miðvikudagur, október 25, 2006

25. október 2006 – Enn af hlerunum

Lögreglustjórinn í Reykjavík var í útvarpsviðtali á þriðjudagsmorguninn og harðneitaði þar að nokkuð væri hæft í þeim fréttum sem birtust í hinu Blaðinu á þriðjudagsmorguninn, þess efnis að lögreglan hefði hlerað síma ýmissa aðila.

Mikið rétt, mikið rétt. Ef ég væri sprúttsali og hefði ekki verið staðinn að verki, myndi ég líka þræta eins og sprúttsali. Þetta var nú einu sinni aðferð leynilögreglunnar við að stytta sér stundir á leiðinlegum vöktum þar sem þeir voru settir í að fylgjast með einhverjum smáglæponum sem voru ekki einu sinni hættulegir öryggi Flokksins. Þá var nú skemmtilegra að fylgjast með einhverjum ætluðum óvinum Ríkisins.

Um daginn var fréttamönnum sýnt inn í skrifstofuherbergi það, sem sagt var að hlustunartækin hefðu verið. Það má vel vera. Samt finnst mér þetta dálítið skrýtið, því mínar gömlu upplýsingar bentu á kjallara lögreglustöðvarinnar sem geymslustaðar fyrir njósnatækin. Ég ætla þó ekki að þræta fyrir það. Þetta herbergi segir hvort eð ekkert til um hvort hlerarnir eru stundaðar enn í dag eður ei. Það þarf ekki lengur heilt herbergi undir svona njósnatæki þótt þess hafi þurft á sjötta og sjöunda áratugnum. Tækninni hefur fleygt fram og orðin fullkomnari og meðfærilegri. Þetta kemst orðið allt fyrir í einni lítilli tölvu. Þetta gæti þessvegna verið allt í tölvu dómsmálaráðherrans auk margra annarra tölva og við höfum ekki hugmynd um að fylgst er með okkur.


-----oOo-----

Í tilefni dagsins gerðist ég boðflenna á Pressukvöldi í fylgd Guðrúnar Helgu þar sem fjölmiðlakonur hittust og báru saman bækur sínar. Ákaflega áhugavert, en Herdís Þorgeirsdóttir, Katrín Pálsdóttir og Hjördís Finnbogadóttir fluttu fróðleg erindi og síðan voru umræður á eftir undir skeleggri fundarstjórn Lóu Aldísardóttur. Ekki taldi ég hópinn sem var samankominn, (fullan salinn) en mér þótti athyglisvert að sjá frambjóðendur til prófkjörs mætta eins og til að veiða atkvæði. Allt gott um það að segja. Svo hitti ég frænku mína sem bloggar í fyrsta sinn, en náði ekki að tala við hana eftir fundinn því fleiri fundir kölluðu á athygli hennar


0 ummæli:







Skrifa ummæli