fimmtudagur, október 05, 2006

Staksteinar mánudaginn 2. október bls 8.

Í minningu Samtaka herstöðvaandstæðinga

Hlutverki Samtaka herstöðvaandstæðinga er lokið. Því lauk í fyrradag.
*
Það var markmið Samtaka herstöðvaandstæðinga að koma bandaríska vernarliðinu úr landi. Til þess að ná því marki gengu herstöðvaandstæðingar frá Keflavík.
*
Þeir gengu í þágu kommúnismans sem hrundi með Berlínarmúrnum.
*
Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.
*
Þeir gengu í þágu þeirra sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun.
*
Þeir gengu í þágu þeirra sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17. júní 1953.
*
Þeir gengu í þágu þeirra sem sendu skriðdreka inn í Búdapest til að drepa saklaust fólk á götunum þar.
*
Þeir gengu í þágu þeirra sem kæfðu Vorið í Prag í fæðingu.
*
Þeir gengu í þágu þeirra, sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af manna völdum.
*
Þetta voru hugsjónir herstöðvaandstæðinga. Svona þjóðfélag vildu þeir skapa á Íslandi.
*
Þeir vildu koma Íslandi undir hæl kommúnismans.
*
Minning Samtaka herstöðvaandstæðinga verður ekki í heiðri höfð.
*
Bandaríska varnarliðið var á Íslandi í 55 ár. Það fór að eigin ósk.

-----oOo-----


Athugasemdir mínar:

Kommagrýlan er dauð. Afturganga hennar ráfar enn um í Morgunblaðshöllinni eða í penna ónefnds Staksteinahöfundar.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins studdu ríkisstjórn Þýskalands gegn Þórbergi Þórðarsyni er hann sagði sannleikann um Adolf Hitler árið 1933 sbr. forystugrein Morgunblaðsins 1. febrúar 1934.
*
Samkvæmt ofangreindu, studdu ritstjórar Morgunblaðsins morð á 6 milljónum gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni, sem og innrásir í mörg ríki Evrópu sem framin voru af sömu ríkisstjórn sem áður er getið.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu kjarnorkuárásirnar og fjöldamorðin í Hiroshima og Nagasaki 1945.

Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu McCarthy og ofsóknir hans gegn frjálslyndum og vinstrisinnum á árunum eftir 1950.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu innrásir Breta og Frakka inn í Egyptaland 1956.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu innrásina i Svínaflóa 1961
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu morð á tveimur milljónum Víetnama á árunum 1963-1975
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu notkun á napalm í Víetnam í lok sjöunda áratugarins.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu blóðugt valdarán Pinochet í Chile 11. september 1973 og þar með morð á tugum þúsunda íbúa Chile.

Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu innrás og bera því ábyrgð á morðum á milli 40.000 og 100.000 saklausra borgara í Írak á árunum 2003-2006.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina hafa stutt valdasjúkan öfgamann í embætti forseta Bandaríkjanna og bera því ábyrgð á gjörðum hans víða um heim.


Ég skal gjarnan éta ofangreind orð ofan í mig um leið og ritstjórar Morgunblaðsins biðja íslensku þjóðina sem og aðstandendur þeirra friðarsinna sem látnir eru, opinberlega afsökunar á orðum Staksteina mánudaginn 2. október 2006. Þeir mega einnig upplýsa okkur sauðsvartan almúgann hver skrifaði þetta níð sem birtist í blaðinu. Annars verður skömmin þeirra um langa hríð.


0 ummæli:







Skrifa ummæli