komin í búðina áður en haldið verður á flugvöllinn og áleiðis heim á leið, en samkvæmt áætlun mun ég þurfa að moka af bílnum um þrjúleytið á morgun.

P.s. Hér er ágætis veður, brakandi þurrkur og mér sýnist sem heyskapur sé góður. Blessaðir Rómverjarnir mættu þó vera aðeins duglegri við að taka til í kringum sig.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

19. nóvember 2006 - 2. kafli - Líkklæði Krists


Það var alltaf á áætlun að kíkja á "líkklæði Krists" ef komið yrði til Tórínó og eftir að fundinum okkar lauk í hádeginu var komið við í kirkju. Ekki var það verra á þessum degi, en reynt er að halda alþjóðadag "Transgender Day of Remembrance" á þeim sunnudegi sem næstur er 20. nóvember. Þegar ég fór að spyrjast eftir kirkjunni þar sem líkklæðin eru geymd, var mér bent út á næsta torg örfáa metra frá fundarstaðnum okkar, en gatan er að auki við kirkjuna, Via della Basilica. Það var því byrjað á að rölta út á horn og í kirkju. Ekki vildu kirkjuverðirnir opna kistuna og sýna okkur líkklæðin, en leyfðu okkur að taka myndir þar inni að vild, þar á meðal af kistunni sem geymir gersemarnar. Muna að klikka til að sjá fulla stærð.

Annars allt í góðu. Ég er búin að ganga fæturna upp að hnjám og svo er örlítið teiti í kvöld.

19. nóvember 2006 - Formaðurinn okkar er þrælahöfðingi

Senn fer þessum fundi að ljúka. Við vorum að til klukkan að verða ellefu í gærkvöldi og byrjuðum aftur klukkan níu í morgun svo lítið hefur verið um skemmtanir. Að sjálfsögðu mætti formaðurinn of seint, enda löngu orðinn opinber karlmaður, ekki bara andlegur karl og rekur okkur áfram eins og hinn versti harðstjóri.

Eftir hádegið er á áætlun að kíkja hér í næsta hús og athuga hvort líkklæði Krists eru ófölsuð. Síðan verður hægt að líta á lífið hér í kring og svo er búið að bjóða í partí í kvöld hjá einhverjum ítalsk/austurrískum hjónum hér í bænum og kannski taka einn bryggjurúnt.

Það verður svo haldið áleiðis heim annað kvöld. Meira bull síðar.

P.s. Það er enginn snjór hérna.

laugardagur, nóvember 18, 2006

18. nóvember 2006 - 3. kafli - Menningarsjokk

Við höfum setið á fundi hér í allan dag í gamla hverfinu í Tórínó og rætt landsins gagn og nauðsynjar, ekki komist út, ekki einu sinni á krána til væta í okkur kverkarnar, enda er formaðurinn hinn mesti harðstjóri. Það er kannski eins gott að fólk er ekki að drekka mikið. Þegar ég var búin að sitja á fundinum í sex tíma fannst mér tími til kominn að skreppa á salernið. Ég snéri öfug út aftur því ekkert var klósettið, einungis gat á gólfinu.

Ég rifjaði það upp fyrir mér að síðast þegar ég sá salerni þessarar gerðar var á Ítalíu 1974. Greinilega er ég sem Íslendingur góðu vön.

Í kvöld á að skreppa í bæinn og fá sér gott að borða og drekka með. Það er eins gott að salernin séu í lagi á þeim veitingastaðnum.

18. nóvember 2006 – 2. kafli - Schumacher númer tvö í Tórínó

Það rigndi þegar ég kom til Tórínó. Það var engin smárigning. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Ég var orðin of sein til fundar og flýtti hvað ég gat í gegnum flugstöðina og út í leigubíl sem var þar fyrir utan og svo var ekið af stað.

Mér fannst leigubílstjórinn keyra hratt þótt ekki hefði ég óskað eftir því við hann að flýta sér og spennti öryggisbeltin þar sem ég sat afturí. Á hraðbrautinni frá flugvellinum og inn í borgina var 100 km hámarkshraði og ég sá mælinn liggja í 140 í úrhellinu og þótt varla sæist framfyrir bílinn vegna bleytunnar. Svo komum við að framkvæmdasvæði, 80, svo 60, loks 40, en bílstjórinn virtist taka öllum skiltunum sem áskorun því skyndilega var hann kominn upp í 160.

Fáeinum mínútum og tíu nöglum síðar var hann kominn að hóteldyrunum þar sem fólkið átti ekki von á mér fyrr en löngu síðar. Ekki sá mikið af andliti bílstjórans, en hann hlýtur að vera búinn að sækja um plássið hans Michaels Schumacher hjá Ferrari.

18. nóvember 2006 – Ítali með tvo farsíma

Þegar ég beið í biðröð á Stansted eftir innritun í flugið til Ítalíu, veitti ég athygli manni á milli þrítugs og fertugs sem var að tala í síma. Þetta var myndarlegur maður, óaðfinnanlega klæddur og snyrtur og talaði látlaust í síma. Málrómurinn var sterkur og ítalskan hjá honum var óvenjuskýr og auðvelt fyrir mig að greina orðaskil. Það var bara að maðurinn var með farsíma í báðum höndum og hringdi í þá til skiptis, en talaði einungis í annan þeirra, talaði hátt og mátti ætla að hann væri í góðu sambandi við móður sína.

Maðurinn bar það með sér að vera algjör frekjuhundur, tróð sér framfyrir einn að öðrum í biðröðinni og í hvert sinn tók hann upp símann og hringdi í mömmu. Áður en langt um leið stóð hann fremstur í biðröðinni og þar af leiðandi fyrstur til að innrita sig. Hann var fyrstur að afgreiðsluborðinu út í vél og hringdi í mömmu að venju, en þá fór í verra. Það hafði orðið seinkun á komu flugvélarinnar vegna úrhellisrigningar og að auki hafi raninn slegið út og því þurftu farþegarnir að hlaupa út að vél í rigningunni. Minn maður óttaðist að leysast upp í rigningunni og fór í regnjakka og hringdi í mömmu, en á meðan ruddust margir farþegarnir framhjá honum og út í vél og mér sýndist hann fá afleitt sæti í vélinni (það eru ekki númeruð sæti hjá Ryan Air).

Svo var flogið af stað og maðurinn þagði þessa tæpu tvo tíma sem flugið tók. Um leið og vélin var lent heyrði ég hvar hann kallaði í mömmu. Það var sama sagan í Tórínó, úrhellisrigning, enginn rani og farþegarnir þurftu að fara með flugvallarrútu að flugstöðinni. Ítalinn okkar komst ekki í fyrri rútuna, en varð að bíða undir vængnum eftir næstu rútu. Hið síðasta sem ég heyrði til hans var inni í flugstöðinni, en hann var þá enn úti við dyr í langri biðröð að vegabréfaskoðun og talaði við móður sína svo hátt, að öll flugstöðin heyrði hvert einasta orð.

Ég er enn að velta hinum símanum fyrir mér. Úr því annar farsíminn var auðsjánlega til að vera í beinu sambandi við mömmu, ætli hinn síminn hafi verið til Drottins allsherjar?

föstudagur, nóvember 17, 2006

17. november 2006 - 2. kafli - Komin a Stansted

Ferdin gekk vel. 'A Keflavikurveginum sa eg leynilogguna fra Hafnarfirdi liggjandi i leynum og bidandi eftir einhverjum sem faeri kannski hugsanlega upp i 95, en theim brast bogalistin thvi thad var engin umferd klukkan halffimm ad morgni.

Velin var full af folki a leid a arshatid sem og nokkrum fotboltabullum sem halda med Rassenal, theirra a medal kallinn hennar Gerdar. Mer syndist hann vera edru. Fyrir framan voru sex bullur 'i hop og toludu hatt og mikid. Thad var ekki fyrr en eldingu laust i velina sem their thognudu smastund, en svo heldu their afram eins og ekkert hedfdi i skorist.

Annars allt i godu. Thad er agaett vidtal vid mig i DV i dag. Sem betur fer er thad litid aberandi. Thad var thad sem Kjoinn var ad tala um.

Lofa ad skila kvedjum til Michael Schumacher fra Sardinunni

17. nóvember 2006 - Ókristilegur tími

Ég átta mig á því nú þegar ég er búin að koma mér á fætur um miðja nótt, að forráðamenn flugfélaga hafa gleymt að til nokkuð sem heitir að vakna á kristilegum tíma að morgni. Því er ég hér stúrin, kettirnir í fýlu og framundan bíður löng leið til Kebblavíkur í ísköldum bílnum.

Mér skilst að það verði eitthvað hlýrra á þeim slóðum sem ég stefni á og það á sama tíma og Hitaveitan græðir á tá og fingri á góðri sölu á heitu vatni.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

16. nóvember 2006 - 2. kafli - Loksins loksins ...

... kom jákvæð sænsk frétt um hvalveiðar Íslendinga.

Eins og flestir Íslendingar vita, hafa Svíar beitt sér mjög gegn hvalveiðum Íslendinga. Í fimmtudagsblaði Dagens nyheter kom ný frétt ásamt viðtali við Guðmund Árna Stefánsson sendiherra:

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=678&a=589053&previousRenderType=6

16. nóvember 2006 – Að vera í Evrópusamstarfi

Eins og ég hefi verið að monta mig af, þá er ég að fara í helgarferð til Tórínó á Ítalíu á föstudaginn, en þar ætlar stjórn Evrópsku transgendersamtakanna (TGEU) að hittast og ræða starfsemina framundan. Allt er þetta óskaplega gott og ég uppfull tilhlökkunar að hitta vinina og vinkonurnar, ræða við þau málin og borða og drekka saman og kannski skreppa saman út á lífið eina kvöldstund og versla lítilsháttar jólagjafir á mánudeginum áður en haldið verður heim.

Einhver skaut að mér þeirri spurningu hvort fólkið væri eins og trönsurnar í sjónvarpsþáttunum í Little Britain. Því er til að svara að svo er ekki. Að venju mætir tugur til hálfur annar tugur fólk af öllum stærðum og gerðum, karlar og konur og fólk sem ekki vill skilgreina kyn sitt, yfirleitt fólk sem er búið að reyna ýmislegt í lífinu í gegnum margra ára baráttu og er tilbúið að aðstoða og styðja annað fólk í sömu aðstæðum við að takast á við lífsbaráttuna.

Einn er þó reginmunur á mér og öllum hinum í þessu Evrópusamstarfi. Mörg koma akandi á eigin bílum að heiman, frá Þýskalandi, Austurríki, en Rosanna kemur til fundar með strætó eða á reiðhjólinu. Önnur koma með lest og fólkið frá Bretlandseyjum kemur með flugi. Ég ein þarf að millilenda og bíða á flugvelli í marga klukkutíma og síðan gista á heimleiðinni. Að auki þarf ég að reiða af hendi það gjald sem fylgir því að búa í einu dýrasta landi í heimi og greiða himinhátt lausnargjald fyrir að komast frá átthagafjötrunum. Þannig þarf ég að greiða yfir 30 þúsund krónur fyrir ferðina með “lággjaldafélaginu” Iceland Express, Keflavík-Stansted-Keflavík, en einungis fimm þúsund krónur með Ryan Air fyrir ferðina Stansted-Torino-Stansted. Ég vil þó taka fram að sú þjónusta sem ég hefi fengið af hálfu starfsfólks Iceland Express hefur verið framúrskarandi og á það jafnt við um starfsfólk á jörðu niðri sem og flugáhafnir.

Reyndar hefi ég aðeins einu sinni orðið fyrir vonbrigðum með þjónustuna um borð, en það var hjá SAS og danskur flugþjónninn átti annað hvort slæman dag eða var löngu búinn að missa áhugann á starfi sínu og hálfpartinn kastaði viðbitinu í farþegana.

Loks vil ég taka fram að ég hefi einu sinni fengið styrk vegna þessara ferða minna. Það var frá Samtökunum 78 með því að ég sat hluta af alþjóðaráðstefnu Alþjóðasamtaka samkynhneigðra í Genf í Sviss ásamt með þátttöku minni í fundum Evrópsku transgendersamtakanna og ráðstefnu ILGA (Alþjóðasamtök samkynhneigðra) um transgender málefni og málefni tengd atvinnuþátttöku. Ég kann Samtökunum 78 mínar bestu þakkir fyrir einlægan stuðning. Ef einhver veit um aðila sem vilja styrkja þátttöku Íslendinga í slíku alþjóðasamstarfi, má hann eða hún gjarnan láta mig vita. Ég get ekki látið fjárvana fjölskylduna styrkja mig aftur til slíkra ferða eða sótt endalaust úr eigin vasa ofan á hefðbundna lífsbaráttu.

-----oOo-----

Loksins fær Jónas (sá sem gaf okkur fallegustu ljóð íslenskrar tungu) innilegar hamingjuóskir með 199 ára afmælið.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

15. nóvember 2006 – Tæknileg mistök...

....voru orðin sem Árni Johnsen notaði um óskammfeilna áráttu sína eftir fjármunum annarra. Í viðtali við sjónvarpið nefndi hann auk þess, að hann hefði ákveðið fyrir alllöngu að helga líf sitt starfi fyrir fólkið í landinu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hefi heyrt að þjófnaður frá ríkissjóði sé starf fyrir fólkið í landinu. Allir vita hvernig það fór.
Þessi maður verður væntanlega í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi í Alþingiskosningunum á vori komanda. Ég spyr á móti: Kann þessi maður ekki að skammast sín?

Tæknileg mistök voru sömuleiðis orðin sem ríkisstjórn Ísraels notaði um eldflaug sem geigaði og drap 18 saklausar persónur. Ber að skilja afsökunina sem svo að þeir hafi ætlað að myrða aðrar 18 persónur?

Tæknileg mistök verða vonandi aldrei notuð um hjónavígslu á þessum degi fyrir 31 ári síðan. Ég ætlaði að standa mig í hjónabandi, en það reyndist mér ókleyft og endaði með skilnaði tæpum áratug síðar. Það er kannski mín skömm, en á það ber að líta að ávöxtur þessarar hjónavígslu voru þrjú yndisleg börn sem nú eru uppkomin og farin að geta af sér eigin börn. Maður notar ekki orðið mistök yfir börnin sín, ekki einu sinni tæknileg mistök í því skyni að sópa yfir skömmina.

-----oOo-----

Ég heyrði mjög safaríka kjaftasögu á þriðjudeginum og fjallaði hún um mig. Samkvæmt henni er sæmilega þekkt kona hér á Reykjavíkursvæðinu skilin við eiginmanninn, orðin yfirlýst lesbía og farin að búa með mér. Til að fyrirbyggja misskilning, þá er enginn fótur fyrir þessari annars ágætu kjaftasögu og ég held áfram að búa ein með mínum tveimur kisum.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

14. nóvember 2006 – Mikið að gera

Ég tók eftir því á mánudeginum er ég fylgdist með fréttum, að banaslysið á Reykjanesbrautinni átti hug fólks allan. Það er eðlilegt því þarna átti sér stað hörmulegur trassaskapur ásamt hugsanlegum ofsaakstri og ölvunarakstri.

Ég ætla ekki að réttlæta klaufaskap og handvömm vegagerðarmanna. Það er ljóst af fréttum að þeir fóru eftir lágmarkskröfum Vegagerðarinnar. Síðan má deila um hvort lágmarkskröfurnar séu nægar til að tryggja umferðaröryggi. Ef ég er að aka í Svíþjóð á vegi þar sem er 90 km hámarkshraði, kem ég skyndilega að varúðarskilti með merkjum um vegaframkvæmdir og um leið er ljósaskilti sem segir mér að lækka hraðann niður í 70 km/klst. Nokkru síðar kem ég að öðru skilti sem segir mér að lækka niður í 50 og síðan því þriðja, rétt áður en komið er að framkvæmdasvæðinu þar sem ég verð að lækka ofan í 30. Öll eru skiltin lýsandi allan sólarhringinn og þá loksins kem ég að sjálfu framkvæmdasvæðinu með slíku blikkljósasafni að ég kemst ekki hjá því að hægja á mér og aka varlega.

Er ekki kominn tími til að senda vegagerðarvinnuverkstjórana til Svíþjóðar að læra hvernig á að standa að vegaframkvæmdum?

-----oOo-----

Ég er komin í níu sólarhringa frí, á ekki vakt né vinnu fyrr en miðvikudaginn 22. nóvember. Þetta áttu reyndar að verða ellefu sólarhringar, en ég tók eina aukavakt. Samt er hægt að nýta þessa daga til hins ýtrasta. Vinafólk mitt frá hinum ýmsu ríkjum Evrópu og samherjar í baráttunni ætlum að hittast suður á Ítalíu næstkomandi laugardag og bera saman bækur okkar og ræða baráttuna framundan. Sjálf sá ég lengi vel ekki möguleika á að komast á fundinn vegna fjárhagsvandræða, en dýrar framkvæmdir við blokkina hjá mér setja mark sitt á peningamálin. Þá kom lausnin óvænt, en eldri sonurinn bjargaði ferðinni og nú er allt klappað og klárt og ég get farið að raða í ferðatöskuna.

-----oOo-----

Svo fær Surtsey hamingjuóskir með 43 ára afmælið.

mánudagur, nóvember 13, 2006

13. nóvember 2006 – Af umferðarmerkingum

Um miðjan september var ég á ferð í miðborg Reykjavíkur seint að kvöldi og rigningarúði úti. Ég ók Lækjargötuna til norðurs á vinstri akrein, en bílarnir á hægri akrein ætluðu greinilega að halda austur Hverfisgötu. Ég ætlaði svo áfram út á Kalkofnsveginn, en þá veitti ég því skyndilega athygli að búið var loka leiðinni með gráum steinklossum sem sáust mjög illa í myrkrinu. Hvergi voru nein merki þess hvert átti að fara, til dæmis hvort önnur akreinin til suðurs væri frátekin fyrir umferð til norðurs. Ég þorði ekki að taka áhættuna og með hjálp tillitssamra leigubílstjóra, tókst mér að komast inn á Hverfisgötuna, síðar niður á Sæbraut og heim. Síðar heyrði ég útvarpsauglýsingar þess efnis að lokanir væru við Kalkofnsveg, en sjálf hefi ég ekki farið niður í bæ að kvöldlagi á bílnum síðan þá.

Þetta kom mjög sterkt upp í hugann þegar fréttir bárust af banaslysi á Reykjanesbraut á laugardagskvöldið og alvarlegar athugasemdir gerðar við merkingar á vinnusvæðinu við Reykjanesbrautina. Þá var einnig rætt um fleiri staði með ónógar merkingar eins og gatnamót Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar auk Kalkofnsvegarins og Sæbrautina ofan við Sundahöfn.

Þegar ég bjó í Svíþjóð kom ég oft að gatna- og vegaframkvæmdum. Þær voru undantekningarlaust merktar löngu áður en komið var að framkvæmdasvæðinu og hjáreinar vel merktar með ótal blikkljósum og lýstar upp eins og kostur var.

Nú eru framkvæmdirnar á Reykjanesbrautinni búnar að kosta mannslíf. Vonandi verður það til að þessi mál verði tekin föstum tökum hér eftir og að ekki þurfi að heyrast meira af slíkum slysum í framtíðinni.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

12. nóvember 2006 - Grátur og gnístran tanna...

... heyrðust úr ranni mínum þegar ljóst var hvert stefndi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík og Guðrún Ögmundsdóttir úti í kuldanum. Getur það virkilega verið að staða mín, annars transgender fólks og samkynhneigðra sé virkilega svo lágt metin að okkar ákafasta stuðningsmanneskja skuli send út í ystu myrkur?

Ég hefi svosem lengi vitað að stuðningur minn við einstaka manneskju eða málefni hefur aldrei mælst vel fyrir, en samt. Guðrún Ögmundsdóttir á ekkert slæmt skilið og erfitt að sætta sig við að kjósendur Samfylkingarinnar skuli hafna henni. Sjálf fór ég að velta því fyrir mér hvort Samfylkingin væri raunverulega sá stjórnmálaflokkur sem ég hélt hana vera. Við höfðum orðið fyrir erfiðum úrslitum í hverju kjördæminu á fætur öðru og núna í Reykjavík. Við okkur blasir sú grátlega staðreynd að Samfylkingin er að verða karlrembuflokkur sömu gerðar og Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálf græt ég hörmulega útkomu Guðrúnar Ögmundsdóttur, Bryndísar Ísfoldar og lélegan árangur Ástu Ragnheiðar.

Það er ljóst að smalarnir unnu þetta prófkjör. Það er ekki annað að gera en að taka þátt á fullu þetta árið, en koma í veg fyrir illindi smalanna með jákvæðu flokksstarfi næstu árin og koma svo á fullu til starfa og sigurs að fjórum árum liðnum.

Það verður erfitt að vinna þessar kosningar nema íhaldið klúðri sínum málum enn frekar en orðið er. Kannski að sakamannalisti Sjálfstæðisflokksins bjargi okkur að einhverju leyti. Guðrún Ögmundsdóttir má þó vita að störf hennar í þágu minnihlutahópa samfélagsins verða áfram í huga okkar og við munum standa áfram með henni hvað sem á dynur, vonandi öll full þakklætis í hennar garð.

laugardagur, nóvember 11, 2006

11. nóvember 2006 – Íslendingabók


Það eru sennilega um fimm ár (fjögur ár leiðr.) frá því Íslendingabók var sett á netið, öflugur gagnagrunnur um ættir Íslendinga frá upphafi og til þessa dags. Í upphafi var ég full grunsemda og ótta gagnvart þessum nýja ættfræðigrunn sem þarna hafði skotist út á netið eftir að hafa verið til í pappírsformi um nokkurt skeið, en um leið uppfull tilhlökkunar að sjá hvaða möguleikar fælust í honum.

Það var eðlilegt að ég væri smeyk við þessa tilraun Friðriks Skúlasonar og Kára Stefánssonar til heildarútgáfu á ættum Íslendinga. Það var ótti í mörgum þess efnis að Íslendingabók gengi af ættfræðinni dauðri. Þarna hafði fjöldi fólks sem flest var komið yfir miðjan aldur, dundað sér í mörg ár við að grúska í ættum sínum og annarra með misjöfnum árangri, en nú áttu hópar háskólanema að hraðrita skráningu gagna úr kirkjubókum í sumarfríinu sínu, en aðrir að skrá inn í gagnagrunninn ættir sem þegar hefðu verið færðar í bækur og án þess að höfundar bókanna fengju neitt fyrir.

Afstaða mín til Íslendingabókar breyttist þó fljótlega eftir að hún kom á netið. Aðgangur að ættum annars fólks var takmarkaður, en þó ekki alveg lokaður. Það var hægt að rekja sig saman við hvaða Íslending sem var og ættir Íslendinga fyrir 1703 voru opnar öllum sem höfðu fengið aðgang að Íslendingabók. Starfsfólk Íslendingabókar gerði miklar kröfur um fagleg vinnubrögð og leiðrétti ekki innkomnar athugasemdir nema að vel athuguðu máli. Ég lenti nokkrum sinnum í að verða ósammála starfsfólkinu vegna einstakra atriða, en ávallt leystust málin að lokum á þann hátt að vel mátti við una.

Fyrsta árið sem Íslendingabók var á netinu, var aðsóknin framar björtustu vonum. Stundum voru þúsundir inni að grúska samtímis, svo að kerfið réði ekki við allan fjöldann. Síðar eftir að fólk hafði skoðað nægju sína og nýjabrumið farið, voru jafnan 100-200 manns inni samtímis að skoða ættir sínar. Þegar þessi orð eru rituð á föstudagskvöldi, eru 154 manns inni að skoða ættir sínar. Það ber að þakka Friðrik Skúlasyni og starfsfólki Íslendingabókar fyrir vel unnið verk með óskum um áframhald.

Það er full ástæða til að geta þessa hér, því heyrst hefur að senn verði Íslendingabók lokað. Íslensk erfðagreining sem hefur fjarmagnað útgáfuna, á í erfiðleikum og þarf að draga saman seglin. Sjálf tel ég eðlilegt og hvet Alþingi til að leggja fram laun minnst tveggja til þriggja starfsmanna til að halda áfram útgáfu Íslendingabókar í sem minnst breyttu formi, ásamt því að reka sjálfan gagnaþjóninn undir stjórn Friðriks Skúlasonar.

Muna að klikka á myndina til að njóta hennar.

föstudagur, nóvember 10, 2006

10. nóvember 2006 - 2. kafli - Guðrún Ögmundsdóttir


Vegna fyrirspurna ónefnds Framsóknarmanns um Guðrúnu Ögmundsdóttur, vil ég taka fram að hún er einn ötulasti talsmaður jafnréttis þegnanna á Alþingi. Ég er þess fullviss að ef fleiri þingmenn væru jafnkappsfullir og hún, væri miklu betra að búa á Íslandi.

Ég vil að öðru leyti vísa til heimasíðu hennar sjálfrar og vefs Alþingis, en vil taka fram um leið, að það er fólki sem henni að þakka, að mér var það unnt að flytja heim, búa og starfa á Íslandi eftir að heim var komið frá Svíþjóð árið 1996.

Af reynslunni get ég ekki annað en hvatt fólk til að fylkja sér um Guðrúnu Ögmundsdóttur. Hún hefur unnið fyrir þingsætinu sínu.

Heimasíða: http://www.althingi.is/go/
Umsögn Alþingis: http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=204

10. nóvember 2006 – Hrafnhildur ofurkisa


Ég var á vaktinni á miðvikudagskvöldið til klukkan 20.00 og fór síðan beint á sellufund í verkalýðsfélaginu. Þar sem við sátum og ræddum síðustu afarkosti atvinnurekenda í kjaramálum hringdi síminn minn. Í símanum var ung kona sem spurði eftir Hrafnhildi. Ég sagði sem var að einasti notandi þessa síma sem héti Hrafnhildur væri kisan mín og hún væri einhversstaðar úti við þar til ég kæmi heim.
“Og er hún svört með rauða ól?”
Ég játaði því. Hún sagði mér þá að Hrafnhildur væri hjá sér í næsta húsi og við gott atlæti, en hún hefði haldið að Hrafnhildar væri saknað að heiman. Einnig bætti hún við, að síðan kisan hennar hefði eignast kettlinga fyrir nokkru, hefði Hrafnhildur verið hjá sér öllum stundum og sjálf hefði hún talið Hrafnhildi vera fress og föður litlu kettlinganna.

Þá vitum við hvað Hrafnhildur ofurkisa er að gera af sér þegar hún kemur ekki heim til sín á kvöldin. Hún er að passa kettlinga í næsta húsi.

-----oOo-----

Svo minni ég á stuðninginn við Guðrúnu Ögmundsdóttur. Prófkjörið er á laugardag.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

9. nóvember 2006 – Transgender á Spáni

Á miðvikudagseftirmiðdaginn mátti lesa mjög jákvæða frétt á vef Morgunblaðsins. Þar er sagt frá sigri transgender fólks á Spáni eftir áralanga baráttu fyrir mannréttindum og réttlæti. Fréttin í Morgunblaðinu var sögð á ákaflega kjánalegan hátt af blaðamanni sem veit ekkert um hvað málið varðar, en samt, fréttin skilaði sér. Ekki var einvörðungu um að ræða hið forljóta og niðrandi orð sem notað er um transgender fólk í fréttinni, heldur bítur blaðamaðurinn höfuðið af skömminni með orðunum: “Samkynhneigðir verða að sýna fram á að þeir hafi verið í hormónameðferð í að minnsta kosti tvö ár, til að geta breytt um kyn og nafn á pappírunum.”
Ég efa ekki að blaðamanninum gekk gott eitt til með skrifum sínum, en um leið er í lagi fyrir hann að vita að transgender er ekki spurning um kynhneigð heldur kyngervi.

Evrópsku transgendersamtökin höfðu tekið þátt í baráttu transgender fólks á Spáni með beinum stuðningi á síðastliðnu vori, en afskiptum okkar lauk í júní með því að spænski dómsmálaráðherrann lofaði að beita sér fyrir auknum réttindum transgender fólks hið bráðasta. Við áttum ekki von á svo skjótum viðbrögðum sem raun ber vitni.

Það er víða um Evrópu sem baráttan er farin að skila árangri. Dómstólar í Sviss og Austurríki hafa nýlega dæmt transgender fólki í hag, í nafnalögum í Sviss og hjónabandslögum í Austurríki. Þá þarf transgender fólk í Belgíu ekki lengur að ganga í gegnum hjónaskilnað til að fá aðgerð til leiðréttingar á kyni. Finnland samþykkti mjög frjálsleg lög um leiðréttingu á kyni fyrir nokkrum árum og nýtt frumvarp í sömu veru hefur til umsagnar og meðferðar fyrir sænska þinginu síðasta árið.

Hvenær má búast við að Ísland skipi sér í hóp Evrópuþjóða í þessum málum?

-----oOo-----


Það ber og að fagna brottrekstri Donald Rumsfeld úr embætti hermálaráðherra Bandaríkjanna. Það hefði að vísu mátt reka yfirmann hans einnig, en við geymum besta bitann þar til síðast og bíðum í tvö ár í viðbót. Ég vil samt ekki bíða í tvö ár með að birta þessa ágætu mynd sem ég fann af kappanum á útlendri bloggsíðu. Ég er að vísu sannfærð um að Donald hugsi ekki svona (nema auðvitað að hann sé í felum), enda væri svona meðferð of góð fyrir hann, en af einhverjum ástæðum er bjánaglottið eins og límt á andlitið á honum. Ekki spyrja mig af hverju!

-----oOo-----

Enn og aftur ítreka ég stuðning minn við Guðrúnu Ögmundsdóttur.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

8. nóvember 2006 – Af vaktinni

Þegar unnið er í 12 tíma og mikið í gangi, verður oft lítið úr bloggi þegar heim er komið. Svo er með mig núna. Ég kom heim, renndi yfir nokkrar bloggsíður, fór í bað og svo er stefnan á rúmið. Einhver þreyta er búin að angra mig að undanförnu og bendir slíkt meðal annars til að ég hafi vakað of lengi frameftir á kvöldin og samið blogg í stað þess að njóta minna átta tíma í rúminu.

Mig langar þó rétt sem snöggvast til að óska Hle....., afsakið Kal....., afsakið aftur, Naglanum til hamingju með að hafa fundið sitt rétta athvarf í pólitíkinni samanber athugasemdir hans við bloggið hjá mér í gær. Ég vona það heitt og innilega að hann muni halda áfram að vera dyggur og trúr stuðningsmaður Frjálslynda flokksins og að hann láti skoðanir sínar uppi við sem flesta. Það verður okkur, andstæðingum Frjálslyndra, til mikils framdráttar.

Sjálf held ég áfram að hvetja sem flesta kjósendur Samfylkingarinnar til að styðja við Guðrúnu Ögmundsdóttur í prófkjörinu á laugardaginn.

-----oOo-----

Á þriðjudagsmorguninn gleymdi ég að minnast á ártíð forföður allra sannra Íslendinga, Jóns biskups Arasonar, sem var tekinn af lífi 7. nóvember 1550. Það er tilvalið að minnast ofbeldisverka þessa manns á ártíð hans, á sama tíma og hinir hreinræktuðu arísku niðjar hans mótmæla innflutningi útlendinga til landsins.

mánudagur, nóvember 06, 2006

7. nóvember 2006 – Erfið úrslit

Eftir að hafa kosið Vinstri hreyfinguna grænt framboð í öllum kosningum frá því hún var mynduð og þrátt fyrir óánægu mína með margt í stefnu VG, gerði ég upp hug minn á síðastliðnu vori og eftir síðustu sveitastjórnarkosningar og gerðist pólitísk. Ástæður þessa er fyrst og fremst hin mjög svo einarða stefna VG í umhverfismálum sem og andstaða þeirra við Evrópusambandið. Á þeim sviðum var ég hlynnt stefnu Samfylkingarinnar, þótt ég væri um leið mjög hlynnt stefnu VG í friðarmálum og kvennabaráttu. Þar sem ég sá möguleika á að viðhalda friðaróskum mínum og kvennabaráttu innan Samfylkingarinnar, ákvað ég að vera með. Um leið og ég innritaði mig, fór að halla undan fæti hjá Samfylkingunni. Ætli ég verði ekki rekin bráðum?

Nú er prófkjörum lokið hjá Samfylkingunni í öllum kjördæmum utan Reykjavíkur og ljóst að konur hafa allsstaðar farið halloka fyrir körlum. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra í upphafi kosningabaráttu hjá stjórnmálaflokki sem kennir sig við jafnrétti og femínisma. Einungis í Kraganum eru konur í öruggum sætum þar sem Katrín og Þórunn verma 2 og 3 sæti listans.

Með þessu er ég ekki að halda því fram að þeir karlar sem sitja í efstum sætum listanna séu neinir aukvisar. En það er ljóst að það vantar þann kröftuga neista sem þarf til að hvetja konur til dáða, bæði þær konur sem eru í framboði sem og þær sem mæta á kjörstað. Í kosningunum 2003 tókst að kveikja þennan neista með framboði Ingibjargar Sólrúnar, en af einhverjum ástæðum hefur lítið orðið um áframhaldandi hvatningu og er það miður.

Á laugardaginn kemur verður það okkar hlutverk að bæta fyrir þá karlægu ímynd sem Samfylkingin er við að fá á sig. Það gerum við með því að velja konur í sem flest sæti, ekki einungis með því að láta nægja að kjósa Ingibjörgu Sólrúnu í fyrsta sæti, heldur og að tryggja örugg þingsæti fyrir Guðrúnu Ögmundsdóttur, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Kristrúnu Heimisdóttur, Valgerði Bjarnadóttur, Þórhildi Þorleifsdóttur. Það má svo hafa eins og einn karl á hvorum lista til að punta hann aðeins. Engin nöfn nefnd. :o)

Enn og aftur hvet ég konur og aðra kjósendur að veita Guðrún Ögmundsdóttur brautargengi og tryggja henni öruggt þingsæti á vori komanda.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

6. nóvember 2006 – Drag under galoscherna ...

... eða að gefa spark með bomsunum, voru einkennisorð hins nýstofnaða stjórnmálaflokks, Ny demokrati í Svíþjóð árið 1991 undir forystu félaganna Bert Karlsson og Ian Wachtmeister. Þetta var hægrisinnaður svokallaður óánægjuflokkur sem barðist gegn því sem þeim fannst óþarfa skrifræði og bákn, en trúir hinum sanna pópúlisma hétu þeir því að hefta mjög innflutning flóttafólks til Svíþjóðar. Í þingkosningunum í september sama ár vann hinn nýi flokkur glæsilegan sigur og fékk 25 þingmenn kjörna á þing. Ny demokrati kom nánast engum málum í gegnum þingið á þremur næstu árum og í þingkosningunum 1994 þurrkaðist flokkurinn út af þingi og lognaðist svo smám saman útaf.

Frjálslyndi flokkurinn á Íslandi minnir mig að sumu leyti á Ny demokrati. Flokkurinn var stofnaður vegna óánægju, m.a. með kvótakerfið, af mönnum sem höfðu sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Síðar bættust við menn sem höfðu sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna náttúruverndarsjónarmiða, en nú hefur enn einn óánægjuhópurinn gengið til liðs við Frjálslynda flokkinn, þeir sem vilja hefta innflutning erlends vinnuafls til landsins. Frjálslyndi flokkurinn líkist orðið æ meira Ny demokrati. Ég óttast að brátt verði ekki lengur pláss fyrir formanninn í flokknum, ekki frekar en Ian Wachtmeister er hann kvaddi Ny demokrati árið 1994.

Rétt eins og Ny demokrati náði miklu fylgi í kosningunum í Svíþjóð 1991 vegna andúðar á útlendingum, óttast ég að hið sama verði uppi á teningunum hjá Frjálslynda flokknum á Íslandi vorið 2007.

-----oOo-----

Enn eru Bandaríkjamenn og leppar þeirra í Írak við sama gamla heygarðshornið. Með því að dæma Saddam Hussein til dauða eru þeir að gera þennan gamla harðstjóra og fjöldamorðingja að píslarvotti. Daginn sem dauðadómnum verður fullnægt, mun allt fara í bál og brand í Írak og ólíkar fylkingar munu berjast innbyrðis sem og gegn sameiginlegum óvini þeirra, Bandaríkjamönnum.

Lifandi Saddam í dýflissu er betri en dauður Saddam sem þarf að hefna. Þetta skilja ekki stríðsæsingamenn á borð við Bush og Rumsfeld.

-----oOo-----

Ég ítreka enn og aftur stuðning minn við Guðrúnu Ögmundsdóttur. Auk hennar er einvalalið í framboði, Ingibjörg Sólrún, Ásta Ragnheiður, Jóhanna Sig., Steinunn og Bryndís ofl. Þá má ekki gleyma strákunum, þar á meðal Ágúst Ólaf sem ég rak úr ætt við mig um leið og ég rak Björn Inga úr ættinni. Báðir þessir menn eru komnir af Ólafi Péturssyni (1764-1843) bónda og skipasmið á Kalastöðum á Hvalfjarðarströnd, miklum merkismanni sem þó var ekki ættfaðir minn eins og ættbækur bentu til.

5. nóvember 2006 – Nýtt útlendingahatur

Þegar ég bjó í Svíþjóð brast skyndilega á mikill flóttamannastraumur frá Kosovo-Albaníu til Svíþjóðar, löngu áður en allt fór í bál og brand í héraðinu. Þessir flóttamenn fengu vist í flóttamannabúðum víða um landið á meðan mál þeirra voru könnuð og metið hvort þeir ættu skilið að fá landvistarleyfi. Meðal þeirra sveitarfélaga sem tóku á móti flóttamönnum um tíma var Solna sem er álíka langt frá Stokkhólmi og Seltjarnarnes frá Reykjavík. Solnabúar þóttust strax sjá merki um aukna glæpatíðni með tilkomu flóttamannanna frá Kosovo-Albaníu og gengu sögurnar um bæinn um gripdeildir af þeirra völdum, eða eins og einn brandarinn sagði:
“Ef þú sérð Kosovo-Albana á reiðhjóli, ekki keyra á hann. Hann gæti verið á þínu reiðhjóli.”

Fyrir skömmu síðan féllu grunsemdir á nokkra útlendinga þess efnis að þeir hefðu ætlað að nauðga giftri konu á salerni veitingastaðar í Reykjavík. Síðan þetta var, hafa raddir verið háværar þess efnis að vísa beri sem flestum útlendingum úr landi og að takmarka þurfi búsetu útlendinga hér á landi, þá aðallega Pólverja og Litháa. Þvílíkur kjánaskapur.

Ég vona að ég sé að miklu leyti læknuð af þjóðrembu Íslendingsins. Mér þykir vænt um landið mitt, en lít samt svo á að flestir þeir útlendingar sem ég hefi hitt hér á landi séu ágætis fólk og séu Íslandi til sóma sem og sínum gömlu heimkynnum. Það eru til skussar innanum, en á sama tíma er einnig mikill fjöldi Íslendinga sem síst hafa efni á þjóðrembu. Við erum einfaldlega ekkert betri eða verri en aðrar þjóðir. Um leið skal ég viðurkenna að það er erfitt að fá mikinn fjölda útlendinga til mjög fámenns lands, en slíkt á að leysa með takmörkunum á framkvæmdum fremur en takmörkunum á því hverjir fá að koma til landsins.

En í guðanna bænum, ekki hengja allan hópinn fyrir þessa örfáu sem gera eitthvað af sér.

-----oOo-----

Hle.... afsakið Kallinn er greinilega mjög hrifinn af skrifum mínum þrátt fyrir orð sín í minn garð. Það er ekki aðeins að “kallinn” og “Hlerinn” heimsóttu bloggið mitt 15 sinnum á föstudag, heldur heimsótti “kallinn” mig 13 sinnum á laugardag, en þá var “Hlerinn” á frívakt. Ég fer að halda að “Kallinn” sé yfirmáta hrifinn af mér eða skrifum mínum. Ég fer alveg hjá mér vegna þessa leynda aðdáanda. Svo er hann svo einstaklega duglegur við að sýna auknar gestakomur inn á bloggsíðuna mína :)

-----oOo-----

Ég er farin að hafa áhyggjur af vesalings hetjunum mínum í Halifaxhreppi. Þær hafa nú tapað þremur leikjum í röð og eru komnar hættulega nærri rauða strikinu í kvenfélagsdeildinni sem skilur á milli feigs og ófeigs. Öllu betur gengur hjá hinu liðinu mínu, þ.e. Sameiningu Mannshestahrepps sem nú eru með 51 stig eftir 18 leiki í fyrstu Vestfjarðadeildinni og 61 mark í plús.

-----oOo-----

Ég vil loks taka fram að ég hefi lýst yfir stuðningi mínum við Guðrúnu Ögmundsdóttur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík 11. nóvember næstkomandi og hvet allt það fólk sem getur kosið í prófkjörinu að styðja hana sem og sem flestar konur í prófkjörinu. Guðrún Ögmundsdóttir er svo skemmtilega heil í baráttunni fyrir jafnrétti þegnanna að hún var í hópi fólks sem studdi jafnréttisbaráttu samkynhneigðra á áttunda áratug síðustu aldar, þ.e. fyrir stofnun Samtakanna 78 þótt hún sé gagnkynhneigð. Hún er frábær og hefur svo sannarlega sýnt okkur hvers hún er megnug.

laugardagur, nóvember 04, 2006

4. nóvember 2006 - Umferðaröryggi, Laugardalsætt ofl.

Á þessu hausti hafa verið háværar raddir um aðgerðir gegn ofsaakstri og lofaði Sturla Böðvarsson að grípa til úrræða. Ég óttaðist græðgi ráðherrans og að fundnar yrðu upp aðgerðir til að auka hag ríkissjóðs á kostnað baráttunnar fyrir umferðaröryggi. Nú blasir raunveruleikinn við okkur. Hækkanir á sektum um 60% og að auki er formaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa kallaður í sjónvarp til að lýsa blessun sinni á hinni nýju reglu samgönguráðherrans.

En var hann að beita sér gegn ofsaakstri? Nei segi ég. Hann var að innheimta sektir fyrir lögreglukórinn og ríkisvaldið. Hinar nýju reglur munu sennilega engu breyta fyrir umferðaröryggi og ef eitthvað er, skapa nýjar hættur vegna nýrrar streitu í umferðinni sem skapast með því að fólk er sektað þótt það telji sig vera á löglegum hraða. Um leið og samgönguráðherrann innleiddi nýjar reglur lækkaði hann sektarmörk fyrir hraðaakstur úr +10 km umfram gildan hámarkshraða í +5 km umfram hámarkshraða. Þar með er þetta ekki lengur spurning um hraðakstur, heldur hrein skattheimta. Eftir situr baráttufólk fyrir umferðaröryggi með sárt ennið því það var haft að fíflum.

Hér með legg ég til að Sturla Böðvarsson verði rekinn úr embætti samgönguráðherra! Hann er verri en enginn.

-----oOo-----

Á föstudagskvöldið fékk ég Laugardalsættina í hendur, mikið rit í stóru broti og rúmlega þúsund blaðsíður. Ég mun hafa nóg að lesa um helgina, enda þekki ég fjölda fólks sem tilheyrir þessari ætt og samfagna með þeim í anda. Ég vil óska Sigurði vini mínum Hermundarsyni til hamingju með þetta nýja bókmennta- og ættfræðiverk.

-----oOo-----

Hle.... afsakið Kallinn, kom inn ellefu sinnum á föstudag síðan klukkan 08.16 föstudagsmorguninn, rétt nýskriðinn heim af næturvaktinni og síðast klukkan 23.39 á föstudagskvöldið. Hann er greinilega að bíða þess að einhver segi eitthvað skemmtilegt um hann. Ég skil ekki þessa þrjósku í Kallinum. Er hann virkilega svo vitlaus að hann fatti ekki að ég fyrirgaf honum ruglið fyrir hönd Drottins allsherjar á miðvikudagskvöldið? Halelúja!

föstudagur, nóvember 03, 2006

3. nóvember 2006 – Skerandi vein í lítilli kisu

Þegar ég kom heim eftir næturvaktina að morgni fimmtudags, heyrði ég skerandi vein í lítilli kisu er ég nálgaðist húsið heima hjá mér. Það fór ekkert á milli mála að hávaðinn stafaði frá Tárhildi litlu og þegar ég kom inn í húsið heyrði ég að hávaðinn í lítilli kisu komu ekki ofan af annarri hæð. Hún reyndist vera hágrátandi utan við dyrnar út í garðinn.

Ég hleypti Tárhildi inn og var hún auðsjáanlega fegin, enda stökk hún upp stigana og beið við dyrnar inn í íbúðina þegar ég kom upp. Það var ljóst hvað hafði skeð. Vesalings Tárhildur hafði ekki gert sér grein fyrir fægðum, máluðum og síðan rigningarblautum svalahandriðunum og því ekki náð að halda jafnvægi er hún stökk upp á svalahandriðið um nóttina og því fallið niður þessa sex metra sem eru niður á jafnsléttu.

Vesalings Tárhildur er núna óvenjulega kelin og róleg og virðist ekki hafa áhuga fyrir frekari útiverum um sinn.

-----oOo-----

Á fimmtudagsmorguninn lenti ég á námskeiði. Þar prédikaði Jóhann Ingi Gunnarsson yfir okkur og áminnti okkur um að skilja vondar hugsanir eftir utandyra. Ég reyni hvað ég get að tileinka mér þau fræði sem hann lagði ofuráherslu á, en slíkt dugir ekki alltaf.

Einn sem mig grunar að hafi verið á sama námskeiði tveimur dögum fyrr, var með leiðindi út í mig í athugasemdakerfinu á fimmtudagseftirmiðdaginn. Ég hugsaði með mér að hér væri rétta tækifærið að sýna kristilegan kærleiksanda og sendi honum þau skilaboð. Annað hvort hefur þessi eini misskilið fagnaðarboðskapinn eða Jóhann Inga. Ég ætla samt að gefa honum tækifæri í einn sólarhring til að bæta ráð sitt.
Ég læt aðra um að dæma um herlegheitin, t.d. með því að skoða athugasemdir dagsins á undan.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

2. nóvember 2006 – Landsvirkjun og andlegt transgender

Ég er með nokkrar áhyggjur. Hið raunverulega óskabarn þjóðarinnar og þá sér í lagi Reykjavíkinga hefur skipt um eigendur að hluta. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa selt hlut sinn í fyrirtækinu.

Salan sem slík breytir ekki miklu fyrir rekstur þessa ágæta fyrirtækis. Hinsvegar er ástæða til ákveðins ótta um að eitthvert meira sé á bakvið söluna en einvörðungu að samþjappa eigendahlutnum. Við vitum að svokallaðir frjálshyggjupostular telja að selja beri fyrirtækið einkaaðilum. Slíkt hefur víða verið gert með alvarlegum afleiðingum fyrir viðskiptavini og starfsfólk og er Enron í Bandaríkjunum þar víti til varnaðar.

Ef ætlunin er sú að einkavæða Landsvirkjun, mun fjöldi fólks sem nú horfir jákvæðum augum til fyrirtækisins, snúast öndvert gegn ætlunum þess um frekari uppbyggingu og virkjanaframkvæmdir.

-----oOo-----

Orð mín um andlega samkynhneigð í gær urðu til þess að nokkrir aðilar reyndu að þvo af sér andlega samkynhneigð sína og er því lítil von til þess að þeir komi úr skápnum á næstunni. Samt vil ég ekkert fullyrða í þeim efnum því ótrúlegasta fólk sem ég þekki, hefur tekið upp á því á gamals aldri að koma út og lifa seinni hluta ævinnar í andlegu frelsi. Orð þeirra gáfu mér hinsvegar tilefni til að velta öðrum þætti mannlegs eðlis fyrir mér.

Eftir að ég kom heim frá Svíþjóð fyrir áratug síðan veitti ég því athygli að sumt fólk, jafnvel gamlir félagar mínir, treystu sér ekki lengur til að horfast í augu við mig. Ef ég reyni að fanga augnaráð þeirra, horfast þeir ávallt undan. Þarna er um mjög fátt fólk að ræða, en einvörðungu karlmenn. Hin neikvæðu viðbrögð þeirra gagnvart mér hafa ekkert með pólitík eða stöðu þeirra í samfélaginu að gera. Þetta er greinilega fólk sem er enn í felum, ekkert endilega í hommaskápnum, en alveg örugglega á einhverju queer sviði og jafnvel andlegar trönsur.

Ég tek það fram að hvorki “Hl.....”, afsakið “kallinn” né “Djúsi” eru í þessum hópi né heldur neinn sá aðili sem ég umgengst reglulega í dag. Sjálf sé ég enga ástæðu til að nefna þessar skápatrönsur hér og nú, en rifja upp í hjarta mínu er ég var sjálf í felum.

Það væri fróðlegt að vita hvort lesendur mínir kannist við slíka sálarkreppu viðmælenda sinna er mig ber á góma!

-----oOo-----

Óli Gneisti vakti athygli okkar á þessari klaufalegu grein Sjálfstæðiskvenna í kjölfar slæmrar útreiðar þeirra í síðasta prófkjöri.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

1. nóvember 2006 – Hin andlega samkynhneigð

Ég hefi verið að velta merkingu orðanna “andleg samkynhneigð”. Það er ljóst að andleg samkynhneigð er ekki endilega hið sama og líkamleg samkynhneigð, en samt. Ég fæ á tilfinninguna að hér sé einungis um stigsmun að ræða en ekki merkingarmun.

Sjáum til dæmis þegar áhugamaður um fótbolta er að horfa á uppáhaldið sitt, hann Eið Smára skora mark fyrir Barþelóna. Þá fær hann einhverja fullnægju og kemur þar með upp um hina andlegu samkynhneigð sína. Hvernig skyldu svo félagar Eiðs Smára bregðast við þegar hann skorar mark? Jú, þeir hætta sinni andlegu samkynhneigð, hlaupa hann uppi, faðma og kyssa og svei mér þá ef þeir reyna ekki að riðlast á stráknum fyrir augunum á tugum þúsunda áhorfenda. Svo sætt. Það er því ljóst að hörðustu hommahatarar geta verið andlega samkynhneigðir, þótt ekki sé ég að gefa í skyn að Eiður Smári hugsi þannig.

Dettur ykkur kannski í hug einhver önnur skýring á andlegri samkynhneigð?