Þrátt fyrir fulla samstöðu mína með björgunarsveitum, verð ég seint talin mikil áhugamanneskja um flugelda og önnur fýrverkerí.
Mér er þó sérstaklega í nöp við svokallaðar skottertur sem lagðar eru á jörðina og þegar kveikt er í þeim, kemur mikil reykmengun af þeim og svo sjást nokkur ljós skjótast upp úr reykmökknum og springa svo með háum hvelli. Þegar líður að miðnætti á gamlárskvöld verður mengunin slík af þessum skottertum og blysum að ekki sést lengur handa sinna skil og ef staðið er á hæð ofan við borgina, sést ekkert nema reykur og svo einn og einn flugeldur sem skýst upp úr reykjarkófinu og springur.
Þegar haft er í huga að ég er nýbúin að eyða stórfé í jólagjafir hefi ég ekki efni á skottertum eða flugeldum og því eru góð ráð dýr ef ég vil ekki vera minni en nágrannarnir og tómhent úti í garði á miðnætti á gamlárskvöld get ég ekki staðið. Ég tek þá fram grillkveikjarann minn, rölti út í garð og stilli mér upp við hliðina á einhverjum nágrannanum og býðst til að hjálpa honum að kveikja í draslinu, lána honum kveikjarann og fæ jafnvel að kveikja í einum og einum flugeld. Það gefur alveg sömu ánægjuna og ef ég hefði sjálf keypt þessa flugelda, bara miklu ódýrara.
-----oOo-----
Eins og flestum Íslendingum ætti að vera kunnugt, er dagurinn í dag mikill merkisdagur fyrir margra hluta sakir, ekki einungis vegna þess að Saddam nokkur Hussein var hengdur þennan dag fyrir ári síðan. Svei mér ef Raspútín nokkur var ekki líka drepinn þennan merkisdag. Þannig á allnokkur hópur fólks afmæli í dag.
Mig langar til að óska öllum afmælisbörnum dagsins til hamingju með daginn, þar á meðal Tracey Ullman söngkonu, Öddu Báru Sigfúsdóttur veðurfræðingi, Tiger Woods kylfuslagara, Ben Johnson hlaupagarp, Títusi Rómarkeisara, mér, Patti Smith söngkonu og öpunum í the Monkees, þeim Michael Nesmith og Davy Jones. Síðast en ekki síst má ekki gleyma Albert frænda hjá Hitaveitu Suðurnesja og Rannveigu konu hans sem bæði eiga afmæli í dag.
sunnudagur, desember 30, 2007
30. desember 2007 - Um fýrverkerí og aðra óáran!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:13
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli