laugardagur, febrúar 17, 2007

17. febrúar 2007 - Hvað kom fyrir Silvíu Nótt?

Að undanförnu hefur aðeins heyrst í Silvíu Nótt þar sem hún hefur verið að skrifa undir nýja milljónasamninga sem munu viðhalda heimsfrægð hennar og aðdáun almennings á fagurri söngrödd hennar. Einnig hefur lítilsháttar orðið vart við hana í Ríkisfjölmiðlunum sem og í nýjum þætti á Skjá 1. Samt er eins og að eitthvað vanti. Hún er ekki sama þróttmikla dívan og fyrir ári síðan er Íslendingar elskuðu að hata hana.

Fyrir ári síðan gat ég notið þess í botn að fyrirlíta Silvíu Nótt, t.d þegar hún heillaði íslenska karlmenn upp úr skónum og fékk þá til að kjósa sig sem kynþokkafyllstu konu ársins, svo ekki talað um er hún sigraði Júróvisjónkeppnina hér heima með eftirminnilegum hætti. Það var svo ekkert að marka úrslitin í Aþenu, enda var öfundin ógisslea mikil og allir að tala illa um hana og rægja.

Nú er Silvía semsagt komin á skeið að nýju. Ég horfði á fyrsta þáttinn hennar á Skjá 1 og skil vel því Silvía Nótt hefur afneitað honum. Þetta voru mest auglýsingar og á milli auglýsinganna voru aðallega endursýnd gömul atriði frá þeim tíma er frægðarsól hennar skein sem hæst og gjörvöll heimsbyggðin hataði hana eins og pestina.

Það sem er þó grátlegast er þó að Silvía er hætt að segja ógisslea í öðru hverju orði og er það miður. Ég fæ á tilfinninguna að commbakkið hennar sé hálfmislukkað. Skilurru?

-----oOo-----

Ég hefi verið að æfa mig á Moggabloggi síðan um jól. Árangurinn er sá að ég mun auka skrif mín þar en minnka hér að sama skapi, enda fæ ég sex sinnum fleiri heimsóknir á Moggabloggið en ég fæ hér. Það gætu því einhverjar færslur gleymst á blogspot úr þessu, enda er Moggabloggið orðið uppáhaldið mitt. Ég mun þó halda áfram að skjóta inn flestum færslum á blogspot fyrir þá aðila sem hata Moggann og eru ákveðnir í að styðja minnimáttar með skrifum á kaninkubloggið :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli