miðvikudagur, febrúar 28, 2007

28. febrúar 2007 - Mér þykir vænt um Framsókn :)

Margrét bloggvinkona mín í Tungunum bar mér það á brýn á þriðjudag að ég hataði Framsóknarmenn. Það er vissulega rétt að ég hefi lagt Framsóknarflokkinn í einelti, en að ég hati Framsóknarmenn, það er af og frá. Mér þykir undurvænt um þá alla saman, Gústa, Alfreð, Óla Hjálmars og fleiri og fleiri. Til þess að sýna þeim hve mikið mér þykir vænt um þá, ætla ég ekki einu sinni að segja alla þrjá á undan upptalningu minni á Gústa, Alfreð og Óla.

Í okkur öllum leynist lítill Framsóknarpúki. Flest okkar þorum ekki að sleppa honum út og verðum því kratar og kommar og íhald. Fáeinir koma út úr skápnum og viðurkenna arfgenga áráttu sína, mæta á kjörstað og merkja ex við Bjé (þó ekki ég eins og gefur að skilja).

Sjálf hefi ég aldrei þorað að sleppa Framsóknarkonunni út af mér. Ég var íhald til fjórtán ára aldurs, kommi í fjörtíu ár þar til ég náði 54 ára aldri, en krati eftir það, nánar tiltekið, flokksbundin jafnaðarmanneskja á vinstri væng Samfylkingar, Evrópusinni og friðarsinni og vonandi einnig feministi.

Þótt mér þyki svona ofboðslega vænt um flokksbundna Framsóknarmenn, mun ég fagna hverjum þeim Framsóknarmanni sem sér villur síns vegar og kemur yfir til okkar í Samfylkinguna. Þó helst ekki Guðna. Hann myndi ekki finna sig í Samfylkingunni, ekki frekar en Kiddi sleggja í Framsóknarflokknum.

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

27. febrúar 2007 - IV - Björn, Ögmundur og Steingrímur

Ónefndur bloggvinur benti mér góðfúslega á að greiningardeild Björns Bjarnasonar væri ekki eins og Stasi. Þetta er auðvitað hárrétt hjá honum og bið ég hann fyrirgefningar á ógætilegu orðalagi mínu, enda hefi ég notað Stasi um allt aðra stofnun á Íslandi og öllu öfgameiri. Nær væri að líkja umræddri greiningardeild við greiningardeild Ceausescus sáluga sem kölluð var Securitate. Enn og aftur bið ég bloggvin minn afsökunar á framferði mínu.

Sú stofnun sem ég hefi stundum líkt við Stasi er matvælalögregla ríkisins, kölluð Lýðheilsustöð. Sú stofnun er einhver sá alversti óskapnaður sem stofnaður hefur verið á Íslandi og ljóst að með stofnun hennar voru gerð slæm mistök sem einungis er hægt að leiðrétta með því að leggja hana niður. Síðast á þriðjudagskvöldið lagði fyrrum flokksfélagi minn Ögmundur Jónasson til í Kastljósi að fylgt yrði ráðum hennar og matarskatturinn hækkaður á sumum vörum matarkyns sem ekki eru Lýðheilsustöð þóknanleg. Með þessari hlýðni við matvælalögguna hefur Ögmundur svarið sig í forræðisætt Steingríms Jóhanns sem vill setja á netlöggu.

Mínir kæru Ögmundur og Steingrímur. Hættið þessari forræðishyggju ykkar í hvert sinn sem þið mælist með fylgi í skoðanakönnunum. Þið komið alltaf upp um ykkur og skoðanir ykkar standa kviknaktar á eftir eins og klámstjörnur.

27. febrúar 2007 - III - Hvað næst? Annþór og félagar?

Ég fæ á tilfinninguna að Ísland sé að breytast í eitt allsherjar lögregluríki!

Sýslumaðurinn er farinn að senda út handtökuskipanir á skuldara, en það er næsta stig á eftir handrukkurum með hafnarboltakylfur, Björn Bjarnason vill stofna Stasi til að njósna um útlendinga og pólitíska andstæðinga og loks vill Steingrímur J. stofna netlöggu. Er ekki að verða nóg komið?

Þegar fréttin af hinum nýju fjárnámsgerðum er skoðuð, fæ ég á tilfinninguna að meira sé um blankheit í þjóðfélaginu en áður var. Þar er talað um nokkur þúsund kröfur um fjárnám sem ekki hefur tekist að ljúka. Það þýðir á mannamáli að þúsundir íbúa Reykjavíkur séu á flótta undan sýslumanni og fógeta þótt heildarfjöldinn sé innan við 120.000 að börnum og skuldlausum gamalmennum meðtöldum. Þá er ótalinn sá fjöldi sem er í vanskilum án þess að hafa lagt á flótta. Getur það virkilega verið að Reykvíkingar séu svona illa stæðir?

Ég bara spyr?

27. febrúar 2007 - II - Segir fátt af einni

Ég sveikst um bloggfærslu í gærkvöldi. Hafði verið á Deil kannekki námskeiði og andlega heilsan var í algjöru lágmarki er ég kom heim. Ekki er það þó vegna námskeiðsins sem slíks né þess ágæta fólks sem situr það, en samt. Það er ekki eins skemmtilegt og ég hafði átt von á. Kannski hafði ég bara gert mér of miklar vonir um námskeiðið í upphafi, nema að leiðbeinandinn sé Framsóknarmaður!

Fyrir bragðið fór ég beint að sofa er heim var komið og sleppti því að skammast yfir svifryksmengun, Framsóknarmönnum og Steingrími J. Til bæta gráu ofan á svart lagðist kisan Tárhildur ofan á lappirnar á mér á meðan ég var í fastasvefni og fyrir bragðið er ég enn með verki í löppunum eftir sinadrátt næturinnar!

Andlega heilsan hlýtur að komast í lag þegar líður á daginn.

mánudagur, febrúar 26, 2007

27. febrúar 2007 - Ekkert blogg í dag

Hér með tilkynnist að ég ákvað að taka mér frí frá bloggi í heilan dag

sunnudagur, febrúar 25, 2007

26. febrúar 2007 - Þrjár góðar fréttir úr pólitíkinni

Ég fagna komu Bjarkar Vilhelmsdóttur í Samfylkinguna. Ég studdi Vinstrigræna um skeið, en gekk með í Samfylkinguna fljótlega eftir að Björk gekk úr Vinstri hreyfingunni grænu framboði og gekk til liðs með Samfylkinguna. Nú er hún einnig gengin inn á formlegan hátt og er það vel. Samfylkingin þarf á kjarnakonum á borð við Björk að halda.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1255506


Um svipað leyti og fréttir bárust af inngöngu Bjarkar í Samfylkinguna gekk Jakob Frímann Magnússon úr Samfylkingunni og farið hefur fé betra. Jakob Frímann hefur í tvígang reynt að koma sér á framfæri með miklum bægslagangi og gífurlegum kostnaði fyrra skiptið en hlaut ekki náð fyrir augum flokksbundinna. Þar sem stutt er um liðið síðan ég gekk með, hefur mér aldrei auðnast að hafna Jakobi Frímanni í prófkjöri, en hefði örugglega gert það, hefði mér verið það unnt. Sagt er að Jakob Frímann ætli sér í framboð með Ómari Ragnarssyni. Ekki veit ég hvað er hæft í þeim orðrómi, en sæti efst á lista í einhverju kjördæmi fyrir jafnmikið snobbhænsni og Jakob Frímann Magnússon hlýtur að draga mjög úr fylgi nýja flokksins.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1255509

Þriðja góða fréttin úr pólitíkinni fjallar um Steingrím Jóhann Sigfússon. Ef marka má stærsta fjölmiðaveldið norðan Miklubrautar, boðar Steingrímur stofnun netlöggu. Þarna geta Steingrímur og Björn Bjarnason örugglega fallist í faðma í ásókn sinni eftir fleiri leynilöggum.

Í sakleysi mínu hélt ég að Björn Bjarnason væri einn fárra um að vilja koma á stofnun á borð við Stasi á Íslandi, en nú hefur Steingrímur bæst við í þann hóp. Vonandi lætur Steingrímur þessa ósk sína heyrast vel og vandlega í kosningabaráttunni svo að tryggt verði að sú fylgisaukning sem skoðanakannanir hafa spáð honum á kostnað Samfylkingarinnar, skili sér aftur til baka.

Þótt tekist hafi að telja hótelstjórann á Hótel Sögu á að loka á klámráðstefnuna, er ekki þar með sagt að ganga eigi lengra en það. Það er að auki vafasamt hvort löglega hafi verið staðið að málum að meina þessari ráðstefnu að þinga hér á landi, enda er ráðstefna sem þessi í anda þeirra sem auglýsa Hot Weekend og One Night Stand. Það var hinsvegar full ástæða til að sýna ráðstefnugestum vanþóknun á slíkri ráðstefnu og því ber að fagna.

http://www.visir.is/article/20070225/FRETTIR01/70225045

25. febrúar 2007 - Hvar var ég öll þessi ár?

Ég skrapp í kaffi upp á Skipaskaga á laugardaginn og tók með bloggvinkonuna Grafarþögn http://sjos.blog.is . Eftir að hafa setið og spjallað við nokkra góða bloggvini og etið kökur með kaffinu svo klukkustundum skipti, var haldið til höfuðborgarinnar að nýju og meira kaffi drukkið í Grafarþögninni http://sjos.blog.is .

Ég kíkti á bækurnar hjá Sigríði og Ómari og komst snarlega að því að þau áttu allnokkrar bækur um ættfræði sem ég á ekki, þar á meðal eina ættarsögu með niðjatali sem var gefin út fyrir einungis tveimur árum síðan. Auk hennar sá ég þarna ábúendatal Sléttuhrepps sem var gefin út fyrir um 35 árum síðan og svo Flugumferðarstjóratal auk nokkurra minni og áhugaverðra rita. Ég sem stóð í þeirri meiningu að ég ætti þetta mestallt.

Nú þarf ég ekki lengur að eyða tímanum í áhyggjur af einhverju ógerðu í ættfræðinni og get snúið mér að því að fylla í eyðurnar um leið og ég velti því fyrir mér, hvar ég var öll þessi ár.

Ef einhver á til niðjatal frá síðasta ættarmóti eða væntanlegu ættarmóti, er bara að láta mig vita, því ég þigg öll slík rit með þökkum, en einnig þau rit sem ég á ekki og þarf að greiða fáeinar krónur fyrir.

http://gurrihar.blog.is
http://alvaran.com
http://gjonsson.blog.is

P.s. Næsta bloggpartí verður haldið í Borgarnesi nærri Guðrúnu Völu!!!!

-----oOo-----

Vegna fréttar í Morgunblaðinu um barn með tólf fingur rifjaði ég upp æsku mína á Moggabloggi og hugsaði til frænda míns undir fyrirsögninni, "Kunna veðurfræðingar ekki að telja?" :

Móðurbróðir minn fæddist með sex fingur á annarri hendi, þ.e. var með tvo þumla á þeirri hendinni. Aukaþumallinn var fjarlægður eftir að frændi minn varð fullorðinn. Hann varð veðurfræðingur, þjóðþekktur sem slíkur og nú á eftirlaunum.

Ég veit ekki til þess að þessi "fötlun" hafi nokkuð háð honum í lífinu, en merkilegur þótt mér þessi aukafingur er ég var barn að aldri.

laugardagur, febrúar 24, 2007

24. febrúar 2007 – Læknuð af stjórnarsetusýki?

Ég sat aðalfund í starfsmannafélaginu í vinnunni í gær. Fundurinn var óskaplega ljúfur, rétt eins og aðalfundur Ættfræðifélagsins kvöldið áður og tók hann fljótt af.

Ég bauð mig ekki fram til stjórnar og vantaði þó eitt andlit í varastjórn. Það hefði einhverntímann þótt saga til næsta bæjar að ég hefði ekki boðið mig fram til öruggrar stjórnarsetu og án atkvæðagreiðslu. Kannski er ég orðin svona brennd af þessu ágæta félagi.

Ég bauð mig einu sinni fram til stjórnarsetu í starfsmannafélaginu seint á síðustu öld og taldi mig eiga stuðninginn vísan. Þegar atkvæðagreiðslunni lauk og atkvæðin talin, var hafist handa um að lesa upp nýja stjórnarmenn í rétti röð eftir atkvæðamagni og aldrei var ég nefnd á nafn. Að lokum voru stjórn og varastjórn fullskipuð, en ég og einn frambjóðandi til viðbótar vorum enn ekki komin á blað og þá var hætt að lesa. Þykist ég vita að ég hafi fengið mitt eigið atkvæði. Síðan hefi ég verið í örgustu fýlu út í starfsmannafélagið.

Ekki var það til að hvetja mig, að ég sat í nokkur ár í öryggisnefnd fyrirtækisins og kosin inn af starfsfólki og þá helst gömlum starfsmönnum Hitaveitunnar. Í fyrra ætlaði ég að rúlla upp öryggisnefndinni með rússneskri kosningu en datt út. Ekki var það til að bæta andlegu heilsuna hjá mér.

Nú sit ég hér heima og þjáist ekki af fráhvarfseinkennum. Ætli ég sé læknuð af stjórnarsetusýkinni?

-----oOo-----

Ég var ekki búin að svara nokkrum athugasemdum sem bárust mér vegna ummæla minna um Guðna Ágústsson. Þar er því fyrst til að svara að ef verðið á landbúnaðarvörum er svo himinhátt að fólk hefur ekki efni á að kaupa það, þá á að flytja inn kjöt. Ég get ekki svarað með samanburði á Svíþjóð og Íslandi lengur, en minnist þess að pulsupakkinn var fjórfalt dýrari á Íslandi en í Svíþjóð árið 1995 eftir inngöngu Svíþjóðar í Evrópusambandið á sama tíma og laun mín þar voru 50% hærri en laun mín við sömu störf voru á Íslandi eftir að ég byrjaði hjá Hitaveitunni 1996.

Ég kaupi sárasjaldan íslenskt lambakjöt. Það er of dýrt. Ég kemst af án þess og hefi aldrei fundið þetta dásamlega bragð sem rollan fær í sig með því að sleikja saltið á þjóðvegunum. Þess vegna vísa ég umræðum um gæði þangað sem þau eru upprunnin. Þá þarf ég ekki ferskar kjúklingabringur. Ef ég kaupi kjúklingabringur í Bónus á afsláttarverði, verða þær geymdar í frystinum þar til þær verða eldaðar. Hvort kjúklingarnir gali á íslensku eða einhverri annarri tungu er mér alveg sama um. Sömu sögu er að segja um beljurnar. Ég kann ekki spönsku og og spyr þær ekki um upprunann þegar ég smelli þeim á pönnuna. Ég vil bara fá kjöt á viðráðanlegu verði hvaðan sem það kemur. Því get ég ekki annað en móðgast þegar Guðni Ágústsson svarar eins og fífl þegar hann er spurður, því með svörum sínum er hann að lítilsvirða mig og móðga. Megi hann finna sér annað starf eftir kosningarnar í vor.

föstudagur, febrúar 23, 2007

23. febrúar 2007 - Var ég virkilega svona leiðinleg?

Ég var á aðalfundi Ættfræðifélagsins á fimmtudagskvöldið. Fundurinn var óskaplega hefðbundinn og voru aðalfundarstörf afgreidd eins og á færibandi, reikningar og skýrsla stjórnar samþykkt, engin hækkun félagsgjalda og einungis ein breyting á stjórninni. Ég hætti eftir að hafa setið í stjórn og varastjórn í fjögur ár, en síðasta árið sem ritari.

Það hefði mátt ætla að ég hefði verið svona afspyrnu leiðinleg. Í fleiri ár sat ég mína stjórnarfundi og nöldraði. Það voru aldrei til nægir peningar og ég vildi alltaf fara aðrar leiðir í fjáröflun en restin af stjórninni. Þegar heimasíðan lagðist af, var ég eins og versta norn og kvartaði og kveinkaði mér yfir áhugaleysi stjórnarmanna. Það var allt ómögulegt! Engin heimasíða, engir peningar, ekkert starf.

Formaður hafði varla lesið skýrslu stjórnar þar sem fram kom að ég væri að hætta í stjórninni, en að hann byrjaði að þylja upp öll nýju framkvæmdaatriðin, heimasíðan komin á ný á veraldarvefinn, fullt til af peningum, en engin AnnaK til að bruðla með þá og skammast yfir ómögulegheitunum.

Eftir fjögur ár í stjórn Ættfræðifélagsins sit ég uppi með þá skömm að hafa sjálf verið helsti dragbíturinn í starfi félagsins og sé ég nú fram á betri daga með blóm í haga, án þátttöku minnar.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

22. febrúar 2007 - Að tala útúr kú ...

....finnst ráðherra einum sniðugt. Sama ráðherra finnst óskaplega sniðugt að láta mynda sig við át á rándýrri pulsu sem kostar fjórfalt meira en sambærilegar pulsur kostuðu í Svíþjóð áður en verðið lækkaði þar í landi eftir inngöngu í Evrópusambandið. Sama ráðherra finnst líka óskaplega sniðugt að láta mynda sig við að kyssa kýr, en svo þegar ætlast er til að hann svari vitrænt vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í verðlagi á landbúnaðarvörum, svarar hann útúr kú!

Maður skyldi ætla að sá sem hegðar sér á þann veg sem Guðni Ágústsson gerir, fengi ekki mikið fylgi, en það virðist ekkert bíta á honum. Þegar hann er spurður um okurverð á pulsum eða kindakjöti, spyr hann á móti um verðlag á fötum og þar sem andmælandinn er ekki með verðlagið á gallabuxum á hreinu, ekki frekar en hann sjálfur, tekst honum að eyða umræðunni um okrið á kjötinu. Enginn virðist þora að spyrja hann út í hörgul og krefjast svars á upphaflegri spurningu. Ekki heldur Jóhanna Vilhjálmsdóttir sem ég hélt þó að væri sæmilega ákveðin.

Sá sem svarar eins og Guðni gerði í Kastljósþætti kvöldsins, er ekki eins heimskur og hann lítur út fyrir að vera. Sá sem hefur að stefnu að viðhalda okrinu getur ekki sagt beinum orðum að hann vilji halda háu verðlagi. Slíkt væri dauðadómur fyrir þingmannsferilinn. Því svarar Guðni eins og væri hann nauthemskur eða kýrskýr og fær fjölda akvæða út á ruglið.

Það er ekki Guðni sem er heimskur, heldur kjósendurnir sem styðja hann og viðhalda þannig okri á landbúnaðarvörum.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301734/0

21. febrúar 2007 - Seinheppnir Bílddælingar

Þegar ég heyrði af brunanum á Bíldudal á þriðjudag fór ég að kenna í brjósti um þá. Ekki var það fyrir að þeir stæðu ekki í stykkinu, heldur sú óheppni að slökkviliðsbíllinn skyldi ekki fara í gang á neyðarstundu.Óheppni Bílddælinga rifjar upp fyrir mér annan bruna sem átti sér stað á Bíldudal árið 1967. Það var kvikmyndasýning í samkomuhúsinu Baldurshaga og í miðju kafi er eldur brann í kvikmyndinni, kom einhver hlaupandi fram og öskraði: Eldur Eldur! Eftir því sem sagan hermir, hreyfði sig enginn fyrst eftir að kallið kom, enda bruna lýst í kvikmyndinni. Svo áttaði sig einhver á því að eldurinn var raunverulegur og sjálfur Baldurshagi var að brenna fullur af fólki.

Engan áttu Bílddælingarnir slökkviliðsbílinn í þá daga, en það var stutt niður að höfninni og við bryggjuna lá Brúarfoss. Skipverjar voru fljótir til og tengdu brunaslöngur skipsins og tókst að ráða niðurlögum eldsins eftir stutta baráttu. Ekki veit ég hvernig kvikmyndin endaði og held ég að íbúarnir hafi enn ekki séð kvikmyndina alla.

Íbúar Bíldudals lögðu mikla vinnu á sig til að koma húsinu aftur í gang, unnu eins og hetjur í marga mánuði, héldu þorrablótið í rækjuverksmiðjunni og loks um vorið 1968 var samkomuhúsið endurvígt með pomp og prakt og sérhver Bílddælingur gat barið sér á brjóst og sagt við sjálfan sig og alla aðra: Ég gerði mitt besta og hér er Baldurshagi glæsilegri en nokkru sinni fyrr!

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

20. febrúar 2007 - Þegar Eyjamenn losnuðu við mig

Árið var 1980. Þáverandi maki hafði tekið þá ákvörðun að flytja frá Vestmannaeyjum hvort sem ég vildi fylgja með eður ei. Ég var því tilneydd að segja upp starfi mínu í Eyjum og flytja líka upp á land. Þegar hér var komið sögu var fjölskyldan farin upp á land, en ég var að ljúka við að pakka búslóðinni og koma henni út í sendibíl þegar síminn hringdi.

“Heyrðu, geturðu ekki leyst af á morgun eina ferð á Herjólfi?” spurði röddin í símanum.
“Nei, það get ég ekki gert” svaraði ég. “Ég er að flytja upp á land á morgun og fer með Herjólfi í fyrramálið til Þorlákshafnar”
“Flott” svaraði þá röddin í símanum, “þú getur þá tekið vaktina til Þorlákshafnar. Gústi er nefnilega að ljúka sumarfríinu sínu uppi á landi og getur þá tekið vaktina til baka!

Daginn eftir stóð ég vaktina um borð í Herjólfi til Þorlákshafnar. Er þangað var komið hitti ég Gústa og hann tók við vaktinni, en ég hélt til Reykjavíkur eins og áætlað hafði verið. Ég sem skipverji fékk að sjálfsögðu frítt fyrir mig og bílinn og búslóðina upp á land, en að auki fékk ég laun fyrir vaktina í hálfan dag.

Síðan þá get ég sagt með sanni að Vestmannaeyingar hafi borgað mér fyrir að flytja frá Eyjum.

(Frásögn áður sögð munnlega, en endursögð hér vegna andleysis bloggara).

mánudagur, febrúar 19, 2007

19. febrúar 2007 - Góðar fréttir eru engar fréttir!

Eitt af því leiðinlegasta sem ég veit, er þegar fólk er að skrifa um sama áhugamálið sitt aftur og aftur og aftur. Einn ágætur kunningi minn eyddi t.d. öllu sínu bloggpúðri í skrif um vatnshæð Þingvallavatns, hvort það hækkaði eða lækkaði um nokkra sentímetra. Ég gafst fljótlega upp á því að lesa félagann, enda hafði hann bara áhuga fyrir niðurrifi einnar stíflu, en engan áhuga fyrir því máli er miklu magni skordýraeiturs var dælt á bakka Þingvallavatns fljótlega eftir 1960 til að hlífa sumarhúsaeigendum við mýinu við vatnið og sem orsakaði hungurdauða stórurriðans í vatninu.

Nú er ég að falla í sömu gryfju. Það er enn verið að hampa ónefndri manneskju fyrir tilraun hennar til að nauðga æskuminningum mínum, nú síðast í Fréttablaði sunnudagsins. Á ég að skrifa enn eina greinina um það hve gott var að alast upp í Reykjahlíð eða á ég að sleppa því?

Það var haldinn sameiginlegur fundur fórnarlamba þessara barnaheimila í Laugarneskirkju á sunnudagseftirmiðdaginn þar sem þau gátu grátið örlög sín. Ég mætti ekki, sendi reyndar sóknarprestunum bréf þar sem ég útskýrði afstöðu mína. Þar sem ég hlaut gott atlæti í minni vist á barnaheimili, þótti ekki taka því að svara mér, ekki frekar en aðrir hafa gert sem vita miklu betur um hina hræðilegu dvöl í Reykjahlíð en ég veit, sem þó er alin upp þarna.

Á sunnudagseftirmiðdaginn sat ég hálfgerðan sellufund með kaffi og pönnukökum, fjórir krakkar á milli fimmtugs og sextugs sem öll áttum okkar góðu reynslu af barnaheimilinu ásamt gestgjafanum á áttræðisaldri sem hafði verið forstöðukona í Reykjahlíð á árunum eftir 1961. Þar ræddum við nýjustu viðburði í Reykjahlíðarmálinu, skoðuðum gamlar myndir og rifjuðum upp gamlar minningar frá dásamlegri æsku í Reykjahlíð. Við þurftum enga áfallahjálp.

Fjölmiðlar hafa engan áhuga fyrir sannleikanum ef lýgin er svæsnari.

-----oOo-----

Svo fær Rakel Bára hamingjuóskir með rétt rúmlega tuttuguogfimmára afmælið :)

sunnudagur, febrúar 18, 2007

18. febrúar 2007 - Eiríkur Hauksson ofl.

Á fyrstu árum Rásar 2 var vinsæll þungarokksþáttur á Rás 2 á laugardagskvöldum milli klukkan 22.00 og 24.00. Þegar Ísland tók þátt í Júróvisjón í fyrsta sinn vorið 1986 þegar keppnin var haldin í Björgvin, lenti ICY hópurinn með þeim Pálma Gunnarssyni, Helgu Möller og Eiríki Haukssyni í 16. sæti þrátt fyrir þá sannfæringu íslensku þjóðarinnar að íslenska lagið myndi gjörsigra keppnina.

Nokkrum mínútum eftir að keppninni lauk úti í Björgvin, hófst umræddur þungarokksþáttur í útvarpinu og fyrsta lagið sem var spilað þetta kvöld var að sjálfsögðu lagið “Don´t Shoot Me Down” með Eiríki Haukssyni.

Með þessu óska ég Eiríki velfarnaðar í keppninni í Helsingfors í vor og þess að ekki þurfi að spila gamla þungarokkslagið aftur eftir keppnina eins og fyrir 21 ári síðan. Við getum þó rifjað upp að við sendum Eirík í útlegð til Noregs nokkru eftir keppnina 1986 og sú útlegð hlýtur að tryggja Íslandi 12 stig frá Noregi í vor. Annars væri lítið gagn að því að senda fólk í útlegð!

-----oOo-----

Þær fréttir hafa borist íslensku þjóðinni til eyrna að Ólafur Ragnar Grímsson forseti fái ekki að gista í höll kóngs í Víkinni (Viken - Oslo) í Noregi þegar hann heldur upp á sjötugsafmæli sitt og verður hann að gista á einhverju farfuglaheimili á landareigninni og vafalaust greiða okurverð fyrir gistinguna. Þetta þarf ekkert að koma íslenskri alþýðu á óvart. Henni hefur löngum verið í kot vísað af nágrannaþjóðum hennar, en rétt eins og íslenskir kaupahéðnar segja nú “Há dú jú dú” og “Gúdd morrning” í stað þess að troða heitri kartöflu ofan í kok þegar þeir sölsa undir sig danska ríkið, mun Ólafur Ragnar vafalaust rifja upp með sér frásögn Nýja testamentisins af trésmiðnum Jósef er hann heldur á fund konungs.

laugardagur, febrúar 17, 2007

17. febrúar 2007 - Hvað kom fyrir Silvíu Nótt?

Að undanförnu hefur aðeins heyrst í Silvíu Nótt þar sem hún hefur verið að skrifa undir nýja milljónasamninga sem munu viðhalda heimsfrægð hennar og aðdáun almennings á fagurri söngrödd hennar. Einnig hefur lítilsháttar orðið vart við hana í Ríkisfjölmiðlunum sem og í nýjum þætti á Skjá 1. Samt er eins og að eitthvað vanti. Hún er ekki sama þróttmikla dívan og fyrir ári síðan er Íslendingar elskuðu að hata hana.

Fyrir ári síðan gat ég notið þess í botn að fyrirlíta Silvíu Nótt, t.d þegar hún heillaði íslenska karlmenn upp úr skónum og fékk þá til að kjósa sig sem kynþokkafyllstu konu ársins, svo ekki talað um er hún sigraði Júróvisjónkeppnina hér heima með eftirminnilegum hætti. Það var svo ekkert að marka úrslitin í Aþenu, enda var öfundin ógisslea mikil og allir að tala illa um hana og rægja.

Nú er Silvía semsagt komin á skeið að nýju. Ég horfði á fyrsta þáttinn hennar á Skjá 1 og skil vel því Silvía Nótt hefur afneitað honum. Þetta voru mest auglýsingar og á milli auglýsinganna voru aðallega endursýnd gömul atriði frá þeim tíma er frægðarsól hennar skein sem hæst og gjörvöll heimsbyggðin hataði hana eins og pestina.

Það sem er þó grátlegast er þó að Silvía er hætt að segja ógisslea í öðru hverju orði og er það miður. Ég fæ á tilfinninguna að commbakkið hennar sé hálfmislukkað. Skilurru?

-----oOo-----

Ég hefi verið að æfa mig á Moggabloggi síðan um jól. Árangurinn er sá að ég mun auka skrif mín þar en minnka hér að sama skapi, enda fæ ég sex sinnum fleiri heimsóknir á Moggabloggið en ég fæ hér. Það gætu því einhverjar færslur gleymst á blogspot úr þessu, enda er Moggabloggið orðið uppáhaldið mitt. Ég mun þó halda áfram að skjóta inn flestum færslum á blogspot fyrir þá aðila sem hata Moggann og eru ákveðnir í að styðja minnimáttar með skrifum á kaninkubloggið :)

föstudagur, febrúar 16, 2007

16. febrúar 2007 - II - Sjálfshól og sífurtal Einars Kr. Guðfinnssonar

Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sér ástæðu til að ræða aðeins samgöngumál í pistli sínum í dag, þar sem hann hrósar kollega sínum og félaga í norðvesturkjördæmi, Sturla Böðvarssyni fyrir dugnaðinn í samgöngumálum Vestfirðinga um leið og hann hnýtir aðeins í stjórnarandstöðuna fyrir sífurtal:

Almennt er hinum nýju samgönguáætlunum sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra mælti fyrir á Alþingi í gær vel tekið. Nema vitaskuld það fyrirsjáanlega og hefðbundna sífur nokkurra stjórnarandstæðinga. Það kippir sér þó enginn upp við það. Látum það ekki skyggja á ánægjuleg tímamót.

Ég spyr á móti: Er ástæða til að taka mikið mark á hinni nýju samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar fremur en endranær? Fyrir hverjar kosningar að undanförnu hefur verið lögð fram samgönguáætlun sem síðan hefur verið svikin um leið og búið er að telja upp úr kjörkössunum að kvöldi kosningadags. Fyrir bragðið er að vísu hægt að nota sama kosningaloforð aftur fyrir næstu kosningar, en það gengur bara ekki endalaust.

Þótt víða séu dæmin um svikin kosningaloforðin, ætla ég einungis að nefna eitt dæmi máli mínu til stuðnings og það úr sjálfri Reykjavík. Það var lagt fram Aðalskipulag fyrir Reykjavík árin 1965-1983 á sínum tíma og auglýst rækilega í blárri bók Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1966, fyrir 42 árum síðan þegar Einar Kr. Guðfinnsson var tíu ára polli vestur í Bolungarvík. Þar voru meðal annars sýnd mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Hvar eru þessi gatnamót í dag. Jú, þau eru hluti af kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2007! Það fer enginn að segja mér að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 1965 hafi verið að semja samgönguáætlun í trássi við vilja ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins með þingmann Reykvíkinga og fyrrum borgarstjóra í forsæti.

Í dag er sá helstur munur á, að vegamálastjóri segir eitt og samgönguráðherra annað og ráðvilltur almenningur veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Annars staðar í pistli sínum vitnar Einar í eigin orð frá fyrri tíð:

“Gamla bolvíska aðferðin að vinna án hávaða en með þrautseigju reyndist vel, eins og svo oft, fyrr og síðar. Þessu fögnum við Bolvíkingar. En það er ekki allt. Maður hefur fundið ótrúlegan stuðning við þetta mál úti í þjóðfélaginu. Ég hef varla hitt mann sem ekki hefur fært þetta í tal við mig upp á síðkastið.”

Það er greinilega vinna án hávaða, að hvar sem ráðherrann fer um, eru atkvæðin kvartandi og kveinandi yfir tómlæti ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum. Í sannleika sagt, eru samgöngumál Vestfirðinga ríkisstjórn og Alþingi til skammar. Eitt skýrasta dæmið er vegurinn á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, vegur sem tekið hefur einhver mannslíf í skriðum og snjófljóðum og einungis Pálína Vagnsdóttir lét alþjóð vita af ástandinu og krafðist úrbóta af krafti sem Vestfirðingum er eiginlegur. Ástandið var þó víða slæmt og engir alþingismenn kipptu sér upp við að bílar væru að fara niður skriður og framaf á heiðum með sorglegum afleiðingum, enda var þetta bara fórnarkostnaður umferðarinnar.

Sjávarútvegurinn á Íslandi, þar með talið á Vestfjörðum, var líka svona. Það þótti bara eðlilegur fórnarkostnaður þjóðarinnar að þjóðin drekkti tugum sona sinna á hverju ári í sjóslysum, stundum yfir fimmtíu á ári. Íslenska þjóðin horfði á eftir hlutfallslega fleiri sjómönnum í djúp hafsins en stórþjóðirnar í blóðugum styrjöldum. Það var ekki fyrr en með lögleiðingu flotbúninga, Rannsóknarnefnd sjóslysa og síðast en ekki síst Slysavarnarskóla sjómanna sem virkilega var tekið á þessu máli og sýnt fram á að þessi fórnarkostnaður var óþarfur. (aths. mín)

Ef göngin á milli Ísafjarðar, Súgandafjarðar og Önundarfjarðar eru frátalin, er sorglegt að sjá hve skammt á veg samgöngur á Vestfjörðum eru komnar. Þar geta Einar Kr. Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson kennt sjálfum sér um og væri nær að þeir reyndu að skafa skítinn úr sífurtali sínu og gera eitthvað í stað þess að monta sig af einhverjum kosningaloforðum sem verða svo svikin að kvöldi kosningadags.

http://ekg.blog.is

16. febrúar 2007 - Íslenskur transgenderhópur

Lítill hópur transgenderfólks og stuðningsfólks þess hittist í húsnæði Samtakanna 78 á fimmtudagskvöldið og skipulagði sig til framtíðarstarfa í baráttu sinni fyrir réttindamálum transgenderfólks á Íslandi. Stofnun þessa hóps markar tímamót, ekki aðeins í baráttu transgenderfólks fyrir réttindum sínum, heldur eykst stefnuskrá Samtakanna 78 til þess að ná yfir mun stærri hóp fólks en áður var.

Í mörg ár áttu Samtökin 78 erfitt uppdráttar, meðal annars vegna andstöðu almennings. Með þrotlausri baráttu samtakanna, tókst smám saman að vinna álit almennings á band þeirra og í framhaldinu tókst að lögleiða réttindi samkynhneigðra. Á sama tíma skeði fátt í baráttumálum transgender fólks. Lengi leið mér eins og ég væri ein í heiminum og þetta fór ekki að breytast fyrr en með nýrri öld.

Í dag er hópur fólks á Íslandi sem hefur lokið aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni, annar hópur sem vinnur í sama ferli auk allstórs hóps fólks sem sem er sáttur við að lifa í einu líkamlegu kyni, en öðru kyngervi. Með því að Samtökin 78 undir stjórn Hrafnhildar Gunnarsdóttur tók málefni transgender einstaklinga upp á arma sína, sjáum við fram á betri tíma og bætt réttindi okkar í íslenskum veruleika sem enn er fjarri óskum okkar.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

15. febrúar 2007 - Ekki þessa hugmynd Mörður!

Í viðtali í síðdegisútvarpi Rásar 2 á þriðjudag minntist Mörður Árnason á þá hugmynd að breyta Perlunni í Náttúruminjasafn og fannst hugmyndin góð. Ég veit ekki hver átti þessa hugmynd í upphafi, hvort það var Mörður sjálfur eða eitthvert annað gáfumenni. Mér finnst hugmyndin slæm. Mjög slæm.

Fyrir nokkrum árum síðan var einn tankurinn í Öskjuhlíð tekinn undir sögusafn. Með því minnkaði heitavatnsöryggi vesturbæjar og miðbæjar Reykjavíkur um fjórðung. Einhver kann nú að mótmæla mér og benda á að tankarnir séu sex, en ekki fjórir sem er alveg satt. Tankarnir eru sex, en tveir tankanna eru bakvatnstankar og því ekki eiginlegir hitaveitutankar. Fjórir tankanna voru notaðir undir 80°C heitt vatn en tveir voru notaðir fyrir bakvatn til uppblöndunar sem og til notkunar fyrir ylströndina í Nauthólsvík. Allt að 130°C heitt vatn kemur frá dælustöðinni í Bolholti að lokahúsi í Öskjuhlíð, blandast þar með bakvatni ásamt með um 90°C heitu vatni frá borholum í Mosfellsbæ og er geymt 80°C heitt í hitaveitutönkunum áður en því er dælt til fólksins í miðbæ og vesturbæ Reykjavíkur.

Með því að einn tankurinn var tekinn undir brúðusafn er einungis rými fyrir 12000 af heitu vatni eftir í tönkunum. Á köldum vetrardögum erum við kannski að dæla 2500 tonnum á klukkutímann út til íbúanna. Ef alvarleg bilun verður, t.d. nokkurra tíma rafmagnsleysi eða þá að báðar flutningsæðarnar frá Grafarholti bila, eru þessi 12000 tonn fljót að klárast. Ef önnur flutningsæðin frá Grafarholti bilar í kulda, verður að gera við hana á mettíma sökum þess að ein flutningsæð er tæplega nógu afkastamikil við þær aðstæður. Vegna þessa var ég lítt hrifin af þeirri pólitísku ákvörðun að taka einn tankinn undir brúðusafnið, hefi ekki stigið fæti mínum þangað inn og mun ekki gera fyrr en safnið verður fjarlægt og komið fyrir á viðeigandi stað.

Ónefndur áhrifamaður vildi nota þessa tanka undir eitthvað gagnlegt, annar vildi opna spilavíti í tönkunum. Einn vildi opna brúðusafn og fékk sitt brúðusafn. Nú kemur Mörður Árnason og vill breyta restinni af Perlunni í Náttúruminjasafn.

En ávallt kemur gamla erfiða spurningin. Hvar á að geyma heita vatnið?

Ég vona svo að Mörður og aðrir Reykjavíkurþingmenn komi sem fyrst í heimsókn í vinnuna til mín svo þeir sjái mikilvægi einstakra þátta í hitaveitukerfinu, fyrstu stóriðju Íslendinga!

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

14. febrúar 2007 - Í mótlæti eru vinir

Við villingarnir frá Reykjahlíð í Mosfellsdal vorum að krunka okkur saman á þriðjudag. Metast um hver gerði besta hafragrautinn með ælubragði og annað í þeim dúr og svo hlógum við og gerðum góðlátlegt grín að Kastljósþætti mánudagsins. Okkur var þó ekki hlátur í hug. Ekkert okkar kannaðist við hið hræðilega atlæti í Reykjahlíð sem lýst var í sjónvarpinu.

Ég man að ég skrifaði eitt sinn minningargrein um eina starfsstúlkuna, en hún lést löngu fyrir aldur fram úr krabbameini. Það var einasti möguleikinn til að votta henni og börnum hennar virðingu mína, enda bjó ég þá í Svíþjóð og komst ekki til landsins. Eitt eða fleiri uppeldissystkinanna flaug norður í land til að vera við jarðarförina um hávetur. Ætli við hefðum hegðað okkur svona ef vistin hefði verið jafnhræðileg og henni hafði verið lýst. Ég held ekki.

Ég lagði fram kvörtun við spyrilinn í Kastljósþætti mánudagsins á þriðjudagsmorguninn. Það var full ástæða til. Ekkert okkar kannaðist við þessa hræðilegu vist. Samt fékk ég að heyra að aðfinnslurnar hefðu verið svipaðar og að fjölmargir heimildarmenn hefðu lýst mikilli vanlíðan á heimilinu. Svo var þarna reglulega einhver maður sem börnin óttuðust. Kannski tökum við okkur saman nokkur krakkanna og sendum sameiginleg mótmæli til Sjónvarpsins fyrir tilraun til að ræna okkur minningu og gleði æskuáranna.

Vissulega óttuðust minni stelpurnar einhvern mann. Einn af eldri krökkunum hafði skrökvað því að þeim að hann ætlaði að ræna þeim og því festu þær sig með beltum við rúmin sín. Vesalings Ari var alsaklaus af þessum hrekk og gerði ekki flugu mein. Hann gat vissulega verið hryssingslegur, en ekki man ég eftir því að hann hefði drukkið áfengi á stað þar sem neysla áfengis var bönnuð. Ég neita þó ekki þeim möguleika að hann hafi einhverntímann verið rakur, enda skeði það stöku sinnum að einstöku starfskraftur hefði fengið sér í aðra löppina í bæjarferð og verið slompaður er komið var til baka. Það er hinsvegar staðreynd, að þótt Ari (1911-1966) væri múrari, var hann smiður góður og megintilgangur fárra heimsókna hans á barnaheimilið var að dytta að ýmsu smálegu og kenna strákunum smíðar og var ekki talið veita af. Á heimilinu var starfsfólkið skipað konum að mestu og talin þörf á karlmannlegum fyrirmyndum. Það var hinsvegar nóg af þeim á bæjunum allt í kring, allt frá bláfátækum vinnumönnum til Nóbelsskálds.

Í umfjöllun um Breiðuvíkurmálið var rætt um greiðslu skaðabóta vegna þeirrar áþjánar sem drengirnir urðu fyrir í Breiðuvík. Ég set stórt spurningamerki við slíkt. Það er sjálfsagt að rannsaka málið ofan í kjölinn og biðja þá drengi afsökunar sem urðu fyrir ofbeldi. Hinsvegar er mjög erfitt að greiða þeim skaðabætur vegna glataðrar menntunar því sú glötun getur allt eins og frekar en hitt, verið afleiðing fátæktar foreldra. Það sakar þó ekki að reyna. Ég er alveg tilbúin að fella eitt eða tvö tár fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar ef ég fæ nokkrar milljónir fyrir það.

En ég get ekki kennt Barnaheimilinu að Reykjahlíð um “slæm” örlög mín. Með slíku væri ég að biðja um þrjátíu silfurpeninga svona skömmu fyrir páska. Má ég þá heldur halda mig við sannleikann eins og ég veit hann bestan og sendi um leið öllum íbúum Mosfellsdalsins á uppeldisárum mínum, þakkir mínar fyrir að sýna mér þá einlægu vináttu sem sérhvert barn á skilið að fá.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

13. febrúar 2007 - Barnaheimilið að Reykjahlíð

Ég átti löng og ítarleg samtöl við fyrrum forstöðukonu barnaheimilisins að Reykjahlíð í Mosfellsdal um helgina. Ástæða þess að ég hafði samband við hana, var að ég vildi heyra hennar hlið af fréttum af drengjunum frá Breiðuvík, vitandi að margir þeirra höfðu áður dvalið í Reykjahlíð, sumir í fyrsta sinn á ævinni á kærleiksheimili.

Fyrir okkur sem ólumst upp í Reykjahlíð komu fréttirnar frá Breiðuvík sem reiðarslag. Þótt við hefðum gert okkur grein fyrir því sem kalla má refsivist barna í Breiðuvík, þá höfðum við einhvernveginn byggt okkur múr um sannleikann og lokað hugann frá þeirri skelfingu sem ríkti vestra, kannski sumpart fyrir þá sök að sá sem helst var nefndur sem helsti kvalari drengjanna hafði aðrar áherslur í uppeldismálum en taldar eru skynsamar í dag.

Í Reykjahlíð réðu konur öllu. Lengi höfðum við ráðsmann konunum til aðstoðar og til að sjá um innkaup og keyrslu til skóla, en hann hélt á braut árið 1962 til konu sinnar og nýlega fædds sonar sem nú er einn virtasti lögfræðingur þjóðarinnar. Hann var heldur ekkert að skipta sér af okkur frekar en þörfin lagði honum á brýn. Okkur var ávallt stjórnað af konum. Lengi vel var barnaheimilinu stjórnað af hjúkrunarkonu. Þegar hún fór á eftirlaun árið 1961 og tók eitt yngsta barnið með sér og ól upp á heimili sínu, tók kennslukona við störfum hennar og lagði alúð sína í að gera barnaheimilið eins barnvænt og kostur var.

Þarna voru börn sem áttu barnaheimilinu allt sitt að þakka. Munaðarlaus börn, börn sem voru afskipt af foreldrum sínum, börn óþekkta hermannsins og börn af brotnum heimilum eða dvöldu tímabundið á heimilinu vegna erfiðleika heimafyrir. Þarna hlutu sum þessara barna einasta kærleika bernsku sinnar og æsku

Þeim krökkum frá Reykjahlíð sem aldrei fóru vestur, er jafnmikið brugðið yfir reynslu drengjanna í Breiðuvík og öðrum þegnum þessa þjóðfélags sem við lifum í. Í sjónvarpsfréttum sjáum við vini okkar frá uppeldinu segja frá skelfilegri reynslu sinni með tár í augum. Sum okkar þekkja ungan kennara sem rak heimilið um tveggja ára skeið á árunum 1962-1964, hins ágætasta manns sem nú þarf að verja heiður sinn. En okkur er fyrirmunað að skilja þann heraga sem ríkti á meðan skipstjóri, nýkominn í land, stjórnaði Breiðuvík með harðri hendi á eftir kennaranum unga.

Forstöðumaður barnaverndarstofu vill rannsaka íslensk barnaheimili á sjöunda áratugnum ofan í kjölinn. Ef að líkum lætur mun hann hafa samband við mig sem eitt þessara barna sem ólust upp fjarri foreldrum sínum. Ég mun segja honum sannleikann, enda fæ ég engar bæturnar. Mín bernska og æska að tólf ára aldri var á barnaheimilinu að Reykjahlíð undir verndarvæng Guðbjargar Árnadóttur hjúkrunarkonu og síðan Sigríðar Maríu Jónsdóttur kennara og skóladvöl í Brúarlandsskóla og Varmárskóla undir stjórn Lárusar Halldórssonar skólastjóra og Birgis Sveinssonar kennara og síðar skólastjóra. Með stuðningi þessa ágæta fólks og margra fleiri átti ég yndislega æsku.

-----oOo-----

Þeim lýsingum sem sagðar voru af barnaheimilinu að Reykjahlíð í Kastljósi sjónvarpsins mánudagskvöldið 12. febrúar 2007, vísa ég til föðurhúsanna. Það má vel vera að viðmælandi Kastljóssins hafi upplifað vistina á þann hátt sem hún lýsir, en það er einungis hennar upplifun og hugsanlega einhverra fleiri. Hinsvegar hefi ég rætt málin við nokkur þeirra barna sem ólust upp í Reykjahlíð á sjötta og sjöunda áratugnum og öll erum sammála um að þar hafi verið gott að vera og aldrei var ég pínd til að borða hafragrautinn eins og viðmælandinn lýsir. Sá grautur hefur þó aldrei verið í uppáhaldi hjá mér.

mánudagur, febrúar 12, 2007

12. febrúar 2007 - Vörubíll fjölskyldunnar

Á undanförnum árum hefur það færst mjög í vöxt að menn hafi fengið sér stóra pallbíla til fjölskyldunota, til þess að draga hjólhýsið eða vélsleðann, eða þá hreinlega til að skreppa á út í Bónus að kaupa þrjá potta af mjólk og eitt fransbrauð. Þeir lenda svo í basli er fara skal í gegnum Hvalfjarðargöngin og þurfa að greiða mun hærra gjald fyrir að aka í gegnum göngin en annað fólk og nú er búið að herða á hraðareglum fyrir þessa bíla en áður.

Nú er farið að refsa mönnum fyrir að aka á þessum stóru bílum með því að sekta þá fyrir að aka á yfir 80 km hraða þar sem hámarkshraðinn er 90 km. Er það ekki dálítið varhugaverð stefna í umferðaröryggismálum? Ég má aka á 90 km hraða af því að bíllinn minn er undir 3,5 tonnum, en náunginn í næstu íbúð á bíl sem er 3,6 tonn og því má hann einungis aka á 80 km hraða og tekur að sér hlutverk lestarstjórans, oft gegn eigin vilja því hann vill gjarnan halda eðlilegum umferðarhraða.

Ég vil svo taka fram að ég vil heldur mæta stórum dráttarbíl á þröngum þjóðvegi en gömlum eftirlaunaþega úr Reykjavík á leið í sumarbústaðinn sinn. Sá á dráttarbílnum þekkir sín takmörk og víkur eins og mögulegt er, ekki gamli eftirlaunaþeginn úr Reykjavík.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

11. febrúar 2007 – II - Tvískinnungur í blaðamennsku

Ég var að lesa netútgáfu danska dagblaðsins BT núna áðan og þar eru tvær fréttir sem vöktu athygli mína, annarsvegar það að Danir ætla að senda dragdrottningu til Finnlands í vor til að taka þátt í Júróvisjón, hinsvegar frétt um hópnauðgun. Ég hefi ekki heyrt danska sigurlagið, en vona bara að söngvarinn, Drama Queen alias Peter Andersen sé vel að sigrinum kominn.

Öllu verri finnst mér fréttin af ungri transsexual konu sem hefur lokið aðgerð og varð fyrir alvarlegri líkamsárás og hópnauðgun í morgun. Blaðamönnum blaðsins finnst greinilega nauðgunin ekki næg, heldur velta sér upp úr því að stúlkan sé karl sem hafi farið í gegnum kynskipti. Fyrir bragðið verður fréttin eins hnífur sem snúið er í sárinu. Mitt folk í Danmörku hefur þegar sent inn mótmæli til BT vegna framsetningar fréttarinnar og vottar ungu konunni virðingu sína.

Ég vona innilega að ég þurfi ekki að sjá svona framsetningu frétta í íslenskum fjölmiðlum í framtíðinni.

http://www.bt.dk/article/20070211/KRIMI/702110312/1053

www.bt.dk/article/20070210/UNDERHOLDNING/70210013&SearchID=73271850165854

11. febrúar 2007 - KSÍ eða ...?

Einhver Óskar var að setja út á einfalda spurningu mína um formannskjör KSÍ á blogginu mínu á laugardagseftirmiðdaginn þar sem ég spurði hvort Geir Þorsteinsson hefði verið kosinn formaður KSÍ af því að hann er karlmaður og Óskar segir á móti í athugasemdum:
“Auðvitað hvarflar það ekki að ykkur að hann hefði verið hæfasti frambjóðandinn.” Síðar kom ungur laganemi og Lifrarpollsaðdáandi og bætti um betur.

Ég vil taka fram að ég fylgist ákaflega lítið með knattspyrnu og knattleikjum yfirleitt. Því er mér nokk sama hver verður formaður KSÍ. Auk þess efast ég ekki um að Geir Þorsteinssson hafi staðið sig mjög vel sem framkvæmdastjóri KSÍ. Formannskjörið í KSÍ fjallaði bara ekki um fjárhag eða rekstur sambandsins, heldur um stefnu. Geir hefur lýst því yfir að hann ætli að halda áfram þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum. Langflestir þeir aðilar sem áttu kosningarétt á aðalfundinum voru honum sammála og lýðræðislega kosningu ber að virða.

Það eru komin meira en 40 ár síðan jafnrétti til launa var lögfest á Íslandi. Í dag hafa konur mun lægri laun en karlar þrátt fyrir þetta ákvæði. Þar sem greidd eru lágmarkslaun eftir taxta er launamunur yfirleitt mjög lítill og stundum enginn, en eftir því sem farið er ofar í samfélagstiganum eykst launamunurinn og er svo gífurlegur í efstu þrepunum sem ekki eru háð samningum eða kjaradómi.

Það eru komin um 90 ár síðan konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Enn eru konur einungis þriðjungur alþingismanna. Engin kona er meðal æðstu yfirmanna í bönkum, en nokkrar millistjórnendur og útibússtjórar.

Á íþróttavellinum fá karlmenn oft greitt fyrir að stunda áhugamálið. Konur verða að ganga í hús og selja klósettpappír til að fá að vera með í liðinu. Þær verða með öðrum orðum að greiða með sér.

Óbreytt stefna KSÍ þýðir áframhald þessa misréttis á knattspyrnuvellinum. Þetta er smám saman að renna upp fyrir fólki og þrýstingur mun aukast á ráðamenn knattspyrnumála að jafna þennan fjárhagslega mun. Þá þarf að hafa einhvern við stjórnvölinn sem vill breyta um stefnu í þessum málum. Þess vegna vonaðist ég til að Halla fengi öflugri stuðning en raunin varð.

Ég vona að Halla Gunnarsdóttir muni halda áfram að berjast fyrir auknum rétti kvenna í íþróttahreyfingunni. Ekki mun veita af. Ég mun svo halda áfram að styðja lið sem meta íþróttina umfram peningana eins og Halifaxhrepp og United of Manchester.

laugardagur, febrúar 10, 2007

10. febrúar 2007 - II - Að hverju hlær fólkið?

Ég var að fletta laugardagsútgáfu Fréttablaðsins og varð starsýnt á forsíðu blaðsins. Þar er forseti Íslands sýndur þar sem hann bendir á yfirbyggingu líkans af farþegaskipinu Gullfossi og hjá standa tvær konur sem skellihlæja. Ég fór að velta fyrir mér hvað væri svona hlægilegt við þetta merkilega skip sem þjónaði Íslendingum í 23 ár, flutti fólk til og frá landinu, en kom reglulega heim aftur með Andrés önd, Hjemmet og Familie journal. Var þetta fólk kannski að hlæja að siglingasögu íslensku þjóðarinnar?

http://vefblod.visir.is/public/getFile.php?type=image&file=1_1_15.jpg

http://vefblod.visir.is/public/index.php?netpaper=218


Á sama tíma berast okkur fréttir af illum aðbúnaði áhafnar skips sem kom til landsins færandi varninginn heim (súrál er líka varningur), skip skráð í Panama í eigu grískrar útgerðar, með áhöfn frá Georgíu og Úkraínu. Í fréttum kemur fram að áhöfnin hafi ekki fengið greidd laun í marga mánuði og allt fæði um borð af skornum skammti, en þess meira af kakkalökkum.

Suður á Hvalsnesi nærri Sandgerði stendur annað skip uppi á grynningum, skip sem var skráð á Kýpur með áhöfn frá Austur-Evrópu. Það ágæta skip flutti varninginn heim um margra ára skeið með íslenskri áhöfn og undir íslenskum fána. Fátækleg laun íslenskrar áhafnar skipsins urðu til þess að skráning skipsins var færð til Kýpur, eigendaskráningin til Noregs, íslenskri áhöfn sagt upp og útlendingar ráðnir í staðinn á sultarkjörum. Nú stendur það á grynningum eftir hugsanlegt kæruleysi áhafnarinnar og bíður þess að vera rifið á staðnum.

Er fólk nokkuð búið að gleyma Vikartindi?

Í dag er ekkert skip skráð á Íslandi í millilandaflutningum með fólk og vörur. Íslenskri farmannastétt er að blæða út og íslensk stjórnvöld aðhafast ekkert til að bæta úr þessum málum. Til þess að hæðast enn frekar að niðurlægingu íslenskrar farmannastéttar, tók íslenski samgönguráðherrann þátt í að taka á móti skipi fyrir hönd Færeyinga fyrir tveimur árum, skipi sem siglir reglulega til Íslands færandi varninginn heim.

Mér varð ekki hlátur í hug við þessa mynd á forsíðu Fréttablaðsins. Þvert á móti.

10. febrúar 2007 - Er ekkert meira sem þarf að endurskoða?

Bandaríkjamenn hafa miklar áhyggjur af því að sex þyrlur á þeirra vegum hafa verið skotnar niður á skömmum tíma. Ég hefi líka áhyggjur af þessu vandamáli. Kannski ekki því að þeir hafi tapað sex rándýrum þyrlum. Bandaríkjamenn hafa nefnilega tapað miklu meiru en sex þyrlum í Írak.

Þegar þessu orð eru rituð, hafa Bandaríkin misst 2979 hermenn í stríðinu í Írak frá því George Dobbljú Bush lýsti því yfir að stríðinu væri lokið með sigri Bandaríkjamanna hinn 1. maí 2003. Samtals hafa Bandaríkjamenn misst 3118 hermenn í Írak. Þessir 2979 hermenn sem féllu eftir sigurinn, eru tveimur fleiri en talið er að hafi farist í árásunum á tvíburaturnana í New York þann 11. september 2001.

Það er full ástæða til að gráta þá tugi eða hundruð þúsunda Íraka sem hafa fallið á síðustu fjórum árum. En það er líka full ástæða til að gráta sérhvern þessara 3118 hermanna því þeir féllu í tilgangsleysi, þeir féllu án raunverulegrar ástæðu til innrásar, þeir féllu af því að æðsti yfirmaður þeirra hélt sig vera yfirlögreglustjóra jarðarinnar en reyndist ekki hafa umboð jarðarbúa til starfa sinna.

Í dag eru Bandaríkjamenn í vondum málum, því það er sama hvað þeir gera úr þessu, það verða mistök. Ef þeir halda áfram þátttöku í borgarastyrjöldinni sem stendur yfir um þessar mundir, munu þeir missa fjölda sinna manna í viðbót. Ef þeir hinsvegar ákveða að draga herlið sitt heim, mun borgarastyrjöldin magnast og verða að algjörri ringulreið og hugsanlega enda með skiptingu Írak í þrjú eða fleiri smáríki.

Það er illa komið fyrir einu elsta þjóðríki heimsins.

http://antiwar.com/casualties/

föstudagur, febrúar 09, 2007

9. febrúar 2007 - Fyrsta gönguferð ársins og fyrsta ferðin út á land.

Ég fór í gönguferð á fimmtudagseftirmiðdaginn. Ekki veitti af, því ég hafði bætt ótæpilega á mig eftir síðustu fjallgöngu haustsins 2006 á Vífilsfellið og lappirnar á mér þráðu ekkert frekar en að komast í safaríka gönguferð. Ég ók því suður í Hafnarfjörð til fundar og kaffisopa hjá helsta göngufélaga og bloggfélaga síðasta árs og saman fórum við í stuttan göngutúr um helstu hraun Hafnarfjarðar.

Þar sem við gengum umhverfis Ástjörnina mændi ég ámáttlega á Ásfjallið sem gnæfði yfir okkur 127 metra hátt og grátbað okkur að ganga á sig, en það kom ekki til greina af minni hálfu. Ég hafði nefnilega lofað annarri bloggvinkonu að keyra hana á Skipaskaga eftir vinnu og það hefur löngum þótt aðalsmerki mitt að efna loforð mín við menn og málleysingja. Því varð ég að sleppa klifrinu á Ásfjallið, en flýta mér til Reykjavíkur eftir gönguferðina og sækja næstu bloggvinkonu í vinnuna.

Það var haldið af stað og allt gekk vel í byrjun. Þegar við nálguðumst þéttbýli Mosfellsbæjar sá ég, mér til hrellingar, sementsflutningabíl frá Sementsverksmiðjunni á undan okkur og lagði því allt á mig að komast framúr ferlíkinu svo ekki þyrfti að hafa þetta á undan okkur alla leiðina til Akraness. Það gekk fljótt og vel að komast framúr í einu hringtorginu og síðan var haldið áfram sem leið lá í gegnum Mosfellsbæinn og til Kjalarness og nálguðumst við nú Hvalfjarðargöngin og brátt lentum við á eftir bifreið sem ók á löglegum hraða í aðdraganda Hvalfjarðarganga. Það tekur því ekki að þenja sig framúr hugsaði ég og dólaði á eftir bílnum á undan niður göngin. Hann ók hægt, á milli 50 og 60 km hraða, en þar sem mér lá ekkert á, var ég ekkert að pína mig framúr honum í göngum þar sem hámarkshraðinn er 70 km/klst. Mér hætti þó að standa á sama þegar stór og mikill sementsflutningabíll var kominn ískyggilega nálægt afturstuðaranum hjá mér.

Um þetta leyti komumst við framhjá síðustu myndavél og síðan að upphækkuninni að norðanverðunni. Ég fór að verða óþolinmóð dragandi heilan sementsflutningabíl á eftir mér, gaf hressilega í um leið og komið var á tvöfalda kaflann á uppleiðinni og geystist framúr varkára gamalmenninu með ímyndaða hattinn og á eftir mér fylgdi sementsflutningabíll og heill floti minni bifreiða.

“Löggan er byrjuð að mæla hraðann á fólki sem kemur uppúr göngunum” stundi þá bloggvinkona mín stíf af hræðslu yfir þjösnaskap mínum og ég hægði svo snögglega á mér að minnstu munaði að sementsflutningabíllinn lenti aftaná okkur. Um leið komum við útúr göngunum og viti menn. Þar beið löggan í tilgangsleysi sínu, enda vorum við á löglegum hraða þar sem við ókum framhjá gjaldskýlinu og héldum svo áfram í átt að ákvörðunarstað okkar.

Það mun líða langur tími uns umrædd bloggvinkona mun þora að sitja í bíl með mér aftur, enda fyrrum starfsmaður Umferðarstofu.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

8. febrúar 2007 - Breiðuvíkurmálið niðurlag

Rúmlega hundrað drengir voru geymdir í Breiðuvík á sjötta, sjöunda og fram á áttunda áratug síðustu aldar undir formerkjunum “Með illu skal illt út reka” og “Á misjöfnu þrífast börnin best”. Við vitum nú hvernig það mál fór og flest lentu börnin á Litla-Hrauni svo vart geta áðurgreind uppeldiskraftaverk verið rétta uppeldisaðferðin. En það er til önnur hlið málsins og öllu betri og aðstandendum til mikils hróss.

Margir þessara drengja komu til Breiðuvíkur frá barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellsdal, heilsárs dvalarheimili fyrir börn af báðum kynjum, fyrst og fremst ætlað fyrir börn á aldrinum 7 til 16 ára. Þrátt fyrir þessi takmörk voru börn á heimilinu, bæði undir sjö ára aldri og yfir sextán ára aldri. Þetta heimili var upphaflega rekið austur á Kumbaravogi hjá Stokkseyri, síðar að Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal en í Reykjahlíð frá því um 1957 til um 1970 er það flutti til Reykjavíkur og síðar lagt niður með nýjum stefnum í barnaverndarmálum.

Það er vert að geta þess að í Reykjahlíð var allur aðbúnaður gjörólíkur því sem lýst er í frásögnum frá Breiðuvík. Þarna voru allt að tuttugu börnum í einu, sum sem höfðu dvalist þar mestallt sitt líf, munaðarlaus börn, börn einstæðra mæðra, börn af óregluheimilum og börn þar sem foreldrar gátu ekki séð um börnin tímabundið af einhverjum ástæðum. Dæmi voru um börn sem hvergi áttu heima annarsstaðar, voru tekin af brotnum heimilum allt niður í tveggja ára aldur, ólust upp í Reykjahlíð og fóru ekki eða vildu ekki fara þaðan fyrr en á fullorðinsaldri.

Í Reykjahlíð var góður agi og þrátt fyrir að heimilið væri rekið sem stofnun, var heimilisbragurinn líkur því sem gerist á venjulegum heimilum, þó að því undanskildu að engir voru foreldrarnir. Börnin höfðu nóg í sig og á og vel hugsað um þau. Mosfellsdalurinn var leiksvæði þeirra og skóli að Brúarlandi og ég held að börnum hafi almennt liðið vel þarna. Helstu ágallarnir voru helstir þeir að ekki var boðið upp á sálfræðiþjónustu fyrir ofvirk börn með sérþarfir, börn á borð við Lárus Björn Svavarsson (Lalla Johns). Þá áttu eigendur hemilisins, Reykjavíkurborg og barnaverndarnefnd í stöðugum útistöðum við yfirvöld í Mosfellshreppi vegna skólakostnaðar fyrir þessi börn. Flest eða öll voru börnin skráð með lögheimili í Reykjavík og voru því hreinn aukakostnaður fyrir fátækan sveitaskóla sem Brúarlandsskóli og síðar Varmárskóli voru á þessum tíma, auk þess sem engir möguleikar voru á sálfræðiþjónustu í skólanum. Því vildu skólayfirvöld í Mosfellshreppi gera allt hvað þau gátu til að losna við þessa krakka. Án þess að ég viti það, grunar mig að ein leið til að losna við erfiðari börnin, hafi verið fólgin í að senda þau sem gerðu eitthvað af sér, hversu smávægilegt sem það var, í framhaldsvist að Breiðuvík.

Í ljósi þessa verður að skoða orð Bárðar Ragnars Jónssonar um færslu sína frá Reykjahlíð til Breiðuvíkur. Hann er rifinn frá kærleiksríku heimili til unglingaheimilis þar sem allt var á niðurleið. (Mér er þó kunnugt um að hann varð fyrir einelti í Brúarlands/Varmárskóla). Þá hefur tilraun Hallgríms Sveinssonar til að setja strákana í vinnu við búskapinn í stað launaðs starfsfólks, hleypt illu blóði í marga krakkana og þá sérstaklega þá sem komu vestur eftir að hið nýja fyrirkomulag komst á og hafa þeir litið á vinnuna sem enn frekari sönnun refsivistar þótt þetta hafi vafalaust verið gert í góðri trú. Þess má og geta að Hallgrímur var sjálfur alinn upp í örbirgð, en tókst að komast af eigin rammleik í gegnum kennaramenntun, kenndi síðan í heimavistarskólanum að Jaðri í eitt ár áður en hann fór vestur og tók við vistheimilinu í Breiðuvík. Þar var hann í tvö ár, frá 22 ára aldri til 24 ára aldurs, en hélt eftir það í Auðkúluhrepp og síðar á Þingeyri þar sem hann er enn og vafalaust í góðum metum.

Með þessum orðum lýkur skrifum mínum um Breiðuvíkurdrengina að sinni og þykir mörgum kominn tími til að ég snúi mér að skemmtilegri málefnum.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

7. febrúar 2007 – Af hverju var ekkert gert 1980?

Þegar bók Sævars Ciesielski og Stefáns Unnsteinssonar, Stattu þig drengur, er lesin, koma í ljós ótrúlegustu lýsingar á upptökuheimilinu að Breiðuvík í Rauðasandshreppi. Þar er m.a. sagt beinum orðum:

Forstöðumaðurinn réð öllu og var í sannleika sagt snarbrjálaður í skapinu. Hann lét okkur skilja að hann væri þarna til að gera okkur að mönnum. Lærdómurinn fólst aðallega í barsmíðum. Verst þótti okkur að það var engin regla á þessu hjá honum, hann barði menn ef þeir gerðu eitthvað af sér, en svo barði hann líka ef þannig lá á honum, uppúr þurru ef einhver var fyrir honum eða hann þyrfti að skeyta skapi sínu á einhverjum. Ég held honum hafi ekki alltaf verið sjálfrátt. Ofbeldi lá stöðugt í loftinu. Reglur voru mjög strangar og það varð að hlýða þeim skilyrðislaust. Refsingar voru tvennskonar fyrir utan barsmíðar: innilokun í herbergi og svelti uppí þrjá daga, og innilokun í húsinu.

Það eru svo ýmsar lýsingar á aðstæðum í Breiðuvík, m.a. þessar:

Skammt frá bænum eru hlýir vatnsálar, Vaðlarnir, og þar var hægt að synda og veiða. En það þurfti alltaf að biðja um leyfi. Eitt sinn fór einn í leyfisleysi og kallinn kom að honum, tók um fæturna á honum og stakk honum ofan í vatnið, kippti honum síðan uppúr og barði hann.

Þegar ég var búinn að vera þarna í nokkra mánuði fékk ég kláðamaur eða eitthvað í þeim dúr, sár útum allan líkamann og litlar bólur með glærum vökva í. Lengi vel var ekkert gert í þessu. Ein beljan sem ég tutlaði fékk þetta líka, og sonur kallsins skaut hana á færi með haglabyssu. En það var bara látið drabbast með mig.

Sonur forstöðumannsins kenndi okkur og hann sjálfur smávegis. Sonurinn var oft með helvítis kjaft, þó var hann miklu skárri en pabbi hans, enda barði kallinn hann ekkert síður en okkur, sérstaklega ef hann var sjálfur rakur; þá barði hann yfirleitt bara son sinn.

Aftar í bókinni er svo vistin í Breiðuvík metin í nokkrum orðum, en þar segir m.a.:

Hitt gerði þó gæfumuninn að stundum valdist þarna til starfa fólk sem hefði aldrei átt að koma nálægt stofnun af þessu tagi. Þegar Sævar dvelur þar er til dæmis varla um neina “betrun” að ræða. Enda hefur yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem voru í Breiðuvík á þessum tíma komið við á Litla-Hrauni síðustu árin og sumir margsinnis.

Ég verð að viðurkenna að það er stutt síðan ég eignaðist þessa bók og las hana. Ég ímyndaði mér kannski að hér væri um að ræða frásögn biturs ungs manns sem var dæmdur til útskúfunar úr samfélaginu og hefur aldrei náð að rétta úr kútnum aftur, manns sem enn er fordæmdur, heimilislaus og allslaus. En samt. Þessi bók kom út hjá Iðunni árið 1980, fyrir meira en aldarfjórðungi síðan og henni var sannarlega ekki stungið undir stól í neinu ráðuneyti. Samt gerði enginn neitt. Ekki getum við heldur kennt hægrisinnuðum stjórnmálamönnum um þetta kæruleysi því Svavar vinur minn Gestsson var félagsmálaráðherra í frægri ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen þegar bókin kom út.

Stór hluti íslensku þjóðarinnar vissi um Breiðuvík árið 1980 og getur því einungis kennt sjálfri sér um að hafa ekki aðhafst á þeim tíma. Það væri þó fróðlegt að vita hver urðu viðbrögð við bókinni er hún kom út, en meðal þeirra sem komu að útgáfu bókarinnar var Jóhann Páll Valdimarsson núverandi forstjóri JPV útgáfu.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

6. febrúar 2007 - Af drengjum á upptökuheimili

Rétt eins og aðrir Íslendingar setur mig hljóða við frásagnir drengjanna sem dvöldu í Breiðuvík í Rauðasandshreppi á sjöunda áratug síðustu aldar. Ekki er það síst fyrir þá sök að ég þekkti marga þessa krakka á uppvaxtarárum mínum og missti yfirleitt sjónar á þeim er þeir voru sendir í sína illræmdu vinnuþrælkun vestur í Breiðuvík, drengir eins og Bárður, Víglundur og Lárus (Lalli Johns).

Ég fór að leita í gömlum Moggum að einhverju um þetta heimili fyrir vestan og rakst þá eftirfarandi pistil úr Rauðasandshreppi:

Vistheimilið Breiðuvík. Þaðan er allt gott að frétta. Erfiðleikar voru á að fá nægjanlegt starfsfólk. Forstjóranum, Hallgrími Sveinssyni, datt þá í hug að gera þá tilraun yfir veturinn,að láta drengina vinna öll störf við húshald, nema þjónustubrögð. Hann lét því það starfsfólk fara, sem fyrir var, nema bústjórann Njörð Jónsson, ungan einhleypan Reykvíking. Hefur þetta gengið mjög vel, drengirnir ánægðir og mæta vel því trausti sem þeim er sýnt. (Morgunblaðið 7. janúar 1964, bls 17).

Þegar þetta er lesið, er ljóst að nágrannar heimilisins hafa verið gjörsamlega grunlausir um þá meðferð sem yngri krakkarnir urðu fyrir. Þá er ljóst að margir þessir drengir áttu við mjög erfitt skapferli og geðsveiflur að eiga og áttu síst af öllu að lenda í þrælkunarbúðum eins í Breiðuvík, fremur á stofnun á borð við BUGL ef ekki hjá foreldrum sínum (mæðrum).

Sá stjórnandinn sem helst er nefndur af drengjunum, er Þórhallur Hálfdánarson (1916-2001) skipstjóri og síðar framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar sjóslysa. Það er erfitt fyrir mig að leggja mat á skepnuskap þann sem honum er borið á brýn þegar haft er í huga að móðurfólk hans og föðurfólk mitt voru nátengd fjölskylduböndum. Þá hlaut hann mikið lof fyrir brautryðjendastarf sitt í slysavarnarmálum sjómanna og fyrir bragðið enn erfiðara að dæma hann fyrir syndir sínar löngu eftir dauða sinn.

Engu að síður verður að gera þá kröfu til allra sem áttu hlut að máli og enn eru lifandi, að fá eins mikið og hægt er upp á yfirborðið og þannig reyna að bæta fyrir þau afbrot sem þessir drengir urðu fyrir af hálfu samfélagsins á sínum tíma, en umfram allt, koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

mánudagur, febrúar 05, 2007

5. febrúar 2007 - Hvers vegna hætti vetnisverkefnið?


Undanfarin ár hafa ákaflega sérstæðir strætisvagnar sést á götum Reykjavíkur,þá helst fyrir þá sök að gufu hefur lagt frá útblásturskerfi þeirra. Eins og flestir vita, er hér um að ræða vagna sem knúnir eru með vetni. Nú hafa borist fréttir þess efnis að tilraunaverkefninu sé lokið og að þessir strætisvagnar verði sendir á safn.

Ég hefi ekki heyrt neitt frá þessum sjálfsskipuðu umhverfisverndarsinnum vegna þessa máls, af hverju strætisvagnar þessir eru að hætta að ganga og af hverju tilraunum þessum er nú hætt. Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að eitthvað hafi farið úrskeiðis í þessum tilraunum, en hvergi er neitt sagt frá þeim.

Þegar haft er í huga að mengunin frá þessum vögnum er lítil sem engin, hlýtur að vera yfirvöldum kappsmál að halda þeim í rekstri sem lengst og öllu lengur en nemur tilraunatímanum. Það væri fróðlegt að heyra svör frá þessum sömu yfirvöldum.

Spyr ein sem ekki veit.

-----oOo-----

Meðfylgjandi er mynd af sýnishorni jarðkapals sem er gerður fyrir allt að 145 kV spennu og 500 kvaðröt. Heildarþvermál þessa kapals er um eða rúmlega 10 cm. Sjálfur leiðarinn eða kjarninn í kaplinum er úr hreinu áli. Utanum álkjarnann er þykk plasteinangrun, síðan hlífar og skerming og yst er svo vatnskápan. Myndin er sýnd hér til að fólk átti sig á því að ál er góður leiðari og víða notaður t.d. í jarðkapla og loftlínur, enda eru kopar og aðrir góðmálmar sem hafa minna eðlisviðnðám alltof dýrir og þungir til slíkra verkefna.

Sjá fulla stærð myndar: http://images20.fotki.com/v384/photos/8/801079/3367418/IMG_1465-vi.jpg?1170631452

laugardagur, febrúar 03, 2007

4. febrúar 2007 - Enn eitt Júróvisjónkvöldið

Ég var farin að örvænta þegar kom að næstsíðasta Júróvisjónlagi ársins og einasta sæmilega lagið sem ég hafði heyrt fram að því dottið úr keppni. Það lag var með einhverjum gömlu félaga hans Bubba með eftirnafnið Scobie og féll úr miðkeppninni. Sum lögin sem ég hafði heyrt voru svo afleit að þau voru hræðileg áheyrnar.

Svo kom næstsíðasta lagið með Ragnheiði Eiríksdóttur (Heiðu í Unun) og eftir Dr. Gunna. Loksins Loksins.
Það var fyrsta lagið sem ég heyrði þetta árið sem mér finnst ágætt og veðja á að muni komast langt. Ég er sannfærð um að með ákveðinni slípun lagsins, muni það ná langt í Helsingfors og vonandi komast alla leið í lokakeppnina, en að sjálfsögðu verður það fyrst að sigra úrslitakeppnina hér heima.

föstudagur, febrúar 02, 2007

3. febrúar 2007 - Álver á Íslandi - Umhverfisvernd á heimsvísu.

Mig langar til að fjalla aðeins um hinn hataða málm ál sem virðist bannfærður í stjórnmálaumræðunni á Íslandi.

Þessi málmur er til margra hluta nytsamlegur, hann leiðir vel, hann er léttur eða aðeins þriðjungur af eðlisþyngd stáls. Hann er sterkur og þolinn og er notaður allt í kringum okkur. Sagt er að í Boeing 747 risaþotu séu um 75 tonn af áli. Ef stál væri notað þar í stað áls, kæmist flugvélin trúlega aldrei á loft og jafnvel þótt finna mætti flugvöll sem væri nógu langur til að hún kæmist í loftið, þyrfti hún að lenda aftur á næsta flugvelli til að taka eldsneyti. Með öðrum orðum. Notkun áls í farartæki hefur gert það að verkum að þau brenna miklu minna eldsneyti en annars væri. Smábíll þeirrar gerðar sem Ómar Ragnarsson dreymir um, yrði á annað tonn að þyngd ef ekki væri vegna álsins í honum. Sömu sögu má segja um flugvélina hans. Hún myndi eyða óhemju eldsneyti í flugtaki ef ekki væri vegna álsins í Frúnni.

Þægindin við meðhöndlun efnisins hefur gert að verkum að útbreiðslan eykst stöðugt. Jafnvel þótt komnir séu nýir og léttari málmar á markaðinn eins og magnesíum eru þeir enn ekki samkeppnishæfir við ál í verði. Því mun ál verða ráðandi á markaðnum í mörg ár í viðbót auk þess sem einnig þarf dýrar og orkufrekar framleiðsluaðferðir við magnesíumvinnslu.

Það er álinu að miklu leyti að þakka að enn er ekki orðin olíuþurrð í heiminum.

Á Íslandi hefur tekist að skapa mjög neikvætt andrúmsloft gagnvart áliðnaði og menn sem kalla sig umhverfisverndarsinna ganga á torg og mótmæla þessum ágæta léttmálmi á sama tíma og heimurinn krefst meira áls. Það er ljóst að ef álið verður ekki framleitt á Íslandi, verður það framleitt annars staðar, hugsanlega með rafmagni sem framleitt er með olíu eða kolum með verulega auknum gróðurhúsaáhrifum.

Ég held að það sé kominn tími til að snúa umræðunni við og fagna framleiðslu léttmálma á Íslandi. Það er svo önnur saga að mikið af notuðu áli endar á haugunum í stað þess að fara í endurvinnslu og mætti gjarnan bæta við einu álveri til að endurvinna gamalt ál.

Og hananú!

-----oOo-----

Mig langar til að lýsa yfir aðdáaun minni á þeim kjarki sem Bárður Ragnar Jónsson þýðandi sýndi í Kastljósþætti föstudagsins, er hann lýsti viðurgjörningi þeim sem drengjunum var búinn vestur á upptökuheimilinu í Breiðuvík á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Það hefur greinilega víðar verið pottur brotinn en í Byrginu.

2. febrúar 2007 - Ég játa syndir mínar og styð álversframkvæmdir

Mér þykir vænt um Austfirðinga. Þegar ég kom til Íslands sumarið 1996, úr útlegð í Svíþjóð sökum þess að íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu hunsað óskir mínar, gekk allt á afturfótunum í byrjun. Ég fékk hvergi vinnu og hvarvetna sem ég kom blöstu nánast óyfirstíganlegar hindranir við mér. Ég var komin á fremsta hlunn að pakka saman og fara út aftur þegar maður einn austur á Eskifirði hringdi í mig og bað mig að koma austur í afleysningar. Maðurinn heitir Emil Thorarensen og hefur skrifað allnokkrar greinar í blöð um nauðsyn stóriðjunnar fyrir mannlíf og atvinnulíf fyrir austan. Það er Emil sem og fólki í kringum hann að þakka að ég hélt áfram að streitast við og búa á Íslandi.

Þegar ákvörðun var tekin um stíflugerð við Kárahnjúka, byggingu raforkuvers í Fljótsdal og byggingu álvers á Reyðarfirði, fagnaði ég með Austfirðingum. Þessi framkvæmd var að þeirra vilja og engir þekkja Austurland betur en Austfirðingar sjálfir. Ég hefi enn ekki farið ofan af þessari skoðun og fagna þessari framkvæmd þótt ég eigi engra sérhagsmuna að gæta á Austfjörðum.

Vissulega verður að fara mjög varlega í allar stórframkvæmdir á hálendi Íslands. Þetta gildir ekki aðeins um virkjanaframkvæmdir heldur þarf og að gæta þess hvar þessar milljónir túrhesta gera þarfir sínar, sem svokallaðir náttúruverndarsinnar vilja fá hingað.

Ég hefi ekki kynnt mér þá heildarsýn virkjanastefnu sem til er í landinu. Ég veit þó að einhver heildarsýn er í til, en hún verður ávallt að miðast við hagsmuni og afstöðu heimamanna á hverjum stað. Þetta gildir jafnt um Austfirðinga sem Skagfirðinga og Hafnfirðinga. Ef meirihluti Skagfirðinga leggst gegn virkjun jökulsánna í Skagafirði, skal ég líka gera það. Af sömu ástæðum fagna ég atkvæðagreiðslu meðal Hafnfirðinga um stækkun álversins í Straumsvík.

Umfram allt tel ég að ekki megi bölsótast gegn Kárahnjúkavirkjun og álverinu á Reyðarfirði án þess að hugsa um leið til íbúa Austfjarða sem margir væru annars búnir að pakka niður og farnir í burtu.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

1. febrúar 2007 - II - Bróðir minn og Ómar Ragnarsson


Bróðir minn er indælis maður. Hann kenndi mér að stauta til stafs löngu áður en kom að skólaskyldunni og sá til þess að ég væri orðin fluglæs þegar skólagangan hófst. Síðan stóð hans eins klettur við hlið mér í gegnum alla mína skólagöngu, veitti mér alla þá aðstoð sem honum var unnt og gerir enn í dag mörgum árum síðar.

Bróðir minn hefur auk aðstoðar við mig, sýnt af sér mikla hæfileika. Hann er teiknari góður og með mjög fallega rithönd. Þá var hann mjög tæknisinnaður á fyrri árum þótt eitthvað hafi dregið úr áhuga hans á síðari árum. Heimili hans og fjölskyldu hans er mjög fallegt, bílarnir hans hafa ávallt verið nýbónaðir, hann hefur löngum átt nýjustu tegundir myndavéla, var með fyrstu mönnum að fá sér myndbandstæki og svo má lengi upp telja. Þá er hann góður við menn og dýr og hefi ég séð til hans úti í garðinum sínum með mikinn fjölda smáfugla í kringum sig þar sem hann dundaði sér við að gefa þeim þá fitu sem þeim er nauðsynleg í vetrarkuldum.

Þrátt fyrir góðmennsku bróður míns, vildi ég ekki sjá hann í stjórnmálum eða á Alþingi. Hann er einfaldlega of góð sál fyrir slíkt nagg og leiðindi sem fylgja þingstörfum. Sama gildir um Ómar Ragnarsson!

1. febrúar 2007 - Svik samgönguráðherrans við svik samgönguráðherrans


Þar sem ég var á leiðinni heim af fundi á fréttatíma sjónvarps á miðvikudagskvöldið, var sagt frá nýrri samgönguáætlun sem og þeirri áætlun samgönguráðherra að leggja 2+1 veg um Suðurland til Selfoss. Ég fylltist hatri í garð helvítis Ólsarans í Samgönguráðuneytinu, bölvaði honum í sand og ösku (en gladdist um leið yfir möguleikanum á að geta sent honum kaldar kveðjur á bloggi kvöldsins) og ákvað um leið, að skrifa hatramman pistil á Moggabloggið honum til hneisu og svik hans við 2+2 veginn sem hann lofaði eftir slysið hörmulega í byrjun desember.

Þegar hægði um hjá mér og kisurnar komnar í rúmið, settist ég niður við tölvuna og hóf skrifin. Þar sem Sjóvá hefði þegar boðist til að kosta vegalagninguna, gæti Sturla með góðri samvisku, einbeitt sér að Norðfjarðargöngum, Lónsheiðargöngum, Óshlíðargöngum og göngum á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, byggt nokkrar brýr, lokið malbikun hringvegarins og byrjað á Sundabraut. Svei mér þá ef ég var ekki búin að lengja flugbrautina á Akureyri um þessa 500 metra í huganum svo RyanAir gæti byrjað samkeppni við innheimsk flugfélög á ódýrum flugvelli.

Þegar ég var komin svo langt í samningu pistilsins, sá ég ástæðu til að skoða betur fréttir kvöldsins á netinu og sá þá að Sturla Böðvarsson hefði sjálfur mótmælt fyrri frétt um 2+1 veg. Auðvitað, góður Snæfellingur sem að auki er búsettur í Stykkishólmi, lætur ekki hanka sig á slíku smáatriði og stendur við loforð sín um tvöfaldan Suðurlandsveg í báðar áttir á næstu fjórum árum :)

-----oOo-----

Ungur karlmaður sem ekki gaf stefnuljós til vinstri, missti næstum af möguleikanum á að beygja til vinstri á háannatíma á gatnamótunum á Bæjarbraut og Hraunbæ í gær. Vegna kæruleysis hans mættumst við með vinstri hliðarnar andspænis hvorri annarri bifreiðinni í stað hægri hliðanna. Notum því stefnuljósin rétt og liðkum fyrir umferðinni á einfaldan hátt!