Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sér ástæðu til að ræða aðeins samgöngumál í pistli sínum í dag, þar sem hann hrósar kollega sínum og félaga í norðvesturkjördæmi, Sturla Böðvarssyni fyrir dugnaðinn í samgöngumálum Vestfirðinga um leið og hann hnýtir aðeins í stjórnarandstöðuna fyrir sífurtal:
Almennt er hinum nýju samgönguáætlunum sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra mælti fyrir á Alþingi í gær vel tekið. Nema vitaskuld það fyrirsjáanlega og hefðbundna sífur nokkurra stjórnarandstæðinga. Það kippir sér þó enginn upp við það. Látum það ekki skyggja á ánægjuleg tímamót.
Ég spyr á móti: Er ástæða til að taka mikið mark á hinni nýju samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar fremur en endranær? Fyrir hverjar kosningar að undanförnu hefur verið lögð fram samgönguáætlun sem síðan hefur verið svikin um leið og búið er að telja upp úr kjörkössunum að kvöldi kosningadags. Fyrir bragðið er að vísu hægt að nota sama kosningaloforð aftur fyrir næstu kosningar, en það gengur bara ekki endalaust.
Þótt víða séu dæmin um svikin kosningaloforðin, ætla ég einungis að nefna eitt dæmi máli mínu til stuðnings og það úr sjálfri Reykjavík. Það var lagt fram Aðalskipulag fyrir Reykjavík árin 1965-1983 á sínum tíma og auglýst rækilega í blárri bók Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1966, fyrir 42 árum síðan þegar Einar Kr. Guðfinnsson var tíu ára polli vestur í Bolungarvík. Þar voru meðal annars sýnd mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Hvar eru þessi gatnamót í dag. Jú, þau eru hluti af kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2007! Það fer enginn að segja mér að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 1965 hafi verið að semja samgönguáætlun í trássi við vilja ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins með þingmann Reykvíkinga og fyrrum borgarstjóra í forsæti.
Í dag er sá helstur munur á, að vegamálastjóri segir eitt og samgönguráðherra annað og ráðvilltur almenningur veit ekki sitt rjúkandi ráð.
Annars staðar í pistli sínum vitnar Einar í eigin orð frá fyrri tíð:
“Gamla bolvíska aðferðin að vinna án hávaða en með þrautseigju reyndist vel, eins og svo oft, fyrr og síðar. Þessu fögnum við Bolvíkingar. En það er ekki allt. Maður hefur fundið ótrúlegan stuðning við þetta mál úti í þjóðfélaginu. Ég hef varla hitt mann sem ekki hefur fært þetta í tal við mig upp á síðkastið.”
Það er greinilega vinna án hávaða, að hvar sem ráðherrann fer um, eru atkvæðin kvartandi og kveinandi yfir tómlæti ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum. Í sannleika sagt, eru samgöngumál Vestfirðinga ríkisstjórn og Alþingi til skammar. Eitt skýrasta dæmið er vegurinn á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, vegur sem tekið hefur einhver mannslíf í skriðum og snjófljóðum og einungis Pálína Vagnsdóttir lét alþjóð vita af ástandinu og krafðist úrbóta af krafti sem Vestfirðingum er eiginlegur. Ástandið var þó víða slæmt og engir alþingismenn kipptu sér upp við að bílar væru að fara niður skriður og framaf á heiðum með sorglegum afleiðingum, enda var þetta bara fórnarkostnaður umferðarinnar.
Sjávarútvegurinn á Íslandi, þar með talið á Vestfjörðum, var líka svona. Það þótti bara eðlilegur fórnarkostnaður þjóðarinnar að þjóðin drekkti tugum sona sinna á hverju ári í sjóslysum, stundum yfir fimmtíu á ári. Íslenska þjóðin horfði á eftir hlutfallslega fleiri sjómönnum í djúp hafsins en stórþjóðirnar í blóðugum styrjöldum. Það var ekki fyrr en með lögleiðingu flotbúninga, Rannsóknarnefnd sjóslysa og síðast en ekki síst Slysavarnarskóla sjómanna sem virkilega var tekið á þessu máli og sýnt fram á að þessi fórnarkostnaður var óþarfur. (aths. mín)
Ef göngin á milli Ísafjarðar, Súgandafjarðar og Önundarfjarðar eru frátalin, er sorglegt að sjá hve skammt á veg samgöngur á Vestfjörðum eru komnar. Þar geta Einar Kr. Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson kennt sjálfum sér um og væri nær að þeir reyndu að skafa skítinn úr sífurtali sínu og gera eitthvað í stað þess að monta sig af einhverjum kosningaloforðum sem verða svo svikin að kvöldi kosningadags.
http://ekg.blog.is
föstudagur, febrúar 16, 2007
16. febrúar 2007 - II - Sjálfshól og sífurtal Einars Kr. Guðfinnssonar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 13:40
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli