miðvikudagur, desember 05, 2007

5. desember 2007 - Gävlebocken


Tvennt er það sem sett hefur bæinn Gävle við austurströnd Svíþjóðar á kortið, Gevalia kaffi og Geithafurinn í Gävle. Þegar ég bjó í Svíþjóð fannst mér Lövbergs mun betra en Gevalia svo við skulum halda okkur við Gävlebocken.

Það var á fyrsta sunnudegi í aðventu árið 1966 sem kaupmenn í Gävle létu reisa risastóran geithafur úr hálmi og komu fyrir á hallartorginu (Slottstorget) í bænum. Á miðnætti á gamlárskvöld var kveikt í hafrinum og brann hann til ösku á örskammri stund. Brennuvargurinn náðist og var dæmdur fyrir íkveikju og skemmdarverk.

Næstu tvö árin á eftir fékk hafurinn að vera kyrr á stalli sínum á Slottstorget, en síðan byrjaði ballið. 1969 var aftur kveikt í hafrinum á gamlárskvöld, ári síðar sama dag og hann hafði verið reistur. Eftir þetta varð bruni hafursins í Gävle nánast eins og fastur viðburður í bæjarlífinu, ef ekki brenndur, þá eyðilagður á annan hátt. Brátt komust enskir veðbankar að hafrinum með því að hægt var að veðja um hversu lengi hann fengi að vera uppi áður en hann brann.

Nokkrum sinnum tókst reyndar að bjarga honum frá eyðileggingu, en vafalaust var spaugilegasta íkveikjan árið 2001. Þá var hann brenndur niður á Þorláksmessu af bandarískum túrhest sem hafði heyrt í samkvæmi að íkveikja hafursins væri hefð í Gävle.

En allt við endir hafa. Í fyrra var reistur geithafur úr sérstökum óbrennanlegum hálmi í Gävle. Þrátt fyrir tilraunir til að koma honum fyrir kattarnef, hélt hann alla jólahátíðina og var tekinn niður að afloknum jólum. Þessi sami jólageithafur hefur nú verið endurreistur á sama stað og í fyrra. Spurningin er bara hvort brennuvargarnir hafa fundið sér nýja aðferð eða hvort Gävlebocken fái að standa íbúum Gävle til ánægju en veðmálafíklum til mæðu?


0 ummæli:







Skrifa ummæli