miðvikudagur, október 04, 2006

4. október 2006 – Hækkun bílprófsaldurs

Fyrir rúmum áratug síðan fóru fram talsverðar umræður í Svíþjóð um hækkun bílprófsaldurs. Átján ára strákar voru taldir óalandi og óferjandi og stunduðu vítaverðan hraðakstur og ollu flestum umferðarslysum. Því væri nauðsynlegt að hækka bílprófsaldurinn upp í tvítugt þegar þeir hefðu meiri þroska til að takast á við jafnmikið vandamál og það að aka bíl. Sumir gerðust svo djarfir að leggja til að hækkun bílprófsaldurs stráka yrði hækkað í 25 ár, en stelpur fengju áfram bílpróf við 18 ára aldur, enda miklu betri bílstjórar. Þessar hugmyndir voru svo blásnar af með rökstuðningi.

Um daginn var sagt frá skoðanakönnun þar sem þrír af hverjum fjórum vildu hækka bílprófsaldurinn á Íslandi í 18 ár. Af hverju? Hverju breytir þetta eina ár?

Það er staðreynd að því fyrr sem unglingar tileinka sér eitthvað nýtt, því meiri verður færni þeirra þegar frá líður. Því er best fyrir alla aðila að þeir fái ökuskírteinið sem fyrst og sautján ára aldurstakmarkið er ákaflega heppilegt til slíkra hluta. Með því að hækka bílprófsaldurinn í átján ár, er um leið verið að lækka gæði aksturseiginleikanna um eitt ár. Það er hinsvegar hægt að bæta kennsluna, flýta henni um eitt ár og hefja æfingarakstur við fimmtán ára aldur. Það má byrja undirbúning að ökuprófinu strax í grunnskóla og þannig að skapa möguleika unglinganna til að búa sig mun betur undir bílprófið. Svo mættu ökukennarar kenna ungum drengjum að nota stefnuljósin, en þeir virðast hafa gleymt því góða öryggisatriði.

Það er margt annað sem má gera áður en bílprófsaldurinn verður hækkaður, því hann einn færir bara vandamálið af sautján ára aldrinum og yfir á átján ára aldurinn. Það má krefjast þess að bílar ungra ökumanna á reynsluskírteini verði merktir eins og gert er eða var í Englandi. Það má einnig beita sérstökum viðurlögum eins og að fækka punktum áður en kemur að sviptingu ökuleyfis. Einhverjir hafa lagt til að sett verði hámarksvélarafl á bíla ungra ökumanna, en það tel ég mjög varhugavert. Ég veit af eigin reynslu að hægt er að komast býsna greitt á Nissan Micra, en á móti kemur að eðalvagn af þeirri stærð er mun hættulegri ef tjón verður en stærri bílar. Síðast í gær kom ég að Toyota Yaris í klessu á Miklubrautinni eftir að hafa lent í klemmu á milli tveggja stærri bíla sem voru lítt skemmdir.

Síðan má lögreglan einbeita sér að eltast við þá sem stunda ofsaakstur í stað þess að vera svo uppteknir af að sekta þá sem rétt skríða yfir hraðatakmörkin, að þeir missa af þeim sem stunda kappakstur á götunum. Sömuleiðis má alveg beita mun harðari refsingum og leggja áherslu á að allir noti öryggisbeltin, líka farþegar í aftursæti. Það eitt gæti sparað nokkur mannslíf.

-----oOo-----

Ég fór í bíó í gær, en það eitt að ég hafi farið í bíó er vert frásagnar. Myndin sem ég sá var danska kvikmyndin Soap sem sýnd er á kvikmyndahátíð. Hún fjallar um tilfinningabaráttu ungrar transsexual konu sem bíður þess að komast í aðgerð og svo fráskildrar konu á hæðinni fyrir ofan. Ákaflega ljúf mynd sem vakti margar minningar bæði úr eigin reynsluheimi sem og baráttusystra sem þurftu sumar að beita óhefðbundnum aðferðum til að komast af í heimi sem hataði okkur. Ég hvet það fólk sem á þess kost, að sjá þessa mynd, en seinni sýning myndarinnar er miðvikudaginn 4. október klukkan 18.00 í Háskólabíó.

-----oOo-----

Í síðustu viku brá andlitinu á mér fyrir í Kastljósi sjónvarpsins í tvær sekúndur þar sem ég var að störfum ásamt fleira fólki og án þess að mín væri getið. Af einhverjum ástæðum olli það meiri athygli en heilt einkaviðtal í Vikunni fyrir mánuði síðan. Hanga Íslendingar virkilega enn límdir fyrir framan skjáinn eins og 1966?


0 ummæli:







Skrifa ummæli