sunnudagur, febrúar 18, 2007

18. febrúar 2007 - Eiríkur Hauksson ofl.

Á fyrstu árum Rásar 2 var vinsæll þungarokksþáttur á Rás 2 á laugardagskvöldum milli klukkan 22.00 og 24.00. Þegar Ísland tók þátt í Júróvisjón í fyrsta sinn vorið 1986 þegar keppnin var haldin í Björgvin, lenti ICY hópurinn með þeim Pálma Gunnarssyni, Helgu Möller og Eiríki Haukssyni í 16. sæti þrátt fyrir þá sannfæringu íslensku þjóðarinnar að íslenska lagið myndi gjörsigra keppnina.

Nokkrum mínútum eftir að keppninni lauk úti í Björgvin, hófst umræddur þungarokksþáttur í útvarpinu og fyrsta lagið sem var spilað þetta kvöld var að sjálfsögðu lagið “Don´t Shoot Me Down” með Eiríki Haukssyni.

Með þessu óska ég Eiríki velfarnaðar í keppninni í Helsingfors í vor og þess að ekki þurfi að spila gamla þungarokkslagið aftur eftir keppnina eins og fyrir 21 ári síðan. Við getum þó rifjað upp að við sendum Eirík í útlegð til Noregs nokkru eftir keppnina 1986 og sú útlegð hlýtur að tryggja Íslandi 12 stig frá Noregi í vor. Annars væri lítið gagn að því að senda fólk í útlegð!

-----oOo-----

Þær fréttir hafa borist íslensku þjóðinni til eyrna að Ólafur Ragnar Grímsson forseti fái ekki að gista í höll kóngs í Víkinni (Viken - Oslo) í Noregi þegar hann heldur upp á sjötugsafmæli sitt og verður hann að gista á einhverju farfuglaheimili á landareigninni og vafalaust greiða okurverð fyrir gistinguna. Þetta þarf ekkert að koma íslenskri alþýðu á óvart. Henni hefur löngum verið í kot vísað af nágrannaþjóðum hennar, en rétt eins og íslenskir kaupahéðnar segja nú “Há dú jú dú” og “Gúdd morrning” í stað þess að troða heitri kartöflu ofan í kok þegar þeir sölsa undir sig danska ríkið, mun Ólafur Ragnar vafalaust rifja upp með sér frásögn Nýja testamentisins af trésmiðnum Jósef er hann heldur á fund konungs.


0 ummæli:







Skrifa ummæli