Þegar bók Sævars Ciesielski og Stefáns Unnsteinssonar, Stattu þig drengur, er lesin, koma í ljós ótrúlegustu lýsingar á upptökuheimilinu að Breiðuvík í Rauðasandshreppi. Þar er m.a. sagt beinum orðum:
Forstöðumaðurinn réð öllu og var í sannleika sagt snarbrjálaður í skapinu. Hann lét okkur skilja að hann væri þarna til að gera okkur að mönnum. Lærdómurinn fólst aðallega í barsmíðum. Verst þótti okkur að það var engin regla á þessu hjá honum, hann barði menn ef þeir gerðu eitthvað af sér, en svo barði hann líka ef þannig lá á honum, uppúr þurru ef einhver var fyrir honum eða hann þyrfti að skeyta skapi sínu á einhverjum. Ég held honum hafi ekki alltaf verið sjálfrátt. Ofbeldi lá stöðugt í loftinu. Reglur voru mjög strangar og það varð að hlýða þeim skilyrðislaust. Refsingar voru tvennskonar fyrir utan barsmíðar: innilokun í herbergi og svelti uppí þrjá daga, og innilokun í húsinu.
Það eru svo ýmsar lýsingar á aðstæðum í Breiðuvík, m.a. þessar:
Skammt frá bænum eru hlýir vatnsálar, Vaðlarnir, og þar var hægt að synda og veiða. En það þurfti alltaf að biðja um leyfi. Eitt sinn fór einn í leyfisleysi og kallinn kom að honum, tók um fæturna á honum og stakk honum ofan í vatnið, kippti honum síðan uppúr og barði hann.
Þegar ég var búinn að vera þarna í nokkra mánuði fékk ég kláðamaur eða eitthvað í þeim dúr, sár útum allan líkamann og litlar bólur með glærum vökva í. Lengi vel var ekkert gert í þessu. Ein beljan sem ég tutlaði fékk þetta líka, og sonur kallsins skaut hana á færi með haglabyssu. En það var bara látið drabbast með mig.
Sonur forstöðumannsins kenndi okkur og hann sjálfur smávegis. Sonurinn var oft með helvítis kjaft, þó var hann miklu skárri en pabbi hans, enda barði kallinn hann ekkert síður en okkur, sérstaklega ef hann var sjálfur rakur; þá barði hann yfirleitt bara son sinn.
Aftar í bókinni er svo vistin í Breiðuvík metin í nokkrum orðum, en þar segir m.a.:
Hitt gerði þó gæfumuninn að stundum valdist þarna til starfa fólk sem hefði aldrei átt að koma nálægt stofnun af þessu tagi. Þegar Sævar dvelur þar er til dæmis varla um neina “betrun” að ræða. Enda hefur yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem voru í Breiðuvík á þessum tíma komið við á Litla-Hrauni síðustu árin og sumir margsinnis.
Ég verð að viðurkenna að það er stutt síðan ég eignaðist þessa bók og las hana. Ég ímyndaði mér kannski að hér væri um að ræða frásögn biturs ungs manns sem var dæmdur til útskúfunar úr samfélaginu og hefur aldrei náð að rétta úr kútnum aftur, manns sem enn er fordæmdur, heimilislaus og allslaus. En samt. Þessi bók kom út hjá Iðunni árið 1980, fyrir meira en aldarfjórðungi síðan og henni var sannarlega ekki stungið undir stól í neinu ráðuneyti. Samt gerði enginn neitt. Ekki getum við heldur kennt hægrisinnuðum stjórnmálamönnum um þetta kæruleysi því Svavar vinur minn Gestsson var félagsmálaráðherra í frægri ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen þegar bókin kom út.
Stór hluti íslensku þjóðarinnar vissi um Breiðuvík árið 1980 og getur því einungis kennt sjálfri sér um að hafa ekki aðhafst á þeim tíma. Það væri þó fróðlegt að vita hver urðu viðbrögð við bókinni er hún kom út, en meðal þeirra sem komu að útgáfu bókarinnar var Jóhann Páll Valdimarsson núverandi forstjóri JPV útgáfu.
miðvikudagur, febrúar 07, 2007
7. febrúar 2007 – Af hverju var ekkert gert 1980?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:01
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli