fimmtudagur, febrúar 01, 2007

1. febrúar 2007 - II - Bróðir minn og Ómar Ragnarsson


Bróðir minn er indælis maður. Hann kenndi mér að stauta til stafs löngu áður en kom að skólaskyldunni og sá til þess að ég væri orðin fluglæs þegar skólagangan hófst. Síðan stóð hans eins klettur við hlið mér í gegnum alla mína skólagöngu, veitti mér alla þá aðstoð sem honum var unnt og gerir enn í dag mörgum árum síðar.

Bróðir minn hefur auk aðstoðar við mig, sýnt af sér mikla hæfileika. Hann er teiknari góður og með mjög fallega rithönd. Þá var hann mjög tæknisinnaður á fyrri árum þótt eitthvað hafi dregið úr áhuga hans á síðari árum. Heimili hans og fjölskyldu hans er mjög fallegt, bílarnir hans hafa ávallt verið nýbónaðir, hann hefur löngum átt nýjustu tegundir myndavéla, var með fyrstu mönnum að fá sér myndbandstæki og svo má lengi upp telja. Þá er hann góður við menn og dýr og hefi ég séð til hans úti í garðinum sínum með mikinn fjölda smáfugla í kringum sig þar sem hann dundaði sér við að gefa þeim þá fitu sem þeim er nauðsynleg í vetrarkuldum.

Þrátt fyrir góðmennsku bróður míns, vildi ég ekki sjá hann í stjórnmálum eða á Alþingi. Hann er einfaldlega of góð sál fyrir slíkt nagg og leiðindi sem fylgja þingstörfum. Sama gildir um Ómar Ragnarsson!


0 ummæli:







Skrifa ummæli