fimmtudagur, febrúar 15, 2007

15. febrúar 2007 - Ekki þessa hugmynd Mörður!

Í viðtali í síðdegisútvarpi Rásar 2 á þriðjudag minntist Mörður Árnason á þá hugmynd að breyta Perlunni í Náttúruminjasafn og fannst hugmyndin góð. Ég veit ekki hver átti þessa hugmynd í upphafi, hvort það var Mörður sjálfur eða eitthvert annað gáfumenni. Mér finnst hugmyndin slæm. Mjög slæm.

Fyrir nokkrum árum síðan var einn tankurinn í Öskjuhlíð tekinn undir sögusafn. Með því minnkaði heitavatnsöryggi vesturbæjar og miðbæjar Reykjavíkur um fjórðung. Einhver kann nú að mótmæla mér og benda á að tankarnir séu sex, en ekki fjórir sem er alveg satt. Tankarnir eru sex, en tveir tankanna eru bakvatnstankar og því ekki eiginlegir hitaveitutankar. Fjórir tankanna voru notaðir undir 80°C heitt vatn en tveir voru notaðir fyrir bakvatn til uppblöndunar sem og til notkunar fyrir ylströndina í Nauthólsvík. Allt að 130°C heitt vatn kemur frá dælustöðinni í Bolholti að lokahúsi í Öskjuhlíð, blandast þar með bakvatni ásamt með um 90°C heitu vatni frá borholum í Mosfellsbæ og er geymt 80°C heitt í hitaveitutönkunum áður en því er dælt til fólksins í miðbæ og vesturbæ Reykjavíkur.

Með því að einn tankurinn var tekinn undir brúðusafn er einungis rými fyrir 12000 af heitu vatni eftir í tönkunum. Á köldum vetrardögum erum við kannski að dæla 2500 tonnum á klukkutímann út til íbúanna. Ef alvarleg bilun verður, t.d. nokkurra tíma rafmagnsleysi eða þá að báðar flutningsæðarnar frá Grafarholti bila, eru þessi 12000 tonn fljót að klárast. Ef önnur flutningsæðin frá Grafarholti bilar í kulda, verður að gera við hana á mettíma sökum þess að ein flutningsæð er tæplega nógu afkastamikil við þær aðstæður. Vegna þessa var ég lítt hrifin af þeirri pólitísku ákvörðun að taka einn tankinn undir brúðusafnið, hefi ekki stigið fæti mínum þangað inn og mun ekki gera fyrr en safnið verður fjarlægt og komið fyrir á viðeigandi stað.

Ónefndur áhrifamaður vildi nota þessa tanka undir eitthvað gagnlegt, annar vildi opna spilavíti í tönkunum. Einn vildi opna brúðusafn og fékk sitt brúðusafn. Nú kemur Mörður Árnason og vill breyta restinni af Perlunni í Náttúruminjasafn.

En ávallt kemur gamla erfiða spurningin. Hvar á að geyma heita vatnið?

Ég vona svo að Mörður og aðrir Reykjavíkurþingmenn komi sem fyrst í heimsókn í vinnuna til mín svo þeir sjái mikilvægi einstakra þátta í hitaveitukerfinu, fyrstu stóriðju Íslendinga!


0 ummæli:







Skrifa ummæli