þriðjudagur, október 17, 2006

17. október 2006 - Haustkvöld.

Ég nennti engu á mánudagskvöldið. Naut þess að sitja með kisurnar mínar tvær yfir sjónvarpinu og síðan góðri bók. Rétt eins og aðrar bækur sömu tegundar, fjallar hún um ástir og framhjáhald og kynlíf og önnur skemmtileg ævintýri í lífinu, en einnig sjálfan dauðann. Bókin er nýkomin út og heitir Ættir Þingeyinga og er 14. bindið í ritröðinni. Bókin er talin vera nokkuð góð, því vinkona mín norður í landi er búin að lesa hana og fann einungis eina smávillu við fyrstu lesningu bókarinnar. Slíkt er talið mikið gæðamerki.

-----oOo-----

Amrískir dátar og leyniher Björns Bjarnasonar réðust gegn hryðjuverkamönnum í Hvalfirði á mánudaginn. Mér dettur bara í hug þegar öll þess læti eru í dómsmálaráðherranum, hvort ekki sé löngu tímabært að segja upp hinum nýja varnarsamningi og ganga með hraði úr Nató og setja manninn á hjúkrunarheimili fyrir einstaklinga sem festust í kaldastríðshugsunarhætti?


0 ummæli:







Skrifa ummæli