Eitt af því leiðinlegasta sem ég veit, er þegar fólk er að skrifa um sama áhugamálið sitt aftur og aftur og aftur. Einn ágætur kunningi minn eyddi t.d. öllu sínu bloggpúðri í skrif um vatnshæð Þingvallavatns, hvort það hækkaði eða lækkaði um nokkra sentímetra. Ég gafst fljótlega upp á því að lesa félagann, enda hafði hann bara áhuga fyrir niðurrifi einnar stíflu, en engan áhuga fyrir því máli er miklu magni skordýraeiturs var dælt á bakka Þingvallavatns fljótlega eftir 1960 til að hlífa sumarhúsaeigendum við mýinu við vatnið og sem orsakaði hungurdauða stórurriðans í vatninu.
Nú er ég að falla í sömu gryfju. Það er enn verið að hampa ónefndri manneskju fyrir tilraun hennar til að nauðga æskuminningum mínum, nú síðast í Fréttablaði sunnudagsins. Á ég að skrifa enn eina greinina um það hve gott var að alast upp í Reykjahlíð eða á ég að sleppa því?
Það var haldinn sameiginlegur fundur fórnarlamba þessara barnaheimila í Laugarneskirkju á sunnudagseftirmiðdaginn þar sem þau gátu grátið örlög sín. Ég mætti ekki, sendi reyndar sóknarprestunum bréf þar sem ég útskýrði afstöðu mína. Þar sem ég hlaut gott atlæti í minni vist á barnaheimili, þótti ekki taka því að svara mér, ekki frekar en aðrir hafa gert sem vita miklu betur um hina hræðilegu dvöl í Reykjahlíð en ég veit, sem þó er alin upp þarna.
Á sunnudagseftirmiðdaginn sat ég hálfgerðan sellufund með kaffi og pönnukökum, fjórir krakkar á milli fimmtugs og sextugs sem öll áttum okkar góðu reynslu af barnaheimilinu ásamt gestgjafanum á áttræðisaldri sem hafði verið forstöðukona í Reykjahlíð á árunum eftir 1961. Þar ræddum við nýjustu viðburði í Reykjahlíðarmálinu, skoðuðum gamlar myndir og rifjuðum upp gamlar minningar frá dásamlegri æsku í Reykjahlíð. Við þurftum enga áfallahjálp.
Fjölmiðlar hafa engan áhuga fyrir sannleikanum ef lýgin er svæsnari.
-----oOo-----
Svo fær Rakel Bára hamingjuóskir með rétt rúmlega tuttuguogfimmára afmælið :)
mánudagur, febrúar 19, 2007
19. febrúar 2007 - Góðar fréttir eru engar fréttir!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:18
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli