Við villingarnir frá Reykjahlíð í Mosfellsdal vorum að krunka okkur saman á þriðjudag. Metast um hver gerði besta hafragrautinn með ælubragði og annað í þeim dúr og svo hlógum við og gerðum góðlátlegt grín að Kastljósþætti mánudagsins. Okkur var þó ekki hlátur í hug. Ekkert okkar kannaðist við hið hræðilega atlæti í Reykjahlíð sem lýst var í sjónvarpinu.
Ég man að ég skrifaði eitt sinn minningargrein um eina starfsstúlkuna, en hún lést löngu fyrir aldur fram úr krabbameini. Það var einasti möguleikinn til að votta henni og börnum hennar virðingu mína, enda bjó ég þá í Svíþjóð og komst ekki til landsins. Eitt eða fleiri uppeldissystkinanna flaug norður í land til að vera við jarðarförina um hávetur. Ætli við hefðum hegðað okkur svona ef vistin hefði verið jafnhræðileg og henni hafði verið lýst. Ég held ekki.
Ég lagði fram kvörtun við spyrilinn í Kastljósþætti mánudagsins á þriðjudagsmorguninn. Það var full ástæða til. Ekkert okkar kannaðist við þessa hræðilegu vist. Samt fékk ég að heyra að aðfinnslurnar hefðu verið svipaðar og að fjölmargir heimildarmenn hefðu lýst mikilli vanlíðan á heimilinu. Svo var þarna reglulega einhver maður sem börnin óttuðust. Kannski tökum við okkur saman nokkur krakkanna og sendum sameiginleg mótmæli til Sjónvarpsins fyrir tilraun til að ræna okkur minningu og gleði æskuáranna.
Vissulega óttuðust minni stelpurnar einhvern mann. Einn af eldri krökkunum hafði skrökvað því að þeim að hann ætlaði að ræna þeim og því festu þær sig með beltum við rúmin sín. Vesalings Ari var alsaklaus af þessum hrekk og gerði ekki flugu mein. Hann gat vissulega verið hryssingslegur, en ekki man ég eftir því að hann hefði drukkið áfengi á stað þar sem neysla áfengis var bönnuð. Ég neita þó ekki þeim möguleika að hann hafi einhverntímann verið rakur, enda skeði það stöku sinnum að einstöku starfskraftur hefði fengið sér í aðra löppina í bæjarferð og verið slompaður er komið var til baka. Það er hinsvegar staðreynd, að þótt Ari (1911-1966) væri múrari, var hann smiður góður og megintilgangur fárra heimsókna hans á barnaheimilið var að dytta að ýmsu smálegu og kenna strákunum smíðar og var ekki talið veita af. Á heimilinu var starfsfólkið skipað konum að mestu og talin þörf á karlmannlegum fyrirmyndum. Það var hinsvegar nóg af þeim á bæjunum allt í kring, allt frá bláfátækum vinnumönnum til Nóbelsskálds.
Í umfjöllun um Breiðuvíkurmálið var rætt um greiðslu skaðabóta vegna þeirrar áþjánar sem drengirnir urðu fyrir í Breiðuvík. Ég set stórt spurningamerki við slíkt. Það er sjálfsagt að rannsaka málið ofan í kjölinn og biðja þá drengi afsökunar sem urðu fyrir ofbeldi. Hinsvegar er mjög erfitt að greiða þeim skaðabætur vegna glataðrar menntunar því sú glötun getur allt eins og frekar en hitt, verið afleiðing fátæktar foreldra. Það sakar þó ekki að reyna. Ég er alveg tilbúin að fella eitt eða tvö tár fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar ef ég fæ nokkrar milljónir fyrir það.
En ég get ekki kennt Barnaheimilinu að Reykjahlíð um “slæm” örlög mín. Með slíku væri ég að biðja um þrjátíu silfurpeninga svona skömmu fyrir páska. Má ég þá heldur halda mig við sannleikann eins og ég veit hann bestan og sendi um leið öllum íbúum Mosfellsdalsins á uppeldisárum mínum, þakkir mínar fyrir að sýna mér þá einlægu vináttu sem sérhvert barn á skilið að fá.
miðvikudagur, febrúar 14, 2007
14. febrúar 2007 - Í mótlæti eru vinir
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:55
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli