Þegar ég heyrði af brunanum á Bíldudal á þriðjudag fór ég að kenna í brjósti um þá. Ekki var það fyrir að þeir stæðu ekki í stykkinu, heldur sú óheppni að slökkviliðsbíllinn skyldi ekki fara í gang á neyðarstundu.Óheppni Bílddælinga rifjar upp fyrir mér annan bruna sem átti sér stað á Bíldudal árið 1967. Það var kvikmyndasýning í samkomuhúsinu Baldurshaga og í miðju kafi er eldur brann í kvikmyndinni, kom einhver hlaupandi fram og öskraði: Eldur Eldur! Eftir því sem sagan hermir, hreyfði sig enginn fyrst eftir að kallið kom, enda bruna lýst í kvikmyndinni. Svo áttaði sig einhver á því að eldurinn var raunverulegur og sjálfur Baldurshagi var að brenna fullur af fólki.
Engan áttu Bílddælingarnir slökkviliðsbílinn í þá daga, en það var stutt niður að höfninni og við bryggjuna lá Brúarfoss. Skipverjar voru fljótir til og tengdu brunaslöngur skipsins og tókst að ráða niðurlögum eldsins eftir stutta baráttu. Ekki veit ég hvernig kvikmyndin endaði og held ég að íbúarnir hafi enn ekki séð kvikmyndina alla.
Íbúar Bíldudals lögðu mikla vinnu á sig til að koma húsinu aftur í gang, unnu eins og hetjur í marga mánuði, héldu þorrablótið í rækjuverksmiðjunni og loks um vorið 1968 var samkomuhúsið endurvígt með pomp og prakt og sérhver Bílddælingur gat barið sér á brjóst og sagt við sjálfan sig og alla aðra: Ég gerði mitt besta og hér er Baldurshagi glæsilegri en nokkru sinni fyrr!
miðvikudagur, febrúar 21, 2007
21. febrúar 2007 - Seinheppnir Bílddælingar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:05
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli