Í gær var mér borin á brýn bókstafstrú í athugasemdum við blogg dagsins. Það kom mér á óvart því ég vissi ekki til að friðarvilji teldist til bókstafstrúar. Ég ætla þó ekki að neita þeim möguleika að til sé einhversstaðar þykkur doðrantur sem lýsir friði og sem umræddur höfundur athugasemda telur að skoðun mín samrýmist. Ef umrædd bók er til, þá hlýt ég að vera bókstafstrúar, því eins og ég hefi sagt oft áður, þá eru skoðanir mínar á dauðarefsingum og styrjöldum ekki til sölu. Skiptir þá engu hvort einhver er drepinn með sprautunál, hengdur eða kjarnorkusprengju hent á borgina sem hann býr.
Samt efast ég um að umræddur höfundur athugasemda hafi hugleitt þann möguleika að einhverjir geti verið friðarsinnar. Af fyrri kynnum af manninum veit ég að hann er fylgjandi heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og álítur að allt það fólk sem ekki fylgir sömu heimsvaldastefnu séu fylgjandi andstæðri heimsvaldastefnu, heimsvaldastefnu Sovétríkjann á meðan hún var og hét og síðan árásarstefnu einhverra vafasamra pappíra í arabaheiminum.
Ég get því sannfært Djúsa um að ég er andvíg heimsvaldastefnu í hverri þeirri mynd sem hún birtist. Þó að Djúsi fylgi Halldóri Ásgrímssyni að málum í einu og öllu og þar um leið takmarkalausri hlýðni við George Dobbljú Bush, þá lifi ég enn í þeirri von að Halldór sjái að sér nú þegar hann er hættur í pólitík og hætti að fylgja Davíð og George Dobbljú Bush að málum eins og blindur rakki. Það er nauðsynlegt, svo að Framsóknarflokkurinn nái virðingu á ný á meðal kjósenda. Ef ekki, gæti farið svo að Djúsi þyrfti að innrita sig í Sjálfstæðisflokkinn fljótlega eftir kosningar, ef hann vill ekki verða pólitískur munaðarleysingi.
-----oOo-----
Mig langar til að þakka góðar kveðjur og þá hvatningu sem ég fékk frá lesendum sem fólst í athugasemdum með pistlinum 5. október.
laugardagur, október 07, 2006
7. október 2006 – Um bókstafstrú
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 04:21
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli