miðvikudagur, febrúar 21, 2007

22. febrúar 2007 - Að tala útúr kú ...

....finnst ráðherra einum sniðugt. Sama ráðherra finnst óskaplega sniðugt að láta mynda sig við át á rándýrri pulsu sem kostar fjórfalt meira en sambærilegar pulsur kostuðu í Svíþjóð áður en verðið lækkaði þar í landi eftir inngöngu í Evrópusambandið. Sama ráðherra finnst líka óskaplega sniðugt að láta mynda sig við að kyssa kýr, en svo þegar ætlast er til að hann svari vitrænt vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í verðlagi á landbúnaðarvörum, svarar hann útúr kú!

Maður skyldi ætla að sá sem hegðar sér á þann veg sem Guðni Ágústsson gerir, fengi ekki mikið fylgi, en það virðist ekkert bíta á honum. Þegar hann er spurður um okurverð á pulsum eða kindakjöti, spyr hann á móti um verðlag á fötum og þar sem andmælandinn er ekki með verðlagið á gallabuxum á hreinu, ekki frekar en hann sjálfur, tekst honum að eyða umræðunni um okrið á kjötinu. Enginn virðist þora að spyrja hann út í hörgul og krefjast svars á upphaflegri spurningu. Ekki heldur Jóhanna Vilhjálmsdóttir sem ég hélt þó að væri sæmilega ákveðin.

Sá sem svarar eins og Guðni gerði í Kastljósþætti kvöldsins, er ekki eins heimskur og hann lítur út fyrir að vera. Sá sem hefur að stefnu að viðhalda okrinu getur ekki sagt beinum orðum að hann vilji halda háu verðlagi. Slíkt væri dauðadómur fyrir þingmannsferilinn. Því svarar Guðni eins og væri hann nauthemskur eða kýrskýr og fær fjölda akvæða út á ruglið.

Það er ekki Guðni sem er heimskur, heldur kjósendurnir sem styðja hann og viðhalda þannig okri á landbúnaðarvörum.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301734/0


0 ummæli:







Skrifa ummæli