mánudagur, desember 17, 2007

17. desember 2007 - Rjúpur, dúfur og heiðlóur


Einhverju sinni gekk sú saga í Reykjavík, að einhverntímann þegar lítið var um rjúpur á markaðnum, hefði ónefndur kaupmaður í Reykjavík keypt töluvert af dúfnarækt unglinga, slátrað dúfunum og reitt þær, látið þær hanga um sinn í kofa, örlítið kynt í krækiberjalyngi undir þeim og síðan selt þær sem rjúpur.

Ekki veit ég sannleikann í sögunni, en þarna er kannski komin lausnin á rjúpnaskortinum í Reykjavík fyrir þessi jólin. Úr því fólk getur ekki látið vera að éta þessa friðsömu fuglategund sem helst nærist á krækiberjum, skiptir þá einhverju máli hvaða friðardúfutegund verður fyrst fyrir barðinu á gráðugum villibráðarætunum?

Sjálf hefi ég aðeins einu sinni á ævinni étið rjúpur. Ekki þóttu mér þær neitt sérstakar á bragðið og tek flestan mannamat framyfir rjúpur og kæsta skötu á hátíðarborði. Þá er maður sömuleiðis laus við meltingartruflanir af því að kyngja höglunum.

Um leið má velta fyrir sér af hverju blessuð heiðlóan, þessi yndislegi vorboði okkar og þjóðargersemi, er ekki fremur étin á hátíðarborðinu en rjúpurnar, að minnsta kosti á meðan lítið er til af rjúpum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli