Hvað er í gangi hjá Ísal (Alcan)? Ég hefi ávallt staðið í þeirri trú að þar sé allt í himnalagi, ekki bara í öryggismálum heldur og öðrum málum og aldrei hefi ég heyrt annað en að þar sé gott að vera og mórallinn góður.
Skyndilega fara að berast aðrar sögur af álverinu. Mönnum er sagt upp störfum fyrir litlar eða engar sakir og gefið í skyn að það sé gert til að koma í veg fyrir að starfsmenn geti notað umsaminn rétt sinn og farið örlítið fyrr á eftirlaun en annars væri. Rafiðnaðarsambandið hefur lagt þeim lið sem sagt hefur verið upp, en hafa þó ekki gripið til raunhæfra aðgerða, þ.e. til einasta vopnsins sem verkamenn geta gripið til, verkfallsaðgerða. Ekki hefi ég heyrt neitt frá öðrum verkalýðsforingjum en Guðmundi Gunnarssyni. Ég hefi heyrt í tveimur aðilum sem sagt hefur verið upp störfum, annar í sjónvarpi, hinn í Morgunblaðinu. Báðir vilja meina að þeim hafi verið sagt upp án raunhæfra ástæðna. Ísal á móti neitar að gefa neitt upp um raunverulegar ástæður og vísar til þess að um trúnaðarmál sé að ræða.
Hvar eru hinir verkalýðsforingjarnir? Hvar er Alþýðusambandið? Af hverju þegja þessir menn? Er verkalýðshreyfingin virkilega orðin svo tannlaus að auðvaldið getur farið sínu fram án þess að neitt heyrist frá umbjóðendum verkamannanna?
Þarf ekki að leggja spilin á borðið?
fimmtudagur, október 26, 2006
26. október 2006 – Ísal (Alcan)
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:10
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli