sunnudagur, október 15, 2006

15. október 2006 – Elvis endurborinn?


Ég var á árshátíð á laugardagskvöldið. Orkuveita Reykjavíkur fagnaði enn einu árinu í rekstrinum og skemmti starfsfólkið sér saman við gleði og söng. Það fór ekkert á milli mála hver sló í gegn á þessari árshátíð, því með einu skemmtiatriðinu birtist skyndilega Elvis sjálfur á dansgólfinu, söng einn sinna velþekktu slagara og var auðvitað þakkað með dynjandi lófaklappi. Það hefði mátt ætla að hér væri Elvis endurborinn ef ekki fyrir mjög svo áberandi hökuskarð Guðmundar Þóroddssonar forstjóra Orkuveitunnar sem þarna var komið á Elvis sjálfan. Með þessu tiltæki hefur forstjórinn sýnt svo ekki verður um villst, að hæfileikarnir eru víðar en á stjórnunarsviði.

Það er svo hreinn áróður og ítrasta neikvæðni hjá einum starfsmanninum sem hélt því fram, að sennilega hefði þurft þrjá menn til að slíta latexgallann utan af forstjóranum að sýningunni lokinni, því eins og allir geta séð, þá var hann ekki í latexgalla.

Rétt eins og með aðrar myndir sem ég set inn á síðuna, þarf að klikka á myndina til að fá hana upp í réttri stærð.

-----oOo-----

Bæði liðin mín í enska boltanum unnu leiki sína um helgina. Halifaxhreppur vann naumlega ótemjurnar í Tamworth og er sem stendur fyrir ofan hættumörkin.

Sameining Mannshestahrepps gerði þó betur, enda enn í rusli eftir tapið um daginn og ákveðnir í að sýna hvað í þeim býr í ensku Vestfjarðadeildinni. Þeir möluðu stórliðið Squires Gate með átta mörkum gegn engu og eru langt komnir með að sigra níundu deildina þótt enn sé keppnistímabilið ekki hálfnað. Eins og allir muna unnu þeir tíundu og neðstu deild síðasta vor, eftir fyrsta keppnisár sitt, en liðið var stofnað í maí 2005 eftir yfirtöku einhvers amríkana að nafni Malcolm Glazer á gamla móðurfélaginu, Sameinuðum Mannshestum.

-----oOo-----

Nú má blessuð rjúpan fara að vara sig. Óhræsið er ekki langt undan.


0 ummæli:







Skrifa ummæli