Þegar ég vaknaði eftir hádegið, skreiddist fram og fór að rýna gleraugnalaus á skjá tölvunnar minnar blöstu eftirfarandi fyrirsagnir Morgunblaðsvefjarins við mér í réttri röð:
-o-
ENGAR ÁRAMÓTABRENNUR Í REYKJAVÍK
-o-
ENGIN ÁRAMÓTABRENNA Í STYKKISHÓLMI
-o-
BOÐAÐ TIL MÓTMÆLA
-o-
Ha, er ástandið virkilega orðið svona slæmt? Gerir fólk sér ekki grein fyrir hættunni af eldinum í hávaðaroki að það fari að mótmæla útaf einhverjum vesælum áramótabrennum? Ég setti upp gleraugun og sá þá fréttirnar betur og létti stórum.
Með þessum orðum óska ég öllum Íslendingum gleðilegs árs og friðar og set ekkert meira inn á netið fyrr en á næsta ári sem hefst á miðnætti. Hvort færslan verði strax eftir miðnættið eða í heilsuleysi morgundagsins skal ósagt látið að sinni.
En munið bara að ganga hægt um gleðinnar dyr.
-----oOo-----
Svo ítreka ég að enn er ekki kominn gestur númer 100.000 á Blogspot.
mánudagur, desember 31, 2007
31. desember 2007 - II - Fyrirsagnir
31. desember 2007 - Samantekt ársins 2007
Áður en ég hef skrifin langar mig til að þakka góðar kveðjur sem ég fékk frá fjölda fólks á afmælinu mínu.
-----oOo-----
Á þessum tímamótum sem áramótum er sjálfsagt mál og gott að horfa um öxl og fara í naflaskoðun og velta því fyrir sér hvað fór vel og hvað fór illa á árinu sem er að líða. Ekki er ætlunin með þessum pistli að spá fyrir um framtíðina enda nóg að gera slíkt á nýju ári, en reyna þess í stað að meta árangur síðustu 365 daga.
Mér tókst að komast úr stjórn Ættfræðifélagsins á árinu sem er að líða. Ég hefi þó unnið nokkuð að samnorrænum málefnum innan félagsins, en lítið komið að öðrum málum. Þess í stað fóru fyrstu mánuðir ársins í vinnu við undirbúning að stofnun félagsins Trans-Ísland en um leið gætti ég þess að vera utan stjórnar er fyrsta formlega stjórn félagsins var kosin á aðalfundi þess í apríl. Ætlunin var sú að halda mig einvörðungu að stjórnarstörfum í Transgender Europe, en þar brást mér bogalistin með því að ég þurfti að greiða allan kostnað við ferðir úr eigin vasa og því urðu setnir stjórnarfundir færri en ég hefði kosið.
Ég skipti ekki um bíl á árinu. Sá gamli dugði allt árið og mun vonandi duga eitt ár enn. Ég er þó farin að láta mig dreyma um nýjan bíl. Kannski ég láti slíkan lúxus eftir mér á árinu 2009, varla fyrr.
Þá var ég dugleg að ganga á fjöll fyrrihluta sumars, fór nokkrum sinnum á Esjuna og Vífilsfell og einu sinni á Akrafjall og Hengil. Þegar ég var loksins að komast í gott form fór að rigna og ég ákvað að bíða af mér rigninguna. Síðan eru liðnir margir mánuðir og enn rignir og ég fitna bara eins og púkinn á fjósbitanum.
Það fjölgaði um einn erfingja á árinu og farið í þrjár jarðarfarir, en að auki kom ég mér hjá því að mæta í tvær þótt hinir látnu hefðu átt betra skilið.
Sjálfsævisagan sem átti að verða metsölubók ársins er enn óútgefin, en peningarnir sem áttu að notast til að endurnýja fataskápa heimilisins fóru í sameign hússins, endurnýjun á þvottahúsi, lagfæringar á rafmagni í sameign og nýjar skotheldar hurðir inn í íbúðirnar. Fátt annað skeði á persónulega sviðinu.
Það voru haldnar alþingiskosningar á árinu eins og ég hafði spáð. Sömuleiðis hafði ég spáð því að Framsóknarflokkurinn myndi ekki þurrkast út í kosningunum og sú spá stóðst einnig. Silvía Nótt vann ekki Júróvisjón fremur venju, en loks erum við komin með sigurlag sem mun vinna í vor.
Af öðrum málum er þess helst að geta að Michael Schumacher hélt áfram að vera hættur í góðakstri og get ég nú hætt að horfa á kappakstur með góðri samvisku. Þá situr Halifaxhreppur áfram í kvenfélagsdeildinni en Sameining Mannshestahrepps vann sig upp um eina deild enn á árinu sem er að líða.
Hundur ársins heitir Lúkas og bloggari ársins heitir Bolur Bolsson. Það hafa margir reynt að komast í bolinn hans í haust en engum tekist það með sóma. Þó skilst mér að einhver Gerður sé sú sem helst kemst með tærnar þar sem hann hafði hælana þessa viku sem Bolur Bolsson skemmti sér á Moggabloggi á kostnað Moggabloggaranna sjálfra. Samt finnst mér Gerður ekki eins skemmtileg og Bolurinn enda drakk hann Carlsberg í morgunmat.
Ég læt þetta nægja að sinni og minni á nýjársloforðin, en ég mun afhjúpa mín að kvöldi nýjársdags.
-----oOo-----
Hver verður númer 100.000 á Blogspotinu mínu?
sunnudagur, desember 30, 2007
30. desember 2007 - Um fýrverkerí og aðra óáran!
Þrátt fyrir fulla samstöðu mína með björgunarsveitum, verð ég seint talin mikil áhugamanneskja um flugelda og önnur fýrverkerí.
Mér er þó sérstaklega í nöp við svokallaðar skottertur sem lagðar eru á jörðina og þegar kveikt er í þeim, kemur mikil reykmengun af þeim og svo sjást nokkur ljós skjótast upp úr reykmökknum og springa svo með háum hvelli. Þegar líður að miðnætti á gamlárskvöld verður mengunin slík af þessum skottertum og blysum að ekki sést lengur handa sinna skil og ef staðið er á hæð ofan við borgina, sést ekkert nema reykur og svo einn og einn flugeldur sem skýst upp úr reykjarkófinu og springur.
Þegar haft er í huga að ég er nýbúin að eyða stórfé í jólagjafir hefi ég ekki efni á skottertum eða flugeldum og því eru góð ráð dýr ef ég vil ekki vera minni en nágrannarnir og tómhent úti í garði á miðnætti á gamlárskvöld get ég ekki staðið. Ég tek þá fram grillkveikjarann minn, rölti út í garð og stilli mér upp við hliðina á einhverjum nágrannanum og býðst til að hjálpa honum að kveikja í draslinu, lána honum kveikjarann og fæ jafnvel að kveikja í einum og einum flugeld. Það gefur alveg sömu ánægjuna og ef ég hefði sjálf keypt þessa flugelda, bara miklu ódýrara.
-----oOo-----
Eins og flestum Íslendingum ætti að vera kunnugt, er dagurinn í dag mikill merkisdagur fyrir margra hluta sakir, ekki einungis vegna þess að Saddam nokkur Hussein var hengdur þennan dag fyrir ári síðan. Svei mér ef Raspútín nokkur var ekki líka drepinn þennan merkisdag. Þannig á allnokkur hópur fólks afmæli í dag.
Mig langar til að óska öllum afmælisbörnum dagsins til hamingju með daginn, þar á meðal Tracey Ullman söngkonu, Öddu Báru Sigfúsdóttur veðurfræðingi, Tiger Woods kylfuslagara, Ben Johnson hlaupagarp, Títusi Rómarkeisara, mér, Patti Smith söngkonu og öpunum í the Monkees, þeim Michael Nesmith og Davy Jones. Síðast en ekki síst má ekki gleyma Albert frænda hjá Hitaveitu Suðurnesja og Rannveigu konu hans sem bæði eiga afmæli í dag.
laugardagur, desember 29, 2007
29. desember 2007 - Ísland eða Írland?
Ég fékk bréf með póstinum í gær. Það þykir kannski ekkert merkilegt á þessum tímum jóla og nýjársóska, en þetta bréf var í plasti og kom frá Írlandi.
“Jæja, er nú að koma jólakveðja frá Philippu vinkonu minni í Dublin,” hugsaði ég með mér og opnaði bréfið.
Bréfið var ekki frá Philippu. Það hafði verið sent til mín frá Nýja-Sjálandi eftir miðjan nóvember, en póstþjónustan á Nýja-Sjálandi augljóslega ruglað Íslandi saman við Írland og því sent bréfið þangað. Írarnir frændur vorir vissu ekki um neina Reykjavík á Írlandi og því sendu þeir bréfið áfram rétta leið á ætlaðan ákvörðunarstað. Eitthvað voru umbúðirnar orðnar ræfilslegar eftir rúmlega mánaðarvolk um heiminn, en innihaldið skilaði sér óskemmt í hús.
Ég vona að bókin sem ég pantaði mér frá Danmörku nokkru fyrir jól hafi ekki lent í viðlíka hremmingum.
-----oOo-----
P.s. Ég er að velta einu fyrir mér. Eitt leikhúsið frumsýndi páskaleikritið sitt á föstudagskvöldið. Er það ekki dálítið snemmt að sýna Jesus Christ Superstar á jólunum? Mér finnst það vera eins og að flytja Heims um ból í júlí.
föstudagur, desember 28, 2007
28. desember 2007 - II - KáErr skal hann heita!
Nei, það er ekki búið að ákveða nafn á nýfæddan sonarson minn og þótt hann eigi heima í námunda við KR-heimilið, efast ég um stuðning foreldra hans við Knattspyrnufélag Reykjavíkur.
Ungt par í Stokkhólmi, bæði miklir aðdáendur íþróttafélagsins Hammarby, eignaðist son fyrir einu og hálfu ári síðan og var ákveðið að drengurinn skyldi bera gælunafn íþróttafélagsins og var því nefndur Bajen. En að skíra drenginn þessu nafni kom ekki til mála að mati yfirvalda. Bajen er ekki gott og gilt sænskt nafn og því var nafninu hafnað. Foreldrarnir, Eva Holmberg og Pär Enqvist, sættu sig ekki við þennan úrskurð og kærðu höfnunina til länsrätten sem nú hefur fellt þann dóm að drengurinn skuli fá að heita Bajen til heiðurs uppáhaldsíþróttafélaginu.
Nú heitir drengurinn sínu fulla nafni, William Bajen Erik Enqvist.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=554&a=728535
28. desember 2007 - Fljótir að finna sökudólga!
Líkið af Benazir Bhutto var ekki orðið kalt þegar stjórnvöld í Hvíta húsinu í Washington töldu sig finna líkindi milli aðgerða Al Kaida og morðsins á Benazir Bhutto þótt þeir vildu ekki fullyrða neitt að svo stöddu.
Það er eðlilegt. Nánast allir heimsbúar vita að verstu óvinir stjórnarinnar í Washington eru Al Kaida, þótt stjórnin þar vestra viti ekki einu sinni hvað Al Kaida er. Því sjá þeir Al Kaida í hverju horni og allsstaðar þar sem hryðjuverk eru unnin.
11. mars 2004 tókst múslímskum hryðjuverkamönnum að myrða nærri 200 manns í Madrid. Lík hinna myrtu voru heldur ekki kólnuð þegar þáverandi stjórnvöld á Spáni kváðu úr um að ETA, aðskilnaðarsamtök Baska hefðu verið þar að verki, en ETA eru verstu óvinir spænskra stjórnvalda. Þessi fljótfærni Aznars og félaga kostuðu sennilega stjórnina í Madrid stólana í kosningunum nokkrum dögum seinna.
Það er ekki mitt að kveða úr um það, hver myrti Benazir Bhutto. Margt styður þá tilgátu að Musharraf forseti og vinur Bandaríkjanna hafi staðið að baki ódæðinu, en það þarf ekki að vera. Benazir Bhutto stóð fyrir hægfara umbótastefnu í Pakistan, ákaflega hægfara, en samt ákveðinni þróun í áttina til frelsis borgaranna í landi þar sem konur eru álíka mikils metnar og búpeningurinn, þó án þess að megi leiða þær til slátrunar. Því er hægt að rökstyðja þá kenningu að talíbanar eða stuðningsmenn þeirra hafi myrt Bhutto, en um leið verður að hafa í huga að Musharraf þurfti svo sannarlega að óttast áhrifamátt og vinsældir hennar meðal alþýðu landsins.
Hin ákveðna kenning stjórnarherranna í Washington er fyrir bragðið álíka gáfuleg og kenning Aznars og félaga í mars 2004. Um leið vil ég votta pakistönsku þjóðinni samúð mína vegna fráfalls mikilhæfs leiðtoga.
miðvikudagur, desember 26, 2007
27. desember 2007 - Það var svo erfitt...
...að vakna að morgni annars í jólum og staulast í vinnuna. Ekki var það vegna þynnku því ég hafði ekkert smakkað á jóladag annað en góðan mat og drukkið malt og appelsín með matnum. Eins gott að vaktin var róleg.
Áður en dagurinn var allur, hafði ég þó afrekað að sinna vaktinni skammlaust, lesa heila bók (þunna), sjá þriggja tíma kvikmynd með öðru auganu (mér finnst ég hafa séð hana áður) og fara í heitt og gott bað áður en blogg dagsins var skrifað.
Ég vona samt að heilsan sé ekki að versna, enda margir góðir dagar framundan áður en kemur að niðurrifi jólaljósa í grámósku janúarmánaðar.
þriðjudagur, desember 25, 2007
26. desember 2007 - Jólaboð
Ég fór í jólaboð til sonar míns og tengdadóttur og sonarsonar á jóladagskvöld. Enn ein þung máltíðin.
Ég finn orðið hve svona þungur matur dregur úr manni máttinn. Ég svaf til hádegis á jóladagsmorguininn og verð að setja þessa færslu inn snemma því rúmið kallar löngu fyrir miðnættið, enda vinnudagur framundan.
Það sótti syfja á fleiri en mig á jóladagskvöld. Meðfylgjandi mynd er af ungum herramanni rétt í þann mund sem hann sveif inn í draumalandið.
25. desember 2007 - Jólin
Einasta kvöld ársins sem ég reyni alltaf að hlusta á Rás1 er aðfangadagskvöld jóla. Það bara tilheyrir. Ég get ekki hugsað mér að missa af jólamessunni í dómkirkjunni og svo hefi ég aldrei getað horft á sjónvarp á þessu kvöldi. Þessvegna sátum ég og kisurnar og hlustuðum á tvo presta og heilan dómkirkjukór kyrja messu með mikilli andakt.
Kisurnar fengu hinsvegar ekki það sama og ég að borða. Reyndar skil ég ekki í Tárhildi þegar hún kemst í fisk. Hún étur af slíkri græðgi að hún ælir á endanum. Það þýðir ekkert að reyna að skammta henni því þá étur hún bara frá henni systur sinni.
Eftir að hafa skroppið í stutt jólaboð var hafist handa við að lesa á jólakort og taka upp jólagjafir. Á einu jólakortinu var heimboð í áramótamótagleði. Takk, ég þigg boðið. Á einni jólagjöfinni var áprentuð áminning þar sem vitnað var í orð Gurríar vinkonu þar sem segir: “....vel skrifuð og einlæg bók sem segir blákaldan sannleikann á hnitmiðaðan hátt.” Jólagjöfin er samt ekki frá Gurrí heldur dóttur minni.
Með þessum orðum óska ég öllum guðs blessunar og áframhaldandi gleðilegra jóla
mánudagur, desember 24, 2007
24. desember 2007 - Friðargangan 2007
Ég rölti niður Laugaveginn á Þorláksmessu í friðargöngu ársins. Slíkt þykir ekki merkilegt þegar ég á í hlut því ég hefi mætt reglulega undanfarin ár. Um leið hefi ég veitt því athygli að gömlu góðu byltingarsinnunum fer fækkandi á meðan yngri friðarsinnum fer fjölgandi. Kannski ber bara minna á byltingarsinnunum þótt þeir séu orðnir öllu íturvaxnari en 1968.
Þegar friðargangan er orðin jafnfjölmenn og nú á sér stað, má spyrja sig þess hvort opin friðarkerti séu ekki að verða friðarspillir á þeirri hátíðarstundu sem friðargangan er? Ég þurfti sífellt að vera á varðbergi gagnvart fólki sem var að sveifla kertunum sínum og halda mig eins fjarri þeim og kostur var. Ég hitti gamlan bekkjarbróður minn úr Gaggó, sjálfan Árna Pétur Guðjónsson leikara; gortaði hann yfir því að hafa ekki fengið á sig eina einustu vaxslettu í þetta sinn, annað en í fyrra og árið áður. Tveimur mínútum síðar hafði hann fengið væna slettu af kertavaxi á fötin sín.
-----oOo-----
Svo fá allir bloggvinir mínir og hinir líka sem ennþá nenna að lesa bloggið mitt, bestu óskir um gleðileg jól.
sunnudagur, desember 23, 2007
23. desember 2007 - Gengur vel að jólast
Ég skrapp í bæinn á laugardag og keypti níu jólagjafir á einum klukkutíma og þá eru eftir tvær. Síðan skrapp ég í miðbæinn og ætlaði að hlusta á upplestur Ragnhildar og Guðjóns í Iðu, en þá hringdi síminn og mér boðið í kaffi og kökur suður í Hafnarfjörð. Sælkerinn ég gat auðvitað ekki staðist mátið og flýtti ég mér út í bíl og suðureftir.
Ferðin til Hafnarfjarðar gekk vel. Allir vinstrisinnarnir í umferðinni voru úti að aka og ég gat keyrt nánast hindrunarlaust á hægri akreininni alla leiðina en umferðin á vinstri akreinni var öllu hægari. Eftir gott atlæti í Hafnarfirði ók ég áleiðis heim, en kom við í Mjóddinni og ætlaði að kaupa jólagjöf númer tíu, en hún var uppseld. Um leið komst ég að því að Einar Már Guðmundsson rithöfundur er rétthendur eins og ég og Clinton og Leonardo da Vinci.
Síðan var farið heim að pakka jólagjöfum. Ekki lengi gert sem lítið er.
-----oOo-----
Það er svo í góðu lagi að nefna að friðargangan 2007 leggur af stað frá Hlemmi klukkan 18.00 á sunnudag og verður gengið niður Laugaveg að venju. Ef einhver skyldi ekki vera viss, þá er gengið nánast sömu leið og Gay Pride. Í framhaldi af friðargöngunni er tilvalið að njóta mannlífsins í miðbænum og kíkja inn á einn og annan samkomustað í leiðinni (til að pissa?). Sjálf mun ég reyna að kíkja inn á Næsta bar enda búin að margsvíkjast um að koma þar við í haust.
Ég á ekki von á því að sonur Davíðs verði í göngunni þótt skammt sé til jóla þar sem fagnað verður fæðingu eins niðja Davíðs.
laugardagur, desember 22, 2007
22. desember 2007 - Þar brást vitið
Eins og fólk veit sem þekkir mig, hefi ég mikinn áhuga fyrir spurningakeppnum af ýmsu tagi og get látið öllum illum látum ef einhverjir bjánar svara einföldustu spurningum vitlaust eða út í hött.
Á föstudagskvöldið var spurningakeppni í sjónvarpinu og í lokin kom spurningin hvenær Mussólini hefði orðið forsætisráðherra Ítalíu. Liðið sem átti að svara, svaraði að sjálfsögðu út í hött og færðist þá svarrétturinn yfir til Garðbæinganna og þar greip túlípaninn spurninguna á lofti og sagði að það hefði verið nítjánhundruðtuttugu og eitthvað.
“Segðu bara 1923” öskraði ég á sjónvarpstækið mitt og Vilhjálmur fékk hugskeyti frá mér og nefndi árið 1923.
“YESSSSSSSSSSSSSSSSSSSS” öskraði ég á sjónvarpið mitt og barði í borðið svo kisurnar földu sig undir sófa.
“Nei það var vitlaust,” sögðu þá Simmi og Þóra, “það var 1922.”
Eins gott að ég var ekki látin taka þátt í þessari spurningakeppni.
föstudagur, desember 21, 2007
21. desember 2007 - Hvert getum við hin farið?
Á fimmtudagskvöldið var sagt frá því í fréttum að pólskir verkamenn væru farnir í jólafrí heim til Kraká, búnir að fá yfir sig nóg af rigningu og roki hér uppi á Íslandi. Eitt augnablik fylltist ég öfund en ekki lengi.
Þetta haust hefur verið andstyggilegt í veðufarslegu tilliti, svo andstyggilegt að síðustu tvo dagana hefi ég fremur kosið að fara á bílnum í vinnuna þessa nokkur hundruð metra sem ferðin tekur, allt vegna rigningar og roks og til þess að sleppa því að skilja eftir mig rennblauta slóðina hvar sem komið er innanhúss. Hrafnhildur jólakisa hefur ávallt kosið að fara út á morgnanna en verið fljót að snúa við og kúrir nú undir sæng. Þá hafa stormarnir fremur verið metnir eftir fjölda handklæða til að þurrka upp innan við svaladyrnar en metrum á sekúndu eða vindstigum. Sjálf er ég farin að laumast til að kíkja á auglýsingar frá ferðaskrifstofum og flugfélögum vitandi að ég kemst ekkert, ef ekki vegna vinnu, þá vegna skorts á aurum.
Eins og svo oft áður læt ég hugann reika aftur í tímann, öll þau skipti sem ég var fjarri átthögunum á jólum, ýmist úti á sjó eða í höfnum erlendis, svo ekki sé talað um árin sem ég bjó í Svíþjóð sem var um leið einmanalegasti tíminn hjá mér þar í landi þrátt fyrir gott viðurværi að öðru leyti. Jólin í Svíþjóð voru bara ekki sama og jólin á Íslandi þar sem ættingjar og vinir þurftu að sætta sig við rok og rigningu.
Ég er hætt að öfunda Pólverjana sem voru að halda heim í jólafrí. Ég þarf ekkert að öfunda þá. Ég er heima hjá mér þessi jólin og er að auki í vaktafríi á aðfangadag og jóladag.
