sunnudagur, febrúar 25, 2007

26. febrúar 2007 - Þrjár góðar fréttir úr pólitíkinni

Ég fagna komu Bjarkar Vilhelmsdóttur í Samfylkinguna. Ég studdi Vinstrigræna um skeið, en gekk með í Samfylkinguna fljótlega eftir að Björk gekk úr Vinstri hreyfingunni grænu framboði og gekk til liðs með Samfylkinguna. Nú er hún einnig gengin inn á formlegan hátt og er það vel. Samfylkingin þarf á kjarnakonum á borð við Björk að halda.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1255506


Um svipað leyti og fréttir bárust af inngöngu Bjarkar í Samfylkinguna gekk Jakob Frímann Magnússon úr Samfylkingunni og farið hefur fé betra. Jakob Frímann hefur í tvígang reynt að koma sér á framfæri með miklum bægslagangi og gífurlegum kostnaði fyrra skiptið en hlaut ekki náð fyrir augum flokksbundinna. Þar sem stutt er um liðið síðan ég gekk með, hefur mér aldrei auðnast að hafna Jakobi Frímanni í prófkjöri, en hefði örugglega gert það, hefði mér verið það unnt. Sagt er að Jakob Frímann ætli sér í framboð með Ómari Ragnarssyni. Ekki veit ég hvað er hæft í þeim orðrómi, en sæti efst á lista í einhverju kjördæmi fyrir jafnmikið snobbhænsni og Jakob Frímann Magnússon hlýtur að draga mjög úr fylgi nýja flokksins.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1255509

Þriðja góða fréttin úr pólitíkinni fjallar um Steingrím Jóhann Sigfússon. Ef marka má stærsta fjölmiðaveldið norðan Miklubrautar, boðar Steingrímur stofnun netlöggu. Þarna geta Steingrímur og Björn Bjarnason örugglega fallist í faðma í ásókn sinni eftir fleiri leynilöggum.

Í sakleysi mínu hélt ég að Björn Bjarnason væri einn fárra um að vilja koma á stofnun á borð við Stasi á Íslandi, en nú hefur Steingrímur bæst við í þann hóp. Vonandi lætur Steingrímur þessa ósk sína heyrast vel og vandlega í kosningabaráttunni svo að tryggt verði að sú fylgisaukning sem skoðanakannanir hafa spáð honum á kostnað Samfylkingarinnar, skili sér aftur til baka.

Þótt tekist hafi að telja hótelstjórann á Hótel Sögu á að loka á klámráðstefnuna, er ekki þar með sagt að ganga eigi lengra en það. Það er að auki vafasamt hvort löglega hafi verið staðið að málum að meina þessari ráðstefnu að þinga hér á landi, enda er ráðstefna sem þessi í anda þeirra sem auglýsa Hot Weekend og One Night Stand. Það var hinsvegar full ástæða til að sýna ráðstefnugestum vanþóknun á slíkri ráðstefnu og því ber að fagna.

http://www.visir.is/article/20070225/FRETTIR01/70225045


0 ummæli:







Skrifa ummæli