Þá er fyrsti hvalbáturinn farinn til veiða eftir að hafa verið bundinn við bryggju síðan 1989. Ég viðurkenni fúslega að ég er með klofinn huga í þessu máli. Það hefur tekist að byggja upp mjög öfluga hvalastofna á liðnum áratugum og þeir eru löngu hættir að að vera í útrýmingarhættu, þá sérstaklega smáhveli. Um leið verður að taka tillit til þess að búið er að byggja upp mjög öfluga ferðaþjónustu um hvalaskoðun og vafamál hvort ekki sé verið að rústa því sem þegar er búið að byggja upp.
Ekki vil ég trúa því að allir útlendingar séu svo vitlausir að þeir láti alltof hófsamar veiðar stjórna því hvert þeir fara í sumarfrí. Þeir útlendingar sem láta hvalveiðarnar hafa áhrif á ferðavenjur sínar, eiga ekki skilið að koma til Íslands, enda munu þeir bara hafa allt á hornum sér, eins og lítil sæt álver svo notuð séu orð Kolbrúnar Halldórsdóttur og litlar sætar stíflur, byggðar af Kínverjum og Portúgölum lengst frá mannabyggðum.
Það var samt gaman að sjá gamlan skólafélaga í sjónvarpsfréttum á þriðjudagskvöldið þar sem hann var að koma gömlu gufuvélinni í Hval 9 í gang eftir öll þessi ár.
þriðjudagur, október 17, 2006
18. október 2006 – Hvalveiðar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:32
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli