Það var jólahlaðborð hjá deildinni minni í vinnunni á föstudagskvöldið. Það var haldið á Grand Hótel og verð ég að viðurkenna að mér líst ljómandi vel á þær breytingar sem hafa orðið á hótelinu með nýju viðbyggingunni. Maturinn var góður og þjónustan sömuleiðis.
Þótt vissulega hefði verið skemmtilegra að hafa hópinn betur saman, var þó ágæt tilbreyting í að hitta fólk utan hópsins í litla salnum á Grand Hótel, meðal annarra Sigríði sem var með á Dale Carnegie síðasta vetur sem og Ernu, en við vorum að vinna saman hjá Eimskip áður en við kvöddum fósturjörðina árið 1989, hún til Þýskalands og ég til Svíþjóðar.
Við jólahlaðborðið voru veittar óvæntar viðurkenningar fyrir þátttöku okkar í spurningakeppni sviðanna hjá Orkuveitunni og þar sem ég fékk gjafabréf á málsverð á Lækjarbrekku. Annar þátttakenda lagði til að við færum saman í skötuveislu á Lækjarbrekku, en ég segi bara eins og einn vinnufélaganna sem var rekinn frá Vestfjörðum af því að hann borðar ekki kæsta skötu: Ég skal borða á Lækjarbrekku hvenær sem er, bara ekki á Þorláksmessu.
-----oOo-----
Ágætur kunningi minn og fyrrum skólafélagi úr Vélskólanum var jarðsunginn á föstudaginn. Geir Geirsson yfirvélstjóri á Dettifossi lauk náminu nokkru á undan mér þótt hann væri tveimur árum yngri og þótt við hefðum aldrei siglt saman, var ágætis kunningsskapur á milli okkar. Ekki var það verra að hann var tengdasonur vinafólks míns úr Mosfellssveitinni, kvæntur Helgu dóttur Guðjóns Haraldssonar og Nínu Schjetne, en Guðjón og Pétur bróðir minn eru svilar, kvæntir sínhvorri dóttur Leifs heitins Schjetne frá Tromsö í Noregi.
Því miður komst ég ekki í jarðarförina. Vinnufélagi minn og skipsfélagi Geirs þar til í fyrra var beðinn um að bera kistuna og því sömdum við um að ég leysti hann af á vaktinni og hann bæri kveðju mína til fólksins.
Mig langar til að votta fjölskyldu Geirs mínar samúðarkveðjur, enda ávallt erfitt þegar krabbameinið tekur fólk alltof snemma frá okkur.
laugardagur, desember 15, 2007
15. desember 2007 - Jólahlaðborð og kveðjustund
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:43
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli