laugardagur, desember 01, 2007

1. desember 2007 - Svona gerir maður ekki!!!!

Það var vorið 1976. Ég hafði lokið síðasta prófi vorsins í skólanum um morguninn og komin heim. Var að undirbúa að undirbúa smágleðskap um kvöldið og að fara út á sjó daginn eftir. Skrapp út í búð og þar sem ég hafði farið yfir Rauðarárstíginn sá ég tvo smástráka, um það bil sex til sjö ára gamla, koma hlaupandi yfir götuna í átt til mín. Um leið kom bíll og lenti beint á öðrum stráknum sem kastaðist áfram og í götuna.

Við sem fyrst komum að reyndum að hlúa að stráknum. Fljótlega komu sjúkrabíll og lögregla og drengnum var komið með hraði á slysadeild. Ég gaf skýrslu til bráðabirgða í lögreglubíl sem hafði komið á vettvang, fór síðan út í búð verslaði það sem ég þurfti og fór svo heim aftur. Síðar kom í ljós að drengurinn sem varð fyrir bílnum náði sér að fullu á skömmum tíma þótt ástandið virtist alvarlegt í upphafi. Vesalings maðurinn sem hafði ekið á barnið var miður sín, svei mér þá ef ekki þurfti að keyra hann heim með hjálp lögreglu.

Þegar heim var komið hafði verið tilkynnt um dauðsfall í fjölskyldunni og hinn helmingurinn miður sín vegna dauða föður síns og slysið á götunni fyrir framan húsið gleymdist að sinni, án þess að ég segði frá því sem skeð hefði. Ég fór út á sjó daginn eftir og fljótlega hófust hringingar frá rannsóknardeild lögreglunnar sem átti eitthvað vantalað við mig. Það var svo ekki fyrr en ég kom í land þremur vikum síðar sem í ljós kom skýringin á því af hverju lögreglan vildi tala við mig, að gefa formlega vitnaskýrslu um slysið sem ég hafði orðið vitni að.

-----oOo-----

Sagan að ofan kom upp í huga mér er ég heyrði um bílstjórann sem stakk af eftir að hafa ekið á lítinn dreng og stórslasað hann. Svona gerir maður ekki. Maður keyrir ekki á barn og stingur af.

Um leið verður að hafa í huga það taugaáfall sem maðurinn verður fyrir þegar hann uppgötvar að hann hefur ekið á barnið og hann flýr af vettvangi. Augnabliksviðbrögðin verða þau að fara í felur. Sjálf trúi ég ekki öðru en að viðkomandi ökumaður muni hafa samband við lögreglu um leið og hann hefur áttað sig á því sem hann hefur gert. Ekki vera of fljót að dæma og látum dómstólana um að dæma manninn fyrir röng viðbrögð á slysstað. Fyrst og fremst skulum við biðja fyrir barninu sem nú liggur illa sært á sjúkrahúsi áður en kemur að því að dæma fólk fyrir afbrotið.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1306388


0 ummæli:







Skrifa ummæli