Það er ég sem er öfundsverð af hlutskipti mínu :)
fimmtudagur, desember 20, 2007
20. desember 2007 - Jólalögin
Einhverju sinni á mínum yngri árum er legið var í höfn nærri New York skaust ég í bæinn að kaupa jólagjafir og eignaðist í leiðinni hljómkassettu með þeim Dolly Parton og Kenny Rodgers þar sem þau sungu saman jólalög. Ekki veitti af, því höfðum ekki heyrt í útvarpi öðruvísi en með skruðningum svo mánuðum skipti á meðan við vorum að sigla á milli Evrópu og Bandaríkjanna og kassettutækið því einasti möguleikinn á að geta hlustað á tónlist á ferðum okkar. Síðan þetta var, hefur þessi kassetta ávallt verið í uppáhaldi hjá mér.
Einstöku jólalög hafa oft komist nærri hjartanu þegar líður að jólum allt frá því Haukur söng um Sigga á síðum buxum og Sollu á bláum kjól, síðar Ómar með vísur um Gáttaþef og félaga. Á árunum um 1980 var það Ragga Gísla, en síðan man ég fá lög ef frá er talin kassettan með Dolly og Kenny. Að vísu er allnokkur fjöldi erlendra laga sem heillar mig, þá helst eldri jólalögin eins og White Christmas og lagið um hann Rúdolf. Þau lög minna mig þó fremur á verslunarferðir í erlendum stórborgum dagana fyrir jól. Það var svo löngu síðar og eftir að ég flutti heim aftur frá Svíþjóð, sem Borgardætur hrifu mig með söng sínum og er diskurinn þeirra jafnframt fyrsti geisladiskurinn sem ég eignast með jólalögum.
Á síðustu árum hefur svo Baggalútur átt aðventuna og jólalögin fyrir jólin auk þeirra sem áður er getið, en auk þeirra er texti lagsins Úti á sjó með áhöfninni á Kleifarberginu ávallt grípandi dagana fyrir jól.
Fyrir tveimur árum fannst mér kominn tími til að endurnýja kassettuna með Dolly og Kenny og varð ég fyrir vonbrigðum hvað eitt lag snerti. Heimsumból var horfið og í staðinn var komið eitthvert lag sem sem ég þekkti ekki.
miðvikudagur, desember 19, 2007
19. desember 2007 - Búin að öllu - næstumþví...
Það er segin saga að þegar ég er búin að skrifa á öll jólakortin og merkja þau finnst mér eins og að jólin megi koma. Nú er ég tilbúin til að taka á móti jólasveinunum og jólakettinum og get spilað jólalögin með góðri samvisku.
Ég er búin að næstumþví öllu. Búin að snúa öllu við í stofunni, hengja upp jólaskrautið og skrifa á jólakortin. Nú á ég bara eftir að sækja jólatréð niður í kjallara, kaupa nokkrar jólagjafir, ryksuga stofuna og versla feitt kjöt og jólaöl. Nú get ég farið með góðri samvisku niður á Næstabar á Þorláksmessukvöld og fagnað lokum undirbúnings jólanna.
Það er kannski eitt og annað eftir, en ég og kisurnar höfum ekki áhyggjur af smámunum.
mánudagur, desember 17, 2007
17. desember 2007 - Rjúpur, dúfur og heiðlóur
Einhverju sinni gekk sú saga í Reykjavík, að einhverntímann þegar lítið var um rjúpur á markaðnum, hefði ónefndur kaupmaður í Reykjavík keypt töluvert af dúfnarækt unglinga, slátrað dúfunum og reitt þær, látið þær hanga um sinn í kofa, örlítið kynt í krækiberjalyngi undir þeim og síðan selt þær sem rjúpur.
Ekki veit ég sannleikann í sögunni, en þarna er kannski komin lausnin á rjúpnaskortinum í Reykjavík fyrir þessi jólin. Úr því fólk getur ekki látið vera að éta þessa friðsömu fuglategund sem helst nærist á krækiberjum, skiptir þá einhverju máli hvaða friðardúfutegund verður fyrst fyrir barðinu á gráðugum villibráðarætunum?
Sjálf hefi ég aðeins einu sinni á ævinni étið rjúpur. Ekki þóttu mér þær neitt sérstakar á bragðið og tek flestan mannamat framyfir rjúpur og kæsta skötu á hátíðarborði. Þá er maður sömuleiðis laus við meltingartruflanir af því að kyngja höglunum.
Um leið má velta fyrir sér af hverju blessuð heiðlóan, þessi yndislegi vorboði okkar og þjóðargersemi, er ekki fremur étin á hátíðarborðinu en rjúpurnar, að minnsta kosti á meðan lítið er til af rjúpum.
sunnudagur, desember 16, 2007
16. desember 2007 - Breyttar jarðarfarir
Ég á í höndunum lítinn bækling upp á 12 síður auk kápunnar og var honum dreift við jarðarför Ingvars Gudmundson í Kanada í maí 2004. Í þessum bæklingi eru nokkur uppáhaldsljóð Ingvars sem leikin voru við jarðarförina, minningarorðin sem flutt voru á sex blaðsíðum, sálmarnir og nokkrar myndar frá hinum ýmsu tímum í ævi Ingvars og Pálínu konu hans, en þau voru alíslensk að ætterni þótt bæði væru fædd og uppalin i Kanada
Ég hefi veitt því athygli að nú er byrjað á að hverfa frá hinum gömlu, íhaldssömu og alltof sorglegu jarðarförum sem áður voru nánast algildar á Íslandi. Sumar jarðarfarir eru vissulega þess eðlis að sorgin ræður ríkjum, sérstaklega þegar fólki er kippt yfir landamæri lífs og dauða í blóma lífsins, en flestar eru þó til að minnast fólks sem kveður okkur að aflokinni langri ævi. Það er þó engin ástæða til að láta gamla sálma gegnumsýra hugann á efsta degi hins látna í stað þess að láta minninguna um hinn látna lifa áfram með okkur.
Nú er farið að örla á því að formálinn að minningargreinum er farinn að birtast í bæklingi sem dreift er við jarðarfarir. Það er vel og þá er ekki verra að hafa fleiri myndir af góðum stundum í lífi hins látna en þá sem birtist með dánartilkynningunni í Morgunblaðinu.
Þegar ég sá fyrst bæklinginn um Ingvar Gudmundson ákvað ég að geyma hann því þarna var komin jarðarför að mínu skapi þar sem hinn látni var í sviðsljósinu en ekki sálmarnir. Börnin mín vita svosem ágætlega hvaða lög á leika við jarðarförina mína, en ætli ég verði ekki sjálf að semja minningarorðin um mig. Það þekkir mig víst enginn betur en ég sjálf.
-----oOo-----
Í dag á afmæli Gylfi Pálsson sem oft var kallaður Pústmann í gamla daga. Hann getur því ekki lengur sagst vera 64. Megi hann lengi lifa og vil ég senda honum hamingjuóskir í tilefni dagsins.
laugardagur, desember 15, 2007
15. desember 2007 - Jólahlaðborð og kveðjustund
Það var jólahlaðborð hjá deildinni minni í vinnunni á föstudagskvöldið. Það var haldið á Grand Hótel og verð ég að viðurkenna að mér líst ljómandi vel á þær breytingar sem hafa orðið á hótelinu með nýju viðbyggingunni. Maturinn var góður og þjónustan sömuleiðis.
Þótt vissulega hefði verið skemmtilegra að hafa hópinn betur saman, var þó ágæt tilbreyting í að hitta fólk utan hópsins í litla salnum á Grand Hótel, meðal annarra Sigríði sem var með á Dale Carnegie síðasta vetur sem og Ernu, en við vorum að vinna saman hjá Eimskip áður en við kvöddum fósturjörðina árið 1989, hún til Þýskalands og ég til Svíþjóðar.
Við jólahlaðborðið voru veittar óvæntar viðurkenningar fyrir þátttöku okkar í spurningakeppni sviðanna hjá Orkuveitunni og þar sem ég fékk gjafabréf á málsverð á Lækjarbrekku. Annar þátttakenda lagði til að við færum saman í skötuveislu á Lækjarbrekku, en ég segi bara eins og einn vinnufélaganna sem var rekinn frá Vestfjörðum af því að hann borðar ekki kæsta skötu: Ég skal borða á Lækjarbrekku hvenær sem er, bara ekki á Þorláksmessu.
-----oOo-----
Ágætur kunningi minn og fyrrum skólafélagi úr Vélskólanum var jarðsunginn á föstudaginn. Geir Geirsson yfirvélstjóri á Dettifossi lauk náminu nokkru á undan mér þótt hann væri tveimur árum yngri og þótt við hefðum aldrei siglt saman, var ágætis kunningsskapur á milli okkar. Ekki var það verra að hann var tengdasonur vinafólks míns úr Mosfellssveitinni, kvæntur Helgu dóttur Guðjóns Haraldssonar og Nínu Schjetne, en Guðjón og Pétur bróðir minn eru svilar, kvæntir sínhvorri dóttur Leifs heitins Schjetne frá Tromsö í Noregi.
Því miður komst ég ekki í jarðarförina. Vinnufélagi minn og skipsfélagi Geirs þar til í fyrra var beðinn um að bera kistuna og því sömdum við um að ég leysti hann af á vaktinni og hann bæri kveðju mína til fólksins.
Mig langar til að votta fjölskyldu Geirs mínar samúðarkveðjur, enda ávallt erfitt þegar krabbameinið tekur fólk alltof snemma frá okkur.
föstudagur, desember 14, 2007
14. desember 2007 - Mér þykir vænt um Kana!
Þótt ég hafi vissulega gengið Keflavíkurgöngur gegn herstöðvum og fyrir friði í heimi hér, hefur mér ávallt þótt Bandaríkjamenn yndislegt fólk heim að sækja. Ég minnist þess þá sérstaklega að á árunum eftir 1970 er ég hóf fyrst að sigla til Bandaríkjanna að ég leit inn á krá sem var rekin af þeldökkum og fyrst og fremst fyrir þeldökka. Er ég og skipsfélagar mínir birtumst inni á kránni varð uppi fótur og fit, hvern djöfulinn við værum að ybbast upp á þeirra krá? Um leið og fólkið þar inni áttaði sig á að við værum ekki hvítir Bandaríkjamenn heldur Íslendingar vorum við umsvifalaust tekin í sátt því eins og einn þeldökkur gesturinn útskýrði fyrir mér; þeirra óvinir væru ekki hvítir menn heldur hvítir Bandaríkjamenn.
Þegar ég heyrði af niðurlægjandi framkomu bandarískra yfirvalda gagnvart íslenskri konu í New York fór ég að velta þessum hlutum fyrir mér. Þá mundi ég eftir því að þótt varasamt væri að stríða yfirvöldum í Massachusetts eða Virginia, voru yfirvöld þar þó öllu mannlegri en yfirvöldin í New York/New Jersey. Alltaf var það Strandgæslan (USCG) í New York sem var til vandræða.
Einhverju sinni minnist ég þess er einn stýrimaðurinn hjá okkur og áhugamaður um skotveiðar, hafði keypt sér efni til haglaskotagerðar í Norfolk og ætlaði hann sér að taka efnið með sér til Íslands. Er komið var til New York var allt efnið gert upptækt í samræmi við lög frá 1942 um bann við útflutningi á skotfærum vegna styrjaldarinnar þar sem andvirði efnisins fór yfir 10$. (eða voru það 5$?)
Þá má ekki gleyma því er skipið var kyrrsett að vori til vegna þess að haffærisskírteinið gilti til 3. október 1981 (skrifað 3.10.1981), en USCG las dagsetninguna sem March 10, 1981 (skrifað 3.10.1981) og stoppuðu skipið. Aldrei hafði verið gert veður út af slíku í Norfolk. Það tók sólarhring að fá leiðrétt haffærisskírteini frá Íslandi.
Einhverju sinni vorum við kyrrsett í nokkra klukkutíma í New York vegna þess að sjókortin fyrir New York voru ekki stimpluð af USCG. Það kom nýtt og stimplað sjókort um borð og við fengum að halda úr höfn. Eftir brottför fór skipstjórinn að skoða sjókortin og reyndist nýja sjókortið vera úr sömu prentun og það sem fyrir var um borð. Það var bara enginn stimpill frá USCG á því sem fyrir var um borð.
Þar sem þessi pistill er áróður gegn USCG í New York, ætla ég ekkert að nefna atvikið þegar tollurinn í Norfolk gerði íslenskan dagblaðabunka upptækan af því að mynd af saumsprettu á hné á sundfötum Sóleyjar Tómasdóttur var á bls 3 í DV, (lygi, það var ekki mynd af sundfötum Sóleyjar Tómasdóttur, það var mynd af fáklæddri íslenskri stúlku í blaðinu og því var allur íslenski dagblaðabunkinn gerður upptækur sem klám) en hann hafði verið ætlaður íslenskri fjölskyldu í Norfolk. Síðan skrapp einhver í bæinn og keypti þau svæsnustu klámrit sem hægt var að fá á þeim tíma. Hljómar eins og tvískinnungur.
Mér þykir samt vænt um Bandaríkjamenn.
fimmtudagur, desember 13, 2007
13. desember 2007 - Dýrkeypt málverk
Um daginn komst ég yfir málverk af Snæfellsjökli séðan frá sjónarhóli þeirra sem búa í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Þótt ég hafi einungis þurft að greiða lítið fyrir málverkið, fann ég hvernig það kallaði á mig rétt eins og Snæfellsjökull gerir og minnug forfeðra minna sem stunduðu fiskveiðar í námunda við Jökulinn, varð ég að finna málverkinu réttan stað á heimilinu.
Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að snúa öllu á annan endann, breytti gömlu borðstofunni úr bóka/vinnuherbergi í borðstofu og flutti bókasafnið og vinnuaðstöðuna inn í stofu. Ég sá strax að ég yrði að mála á bakvið bókaskápana svo það var hlaupið út í Múskó og keypt málning. Síðan bæti ég við einni einingu af Billy bókaskápum til þess að þekja einn vegg með bókum. Nóg er víst til af bókunum hjá mér, misvel lesnar en flestar að gagni.
Það er komin rúm vika síðan ég byrjaði að breyta og enn sér ekki fyrir endann á breytingunum. Ég get þó huggað mig við að Snæfellsjökull er kominn á sinn stað við endann á borðstofuborðinu og að kisurnar mínar eru aðframkomnar af skorti á athyglissýki.
Kosturinn við breytingarnar er þó sá að ég hefi rutt svo rækilega til í bókahillunum.
miðvikudagur, desember 12, 2007
12. desember 2007 - Keflavíkurvegurinn og jólasveinaseglar
Ég keyrði fólk suður á Miðnesheiðarflugvöll í nótt. Leiðinleg þessi morgunflug.
Þótt vissulega væri Keflavíkurvegurinn orðinn að einum saltpækli, var ekki sömu sögu að segja um efribyggðir í Reykjavík og íbúðargötur í Kópavogi. Eins gott að vinstrigræni eðalvagninn er fjórhjóladrifinn svo spara má nagladekkin.
Ég fékk á tilfinninguna að einhver rassía væri í gangi hjá lögreglunni því ég kom þrisvar að þar sem lögregla virtist hafa stöðvað fólk fyrir hraðakstur eða ölvun.
-----oOo-----
Um daginn keypti ég tvo pakka af jólasveinaseglum á ísskápa til áminningar börnum sem vandræðast með nöfn þessara ágætu heiðursmanna. Þetta ætlaði ég mínum eigin barnabörnum. Hvar sem ég kom, vildu allir eignast svona og áður en varði hafði ég selt á annan tug slíkra pakka. Að endingu varð ég að skreppa upp í Mosó og kaupa fleiri svo eigin barnabörn fengju líka svona sniðuga segla.
Þessir bráðsniðugu seglar eru enn til og seldir í Innrömmun E.S.S. Háholti 13-15 í Mosfellsbæ, við hliðina á Mosfellsbakarí. Einnig er hægt að fá svona pakka í leikskólum Mosfellsbæjar og hjá riturum Varmárskóla og Lágafellsskóla. Hver pakki kostar aðeins 1300 krónur og ágóðinn rennur beint til styrktar Skólahljómsveit Mosfellsbæjar. Netfang skólahljómsveitarinnar er skomos@ismennt.is
Þess má geta að upphafsmaðurinn að þessari ágætu skólahljómsveit var Birgir Sveinsson kennari og síðar skólastjóri Varmárskóla, en hann varð fyrir þeim hræðilegu örlögum að þurfa að kenna mér lexíurnar mínar í nokkur ár frá því hann kom úr námi árið 1960.
þriðjudagur, desember 11, 2007
11. desember 2007 - Jólastressið byrjað
Ég þurfti að skreppa út í Húsasmiðju á mánudagskvöldið að sækja mér nokkrar skrúfur til að festa upp vegghillur að hætti Ingvars Kamprad. Þar sem ég var komin inn á hringtorgið á Bæjarhálsi sem skilur á milli Bæjarbrautar og Hálsabrautar, kom lítill slyddujepplingur á útopnu, inn á hringtorgið og í veg fyrir mig svo ég mátti nauðhemla til að lenda ekki á honum. Eins gott að ég var á lítilli ferð og hafði tekið eftir glæfraakstri jepplingsins og gat því hægt enn frekar á mér áður en hann ók í veg fyrir mig.
Ég sá ágætlega andlitið á bílstjóra jepplingsins og sá að bílstjórinn hafði auðsjáanlega fengið jepplinginn hans afa síns lánaðan. Ekki léti ég sjá mig í kappakstri á svona ellilífeyrisþegaökutæki.
Er ég kom svo að götuhorninu neðan við vinnuna hennar Gurríar, kom lítill fólksbíll niður Stuðlahálsinn og ók viðstöðulaust í veg fyrir mig og aftur mátti ég nauðhemla til að koma í veg fyrir árekstur.
Það kemur svo umferðinni ekkert við að kornungur afgreiðslumaðurinn í Húsasmiðjunni reyndi að selja mér alltof stóra plasttappa fyrir litlar skrúfurnar sem ég var að kaupa og svo hélt hann fyrirlestur yfir mér um hvernig skrúfan hefur áhrif á plasttappann. Ég var heppin að taka ekki mark á drengnum.
mánudagur, desember 10, 2007
10. desember 2007 - Misnotkun veikindadaga!
Þegar ég var í skóla þótti aukavinna með skóla vera hið besta mál og því meiri aukavinna, því betra. Þá þurfti ekki að eltast við námslán eða aðra óáran sem þurfti svo að dragnast með í mörg ár eftir að skóla lauk.
Einhverju sinni er ég var í Vélskólanum, skrapp ég í lausaróðra í páskafríinu á bát suður með sjó. Ekki fór allt eins og ætlast var til því fyrsta róðurinn leið mér alveg hræðilega, verkjaði í allan kroppinn, með höfuðverk og illa sjóveik þrátt fyrir langa reynslu á sjó. Ég harkaði samt af mér og beit á jaxlinn og skilaði dagsverkinu eins og ætlast var til af mér. Daginn eftir komst báturinn ekki úr höfn sökum flensu sem herjaði á áhöfnina. Þá var ég farin að hressast.
Í fréttum ríkisútvarpsins á sunnudag hafa birst fréttir af rannsókn á misnotkun á veikindarétti Íslendinga. Þar kemur fram að landinn vinnur sér frekar til óbóta en að kvarta yfir lasleika. Því er ekki um misnotkun að ræða. Þessi rannsókn var reyndar óþörf því þessi staðreynd hefur lengi legið fyrir. Það er þá helst að mánudagsveiki hafi gert vart við sig meðal yngsta hluta þjóðarinnar, en þó í minni mæli en gengur og gerist meðal flestra annarra þjóða.
Þegar ég flutti til Svíþjóðar var heilbrigðisástand sænsku þjóðarinnar slíkt að ráða þurfti fjóra menn í hver þrjú störf. Nokkrum árum síðar var verulega hert á veikindaréttinum þannig að fyrsti dagurinn í veikindum var launalaus. Um leið batnaði heilsa þjóðarinnar til mikilla muna. Síðar var rætt um að fjölga launalausum veikindadögum í tvo, væntanlega í því skyni að bæta heilsuna enn frekar, en ekki veit ég hvort af því hafi orðið.
Fyrrum vinnufélagi minn á Íslandi var einhverju sinni orðinn svo máttfarinn í vinnunni að hann læddist til að leggjast útaf um stund í vinnutímanum í tvígang sama daginn. Um kvöldið veitti dóttir hans því athygli hve hann var orðinn fölur og rak hann til læknis og var hann umsvifalaust lagður inn á spítala, enda orðinn mjög blóðlítill vegna innri blæðinga. Hann náði góðri heilsu á stuttum tíma og mætti til vinnu fljótlega eftir spítaladvölina.
Það hafa heyrst raddir um að herða þurfi veikindareglurnar á Íslandi. Ég held að það yrði til alvarlegs skaða fyrir þjóðfélagið allt.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item181495/
sunnudagur, desember 09, 2007
9. desember 2007 - Að vera dáin í viku
Þegar ég bjó í Svíþjóð kom eitt sinn fyrir að maður einn sem bjó í Hässelby, sama hverfi og vinnan mín, hætti að mæta til vinnu. Hann svaraði ekki síma og því var honum sent uppsagnarbréf nokkru síðar. Svo leið og beið og maðurinn borgaði ekki húsaleiguna sína og var honum þá sagt upp íbúðinni sinni. Svo kom að því að bera skyldi manninn út og hið fyrsta sem starfsmenn fógeta sáu er þeir höfðu brotist inn í íbúðina var lík mannsins þar sem það hefði legið í 14 mánuði.
Bloggheimar eru sorgmæddir vegna konu einnar sem hafði verið látin í íbúð sinni í Hátúni í viku. Það vekur upp spurninguna hvort eldri borgarar og öryrkjar þurfi ekki að koma sér upp sjálfvirku viðvörunarkerfi, þ.e. hreyfiskynjara og/eða svokölluðu “dead-alarm”. Slíkt kerfi er víða komið í vélarúm skipa og virkar þannig að á ákveðnum tímafresti fer viðvörunarkerfi í gang og þarf þá að kvitta fyrir það. Ef það er ekki gert innan ákveðins tíma fer viðvörunarkerfi í gang þar sem vakt er allan sólarhringinn, t.d. í brú. Hættan með slíkt kerfi felst þó í að það gleymist að virkja kerfið þegar farið er niður í vél eða að það sé tekið úr sambandi.
Hreyfiskynjari á heimilum, t.d. staðsettur á salerni ætti að geta komið í sömu þarfir, en á sama hátt þarf að gæta þess að tilkynna ef farið er af heimilinu um tíma svo ekki sé verið að kalla út fólk að óþörfu.
Innan bloggheima er fólk að velta fyrir sér einmanaleika þessa fólks sem liggur dáin í viku. Það þarf ekkert að vera sökum einmanaleika. Ég bý ein ásamt kisunum mínum. Ég er ekkert með neina tilkynningaskyldu við fólk og stundum líða margir dagar án þess að ég hafi samband við einstöku ættingja mína eða þau við mig. Það eru því helst nágrannar mínir eða þá vinnan sem gætu gert viðvart ef eitthvað óvænt kæmi fyrir mig. Það er ekki þar með sagt að ég þjáist af einmanaleika þótt ég sé ekki daglega inni á gafli á ættingjunum.
Það er hinsvegar fyllsta ástæða til að gera ráð fyrir því að einmanaleikinn í samfélaginu fari að aukast og fréttir af löngu látnu fólki verði algengari.
Í Farsta í suðurhluta Stokkhólms greiddi kona ein öll sín útgjöld í gegnum greiðsluþjónustu og fékk mánaðarlega eftirlaunin sín inn á reikninginn. Þegar húsvörðurinn þurfti að brjótast inn til hennar vegna þess að yfirfara þurfti ofnakerfið þurfti hann að klofa yfir fimm ára birgðir af pósti og ruslpósti áður en hann komst að líkinu. Þar var einmanaleikinn tilefni til sorgar.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1307813
fimmtudagur, desember 06, 2007
6. desember 2007 - Jafnræði kynjanna!
Eins og gefur að skilja eru börnin mín hlynnt jafnrétti á sem flestum sviðum, eða það vona ég að minnsta kosti. Úr því að frumburður dóttur minnar varð strákur kom stelpa nokkrum árum síðar. Eldri sonurinn byrjaði á stelpu og því var eðlilegast að annað barnið hans yrði strákur.
Að sjálfsögðu fá þau Kristján og Berglind hamingjuóskir með drenginn sem fæddist klukkan 13.40 í dag, 52 cm og 15 merkur, á 90 ára afmæli sjálfstæðisyfirlýsingar Finnlands og á 25 ára afmæli kvennaathvarfsins.
-----oOo-----
Þess má geta að Kristján Eldjárn var fæddur þennan ágæta dag sem og bæjarstjórinn í Bolungarvík.
miðvikudagur, desember 05, 2007
6. desember 2007 - Mengun í Varmá?
Ég ætla ekki að byrja á langloku um klórslysið í Varmá í Hveragerði. Slík slys eru slæm og ég harma slíka atburði. Það er hinsvegar annað sem ég er að velta fyrir mér og það er annarskonar mengun.
Varmá í Hveragerði, rétt eins og Varmá í Mosfellssveit og fleiri, voru volgar frá því löngu fyrir upphaf byggðar á Íslandi. Þær drógu nafn sitt af heitu vatninu sem rann í þær þar til á síðustu árum þegar farið að var að nýta jarðhitann og þær kólnuðu niður. Því voru hinar volgu ár náttúrulega volgar. Að vísu get ég ekki séð að Varmá í Hveragerði hafi kólnað alveg niður þar sem mér sýnist að talsvert af hveravatni renni enn í ána.
Allt í einu er farið að stunda fiskeldi í þessum ám. Það hlýtur að vera nýtilkomið því vart hefur hálfsoðinn fiskurinn vaxið og dafnað í hveravatninu. Nú þegar rekið er upp ramakvein vegna þess að einhverjir fiskar hafa drepist, má þá ekki álykta sem svo að fiskur í þessum ám sé mengun, þ.e. breyting af mannavöldum frá náttúrulegu rennsli ánna?
Ég þarf engan besservisser til að svara mér. Fólk verður einfaldlega að svara hver fyrir sig og í hjarta sínu. Þar sem mér koma svör fólks ekkert við í þessu sambandi, er óþarfi að svara mér í athugasemdakerfinu.
5. desember 2007 - Gävlebocken
Tvennt er það sem sett hefur bæinn Gävle við austurströnd Svíþjóðar á kortið, Gevalia kaffi og Geithafurinn í Gävle. Þegar ég bjó í Svíþjóð fannst mér Lövbergs mun betra en Gevalia svo við skulum halda okkur við Gävlebocken.
Það var á fyrsta sunnudegi í aðventu árið 1966 sem kaupmenn í Gävle létu reisa risastóran geithafur úr hálmi og komu fyrir á hallartorginu (Slottstorget) í bænum. Á miðnætti á gamlárskvöld var kveikt í hafrinum og brann hann til ösku á örskammri stund. Brennuvargurinn náðist og var dæmdur fyrir íkveikju og skemmdarverk.
Næstu tvö árin á eftir fékk hafurinn að vera kyrr á stalli sínum á Slottstorget, en síðan byrjaði ballið. 1969 var aftur kveikt í hafrinum á gamlárskvöld, ári síðar sama dag og hann hafði verið reistur. Eftir þetta varð bruni hafursins í Gävle nánast eins og fastur viðburður í bæjarlífinu, ef ekki brenndur, þá eyðilagður á annan hátt. Brátt komust enskir veðbankar að hafrinum með því að hægt var að veðja um hversu lengi hann fengi að vera uppi áður en hann brann.
Nokkrum sinnum tókst reyndar að bjarga honum frá eyðileggingu, en vafalaust var spaugilegasta íkveikjan árið 2001. Þá var hann brenndur niður á Þorláksmessu af bandarískum túrhest sem hafði heyrt í samkvæmi að íkveikja hafursins væri hefð í Gävle.
En allt við endir hafa. Í fyrra var reistur geithafur úr sérstökum óbrennanlegum hálmi í Gävle. Þrátt fyrir tilraunir til að koma honum fyrir kattarnef, hélt hann alla jólahátíðina og var tekinn niður að afloknum jólum. Þessi sami jólageithafur hefur nú verið endurreistur á sama stað og í fyrra. Spurningin er bara hvort brennuvargarnir hafa fundið sér nýja aðferð eða hvort Gävlebocken fái að standa íbúum Gävle til ánægju en veðmálafíklum til mæðu?
mánudagur, desember 03, 2007
4. desember 2007 - Vondir karlar, Súdanir!
Skelfing er að heyra um dóm súdanskra yfirvalda yfir breskri kennslukonu sem lofaði nemendum sínum að kalla bangsann sinn Múhameð. Þarna var kominn hópur sem allur hefði getað orðið að miklum fyrirmyndum í múslímskum kennisetningum ef rétt hefði verið á málum haldið. Að auki hafa hundruð milljóna manna sem heita Múhameð getað fundið fyrir stolti yfir nafngiftinni. Eins gott að kennslukonunni var sleppt og hún send hið bráðasta úr landi áður en múslímskir bókstafstrúarmenn gerðu hana að píslarvætti.
Sjálfri myndi mér þykja mikill heiður ef einhver kallaði bangsann sinn í höfuðið á mér og mín vegna mega allir heimsins bangsar heita Anna. Eiginlega allir nema tveir, það er Múhameð bangsi í Súdan og sá sem hér er gerður að umtalsefni:
Rétthugsandi vinafólk mitt á yngri árum átti son sem hlaut gott og kærleiksríkt uppeldi. Þegar drengurinn var lítill eignaðist hann tuskubangsa og að sjálfsögðu kallaði hann bangsann sinn nafni sem vakti athygli, jákvæða eða neikvæða eftir atvikum, en alveg örugglega athygli, svo mikla að ég man enn nafnið á bangsanum, þremur áratugum síðar.
Þegar strákur fullorðnaðist þótti hann mælskur mjög og komst fljótt í forystuhóp innan ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins og síðan Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs. Maðurinn, sem ég ætla ekki að nafngreina, er enn mjög áberandi í þjóðlífinu og baráttunni á vinstri væng stjórnmálanna og verður það vonandi um langa framtíð.
Ég spyr ykkur sem lesið þetta. Hefði stráksi orðið jafn einlægur baráttumaður á vinstrivængnum ef foreldrarnir hefðu bannað honum að nefna bangsann sinn Stalín?
3. desember 2007 - Byrgismálið.
Þar sem ég er á kafi í jólatiltektum rekst ég á gamlar tímaritsgreinar sem fjalla um Guðmund Jónsson og kynlífshneyksli í Byrginu.
Brátt er komið ár frá því Kompás Stöðvar 2 “fletti” ofan af svindlinu og kynlífssvallinu sem sagt var eiga sér stað í Byrginu. Þjóðin fór stórum og beitti andlegri krossfestingu á vesalings Guðmund í Byrginu. Á gamla blogginu mínu reyndi ég að bera blak af karlskömminni og var samstundis skotin í kaf af réttsýnum bloggurum. Ég var á þeim tíma ekki enn komin með Moggablogg svo ég held enn andlegri líftóru minni.
Hvað hefur skeð síðan? Er búið að dæma manninn? Nei, ég veit ekki einu sinni hvort búið sé að ákæra manninn ári eftir að Byrgismálið kom upp á yfirborðið. Bloggheimar eru búnir að gleyma Byrgismálinu.
Á sínum tíma taldi ég að Guðmundur í Byrginu hefði gert góðverk í anda kristinnar trúar er hann var að hirða upp rónana af Hlemmi og Klambratúni og fara með þá í kristilega afvötnun. Ég er enn þeirrar skoðunar þótt hann hafi sennilega misnotað styrkina og misbeitt valdi sínu kynferðislega gagnvart ungum stúlkum sem leituðu til Byrgisins.
Ég hefi séð fólk fara á botninn í heimi alkóhólisma og fíkniefna og ég hefi heyrt af góðu fólki sem Guðmundur dró upp úr svaðinu og gerði að betra fólki með hjálp trúarinnar. Þótt ég sé ekki og hafi aldrei verið á þeirri kristilegu línu sem Guðmundur tilheyrir, þá hefi ég ávallt borið virðingu fyrir störfum Samhjálpar og öðrum samtökum sem hafa umfram alla aðra borið kærleika til þess fólks sem neðst stendur í samfélagsstiganum.
Því verður að krefjast þess að Byrgismálinu ljúki með dómi sem fyrst svo hægt sé að taka Guðmund í sátt aftur eða afneita hjálparstarfi hans til framtíðar.
sunnudagur, desember 02, 2007
2. desember 2007 - Hræðilegur blogg- og fréttaflutningur
Seint á laugardagskvöldið og fram á nótt hafa bloggarar verið iðnir við að kveðja litla drenginn sem varð fyrir bíl í Keflavík á föstudag. Mér finnst það sorglegt þegar haft er í huga að engin opinber dánartilkynning hefur komið fram í stóru fjölmiðlunum þegar þetta er ritað. Það má vera að drengurinn sé látinn, en það hlýtur að mega bíða með vondar fréttir þar til opinber staðfesting er fengin á andlátinu.
Vísir.is hefur það eftir Víkurfréttum að maðurinn sem handtekinn var á laugardag og grunaður um að hafa ekið á drenginn sé útlendingur. Til hvers þurfti að taka það fram? Ef þetta er rétti maðurinn, er hann alveg jafnsekur um að yfirgefið slysstað hvert sem þjóðerni hans er.
Sem fyrr er ég sannfærð um að maðurinn hafi ekið á drenginn í ógáti og að viðbrögð hans sem fólust í að flýja af slysstað séu til merkis um taugaáfall, fremur en einbeittan brotavilja.
Hvort sem drengurinn er lífs eða liðinn, þá eiga aðstandendur hans alla mína samúð sem og allir þeir sem reyndu sitt til að koma drengnum til hjálpar eftir slysið. Þótt það sé vissulega erfitt, þá á vesalings ökumaðurinn einnig samúð mína því hann mun þurfa að bera þennan þunga kross með sér það sem hann á eftir ólifað.
-----oOo-----
P.s. Sunnudagur eftir hádegi:
Þar sem opinber dánartilkynning er komin, vil ég votta fjölskyldu og öðrum aðstandendum litla drengsins samúðarkveðjur um leið og ég bið fyrir þeim öllum.
laugardagur, desember 01, 2007
1. desember 2007 - Svona gerir maður ekki!!!!
Það var vorið 1976. Ég hafði lokið síðasta prófi vorsins í skólanum um morguninn og komin heim. Var að undirbúa að undirbúa smágleðskap um kvöldið og að fara út á sjó daginn eftir. Skrapp út í búð og þar sem ég hafði farið yfir Rauðarárstíginn sá ég tvo smástráka, um það bil sex til sjö ára gamla, koma hlaupandi yfir götuna í átt til mín. Um leið kom bíll og lenti beint á öðrum stráknum sem kastaðist áfram og í götuna.
Við sem fyrst komum að reyndum að hlúa að stráknum. Fljótlega komu sjúkrabíll og lögregla og drengnum var komið með hraði á slysadeild. Ég gaf skýrslu til bráðabirgða í lögreglubíl sem hafði komið á vettvang, fór síðan út í búð verslaði það sem ég þurfti og fór svo heim aftur. Síðar kom í ljós að drengurinn sem varð fyrir bílnum náði sér að fullu á skömmum tíma þótt ástandið virtist alvarlegt í upphafi. Vesalings maðurinn sem hafði ekið á barnið var miður sín, svei mér þá ef ekki þurfti að keyra hann heim með hjálp lögreglu.
Þegar heim var komið hafði verið tilkynnt um dauðsfall í fjölskyldunni og hinn helmingurinn miður sín vegna dauða föður síns og slysið á götunni fyrir framan húsið gleymdist að sinni, án þess að ég segði frá því sem skeð hefði. Ég fór út á sjó daginn eftir og fljótlega hófust hringingar frá rannsóknardeild lögreglunnar sem átti eitthvað vantalað við mig. Það var svo ekki fyrr en ég kom í land þremur vikum síðar sem í ljós kom skýringin á því af hverju lögreglan vildi tala við mig, að gefa formlega vitnaskýrslu um slysið sem ég hafði orðið vitni að.
-----oOo-----
Sagan að ofan kom upp í huga mér er ég heyrði um bílstjórann sem stakk af eftir að hafa ekið á lítinn dreng og stórslasað hann. Svona gerir maður ekki. Maður keyrir ekki á barn og stingur af.
Um leið verður að hafa í huga það taugaáfall sem maðurinn verður fyrir þegar hann uppgötvar að hann hefur ekið á barnið og hann flýr af vettvangi. Augnabliksviðbrögðin verða þau að fara í felur. Sjálf trúi ég ekki öðru en að viðkomandi ökumaður muni hafa samband við lögreglu um leið og hann hefur áttað sig á því sem hann hefur gert. Ekki vera of fljót að dæma og látum dómstólana um að dæma manninn fyrir röng viðbrögð á slysstað. Fyrst og fremst skulum við biðja fyrir barninu sem nú liggur illa sært á sjúkrahúsi áður en kemur að því að dæma fólk fyrir afbrotið.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1306388