föstudagur, febrúar 02, 2007

2. febrúar 2007 - Ég játa syndir mínar og styð álversframkvæmdir

Mér þykir vænt um Austfirðinga. Þegar ég kom til Íslands sumarið 1996, úr útlegð í Svíþjóð sökum þess að íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu hunsað óskir mínar, gekk allt á afturfótunum í byrjun. Ég fékk hvergi vinnu og hvarvetna sem ég kom blöstu nánast óyfirstíganlegar hindranir við mér. Ég var komin á fremsta hlunn að pakka saman og fara út aftur þegar maður einn austur á Eskifirði hringdi í mig og bað mig að koma austur í afleysningar. Maðurinn heitir Emil Thorarensen og hefur skrifað allnokkrar greinar í blöð um nauðsyn stóriðjunnar fyrir mannlíf og atvinnulíf fyrir austan. Það er Emil sem og fólki í kringum hann að þakka að ég hélt áfram að streitast við og búa á Íslandi.

Þegar ákvörðun var tekin um stíflugerð við Kárahnjúka, byggingu raforkuvers í Fljótsdal og byggingu álvers á Reyðarfirði, fagnaði ég með Austfirðingum. Þessi framkvæmd var að þeirra vilja og engir þekkja Austurland betur en Austfirðingar sjálfir. Ég hefi enn ekki farið ofan af þessari skoðun og fagna þessari framkvæmd þótt ég eigi engra sérhagsmuna að gæta á Austfjörðum.

Vissulega verður að fara mjög varlega í allar stórframkvæmdir á hálendi Íslands. Þetta gildir ekki aðeins um virkjanaframkvæmdir heldur þarf og að gæta þess hvar þessar milljónir túrhesta gera þarfir sínar, sem svokallaðir náttúruverndarsinnar vilja fá hingað.

Ég hefi ekki kynnt mér þá heildarsýn virkjanastefnu sem til er í landinu. Ég veit þó að einhver heildarsýn er í til, en hún verður ávallt að miðast við hagsmuni og afstöðu heimamanna á hverjum stað. Þetta gildir jafnt um Austfirðinga sem Skagfirðinga og Hafnfirðinga. Ef meirihluti Skagfirðinga leggst gegn virkjun jökulsánna í Skagafirði, skal ég líka gera það. Af sömu ástæðum fagna ég atkvæðagreiðslu meðal Hafnfirðinga um stækkun álversins í Straumsvík.

Umfram allt tel ég að ekki megi bölsótast gegn Kárahnjúkavirkjun og álverinu á Reyðarfirði án þess að hugsa um leið til íbúa Austfjarða sem margir væru annars búnir að pakka niður og farnir í burtu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli