föstudagur, febrúar 09, 2007

9. febrúar 2007 - Fyrsta gönguferð ársins og fyrsta ferðin út á land.

Ég fór í gönguferð á fimmtudagseftirmiðdaginn. Ekki veitti af, því ég hafði bætt ótæpilega á mig eftir síðustu fjallgöngu haustsins 2006 á Vífilsfellið og lappirnar á mér þráðu ekkert frekar en að komast í safaríka gönguferð. Ég ók því suður í Hafnarfjörð til fundar og kaffisopa hjá helsta göngufélaga og bloggfélaga síðasta árs og saman fórum við í stuttan göngutúr um helstu hraun Hafnarfjarðar.

Þar sem við gengum umhverfis Ástjörnina mændi ég ámáttlega á Ásfjallið sem gnæfði yfir okkur 127 metra hátt og grátbað okkur að ganga á sig, en það kom ekki til greina af minni hálfu. Ég hafði nefnilega lofað annarri bloggvinkonu að keyra hana á Skipaskaga eftir vinnu og það hefur löngum þótt aðalsmerki mitt að efna loforð mín við menn og málleysingja. Því varð ég að sleppa klifrinu á Ásfjallið, en flýta mér til Reykjavíkur eftir gönguferðina og sækja næstu bloggvinkonu í vinnuna.

Það var haldið af stað og allt gekk vel í byrjun. Þegar við nálguðumst þéttbýli Mosfellsbæjar sá ég, mér til hrellingar, sementsflutningabíl frá Sementsverksmiðjunni á undan okkur og lagði því allt á mig að komast framúr ferlíkinu svo ekki þyrfti að hafa þetta á undan okkur alla leiðina til Akraness. Það gekk fljótt og vel að komast framúr í einu hringtorginu og síðan var haldið áfram sem leið lá í gegnum Mosfellsbæinn og til Kjalarness og nálguðumst við nú Hvalfjarðargöngin og brátt lentum við á eftir bifreið sem ók á löglegum hraða í aðdraganda Hvalfjarðarganga. Það tekur því ekki að þenja sig framúr hugsaði ég og dólaði á eftir bílnum á undan niður göngin. Hann ók hægt, á milli 50 og 60 km hraða, en þar sem mér lá ekkert á, var ég ekkert að pína mig framúr honum í göngum þar sem hámarkshraðinn er 70 km/klst. Mér hætti þó að standa á sama þegar stór og mikill sementsflutningabíll var kominn ískyggilega nálægt afturstuðaranum hjá mér.

Um þetta leyti komumst við framhjá síðustu myndavél og síðan að upphækkuninni að norðanverðunni. Ég fór að verða óþolinmóð dragandi heilan sementsflutningabíl á eftir mér, gaf hressilega í um leið og komið var á tvöfalda kaflann á uppleiðinni og geystist framúr varkára gamalmenninu með ímyndaða hattinn og á eftir mér fylgdi sementsflutningabíll og heill floti minni bifreiða.

“Löggan er byrjuð að mæla hraðann á fólki sem kemur uppúr göngunum” stundi þá bloggvinkona mín stíf af hræðslu yfir þjösnaskap mínum og ég hægði svo snögglega á mér að minnstu munaði að sementsflutningabíllinn lenti aftaná okkur. Um leið komum við útúr göngunum og viti menn. Þar beið löggan í tilgangsleysi sínu, enda vorum við á löglegum hraða þar sem við ókum framhjá gjaldskýlinu og héldum svo áfram í átt að ákvörðunarstað okkar.

Það mun líða langur tími uns umrædd bloggvinkona mun þora að sitja í bíl með mér aftur, enda fyrrum starfsmaður Umferðarstofu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli