Seint á laugardagskvöldið og fram á nótt hafa bloggarar verið iðnir við að kveðja litla drenginn sem varð fyrir bíl í Keflavík á föstudag. Mér finnst það sorglegt þegar haft er í huga að engin opinber dánartilkynning hefur komið fram í stóru fjölmiðlunum þegar þetta er ritað. Það má vera að drengurinn sé látinn, en það hlýtur að mega bíða með vondar fréttir þar til opinber staðfesting er fengin á andlátinu.
Vísir.is hefur það eftir Víkurfréttum að maðurinn sem handtekinn var á laugardag og grunaður um að hafa ekið á drenginn sé útlendingur. Til hvers þurfti að taka það fram? Ef þetta er rétti maðurinn, er hann alveg jafnsekur um að yfirgefið slysstað hvert sem þjóðerni hans er.
Sem fyrr er ég sannfærð um að maðurinn hafi ekið á drenginn í ógáti og að viðbrögð hans sem fólust í að flýja af slysstað séu til merkis um taugaáfall, fremur en einbeittan brotavilja.
Hvort sem drengurinn er lífs eða liðinn, þá eiga aðstandendur hans alla mína samúð sem og allir þeir sem reyndu sitt til að koma drengnum til hjálpar eftir slysið. Þótt það sé vissulega erfitt, þá á vesalings ökumaðurinn einnig samúð mína því hann mun þurfa að bera þennan þunga kross með sér það sem hann á eftir ólifað.
-----oOo-----
P.s. Sunnudagur eftir hádegi:
Þar sem opinber dánartilkynning er komin, vil ég votta fjölskyldu og öðrum aðstandendum litla drengsins samúðarkveðjur um leið og ég bið fyrir þeim öllum.
sunnudagur, desember 02, 2007
2. desember 2007 - Hræðilegur blogg- og fréttaflutningur
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 02:33
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli